Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðrænn húmanismi og skynsemisstefna

Siðrænn húmanismi og skynsemisstefna (rationalismi): Yfirlýsing um gildismat mitt í lífinu, maí 2006. (Byggt að hluta til á yfirlýsingu Paul Kurtz[1]). Undirstrikun hér er gerð í tilefni fyrirlestrar 20.05.2006 en þar er að finna helstu viðbætur mínar við upphaflega yfirlýsingu Kurtz.

  • Sjálf ráðum við lífi okkar svo framarlega sem líferni okkar skaðar ekki aðra.
  • Grundvöllur hugmynda okkar er að skynsemi og vísindi skapi skilning okkar á alheiminum og viðfangsefnum samfélagsins. Nýjar hugmyndir eiga að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti á að vantreysta þeim.
  • Við hörmum allar þær tilraunir sem í gangi eru til að gera sem minnst úr mannlegri skynsemi og leita í staðinn skýringa og björgunar í yfirnáttúrulegum fyrirbærum eða í óábyrgri afstæðishyggju þar sem skynsemisstefnu er hafnað.

 

  • Nauðsynlegt er að styðjast við réttmætar alhæfingar um samfélagið sem viðmið um þau sjónarmið sem mótar það, en um leið hafa í huga að ný sannindi og ný hugsun gera slíkar alhæfingar síbreytilegar.

 

  • Stuðla ber að opnu, víðsýnu og fjölþættu samfélagi. Lýðræði er besti kosturinn til að vernda mannréttindi bæði gagnvart einræðissinnuðum forréttindahópum og umburðarlitlum fjöldahreyfingum.
  • Efla ber hæfileikann til að ná samkomulagi og sáttum og á þann hátt reyna að leysa ágreining og efla gagnkvæman skilning manna á meðal.
  • Hjálpa þarf þeim sem eiga við fötlun eða sjúkdóma að stríða þannig að þau geti hjálpað sér sjálf.
  • Tryggja ber réttlæti og sanngirni og útrýma umburðarleysi og ofsóknum.Yfirstíga ber skiptingu manna í fjandsamlega hópa eftir kynáttum, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð og fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum til góðs fyrir mannkyn allt.
  • Réttinn til einkalífs ber að virða. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni hver sem hún er að eigin vild, að eignast börn samkvæmt eigin ákvörðunum, að hafa aðgang að víðtækri og góðri heilbrigðisþjónustu og fá að deyja í reisn.
  • Fylgja ber almennum siðrænum verðmætum: Tillitssemi, heiðarleika, drengskap, sannsögli, ábyrgð. Þetta eru skýlausar siðrænar reglur. Eigi að síður á ávallt að leggja á þessar reglur mælistiku gagnrýnnar og upplýstrar hugsunar.

 

  • Mikla áherslu ber að leggja á siðmennt barna okkar.
  • Efla ber listir engu minna en vísindi.
  • Stuðla ber að lærdómi en ekki kreddum, sannleika en ekki fáfræði, umburðarlyndi en ekki ótta, skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.

Paul Kurtz , (f. 1925) er prófessor emeritus í heimspeki við New York State University (Buffalo). Hann hefur skrifað fjölmargar bækur til stuðnings bæði siðrænum og veraldlegum húmanisma og gegn öllum tilraunum til að gera lítið úr vísindahyggju og skynsemisstefnu hver sem hlut á að máli. Hann stofnaði samtökin Council for Secular humanism, útgáfufélagið Promotheus og var aðalmaðurinn við útgáfu tímaritsins FREE INQUIRY, Celebrating Reason and Humanity. Kurtz var einnig upphafsmaðurinn að stofnun ritsins SKEPTICAL INQUIRER., The magazine for Science and Reason. Mest hefur hann deilt á tvo hópa, annars vegar „töframenn“ og miðla sem þykjast gera „yfirnáttúrulega hluti“ og hins vegar kristna umburðarlausa bókstafstrúarmenn sem gnótt virðist vera af í heimalandi

hans.

—————————————————————————————————————————

Skv. almennri orðaskilgreiningu merkir húmanismi einfaldlega að lögð er áhersla á gildi og hegðun mannsins hér og nú á jörðinni en ekki að þetta mannlíf sé aðeins keðja í einhvers konar flökti milli jarðar annars vegar og himins og helvítis hins vegar (klassísk kristni og Islam) eða frá einum líkama til annars, sbr. kenningar um endurholgun (hindúismi, flestar greinar búddisma). Húmanismi rekur upphaf sitt til ítölsku endurreisnarinnar. Margir húmanistar fyrri alda töldu sig því vera kristna, sbr, Erasmus af Rotterdam. En þeir sættu ofsóknum í vaxandi mæli á 16. og l7. öld, rit þeirra voru bönnuð og sumir enduðu tilvist sína á bálinu.

Með Upplýsingunni (skynsemisstefnunni, rationalismanum) á 18. öld var hugmyndafræði húmanismans bæði endurreist og styrkt. Hún gat birst sem „rationalísk“ kristni; þá rökréttast í formi náttúruguðfræðinnar, vissulega skapaði guð heiminn en síðan lét hann manninn sjá um frekari útfærrslu sköpunarverksins með frjálsum vilja sínum. Þessi guðfræði varð mjög sterk á Íslandi og er það enn þá; kemur skýrt fram í þessu vísubroti Steingríms Thorsteinssonar: „Trúðu á tvennt í heimi/tign sem hæsta ber/Guð í alheimsgeimi/guð í sjálfum þér“. „Aldamótaguðfræðin“ íslenska bar framan af skýr mörk rationalískrar kristni en erlendis er það einkum Únitarisminn sem hefur haldið merki hennar á lofti í minnst tvær aldir

En nokkrir upplýsingarmenn vildu ganga lengra og afneituðu öllu yfirnáttúlegu í nafni húmanismans. Í Bandaríkjunum söfnuðust slíkir einstaklingar saman í sérstök lífskoðunar- eða trúarsamtök, þekktust eru samtökin sem Felix Adler stofnaði í New York, Ethical Culture. (Heitið Siðmennt á íslenska félaginu fyrir siðrænan húmanisma, er augljós bein þýðing á Ethical Culture). Í nafninu felst að í stað trúar á trúarleg siðalögmál sameinast frjálsir einstaklingar saman til að hugleiða lífið og tilveruna án trúar á guð og spyrja einkum hver ættu að vera réttmæt siðræn viðhorf sín. Þaðan kemur heitið siðrænn húmanismi.

Á 20. öldinni varð siðrænn húmanismi meginlífsskoðun víða, einkum í Evrópulöndum, og gömul félög rationalista hafa búið til sérstakar yfirlýsingar um sameiginleg siðræn gildi sín. Skilgreina má existantialisma Sartres sem góða viðbót við siðrænan húmanisma, sbr. upphafsorð frumkvöðuls bresks siðræns húmanisma., H.J. Blackhams, í grundavallarriti sínu, Humanism (1968): „Humanism proceeds from the assumption that man is on his own and this life is all…“ Blackham fannst Sartre að vísu vera full afdráttarlaus um mannlega sjálfsábyrgð og bætti við umtalsverðri siðrænni umhyggju fyrir náunga þínum. Fyrir tilstuðlan slíkra manna eins og Blackham varð hið siðræna æ sterkara í félögum húmanista og tók jafnvel á sig að mati sumra fremur trúarlegt yfirbragð sem var umdeilt.

Paul Kurtz var löngum meðal forystumanna siðrænna húmanista í BNA en þau samtök dugðu honum ekki til að deila á loddara og hættulega bókstafstrúarmenn. Hann stofnaði því, samtímis starfi sínu fyrir siðræna húmanista, samtök um veraldlegan húmanisma (Secular Humanism) sem hafði það meginmarkmið að berjast gegn hindurvitnum. Þessi samtök eru þannig sögulega séð í beinu framhaldi af atheistasamtökum evrópskum í tímans rás meðan siðrænn húmanismi styðst meira við agnostisma, en grundvöllur þess er: Ég trúi ekki meðan það er ekki sannað en hvað verður sannað um tilvist guðs í framtíðinni veit ég ekki..

Mismunur atheisma og agnostisisma er aðeins heimspekilegur og hindrar engan veginn náið samstarf sannfærðra guðleysingja og skýlausra efahyggjumanna.


[1] Um Paul Kurtz, svo og um húmanisma , sjá næstu síðu

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit