Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Kolefnisjöfnun Siðmenntar fyrir árið 2018

Stjórn Siðmenntar hefur kolefnisjafnað reglulega starfssemi félagsins fyrir árið 2018. Undir reglulega starfssemi fellur keyrsla framkvæmdastjóra vegna vinnu og athafnastjóra til og frá athöfnum ásamt flugi, bæði innanlands og erlendis. Keyrsla á vegum Siðmenntar árið 2018 var um 45 þúsund kílómetrar og svo voru 4 flug til og frá Evrópu svo og 7 flug innanlands. Miðað við viðmið sem stjórnin notaði við útreikninga, þá kostar það um 85 þúsund krónur á ári að kolefnisjafna starfssemina með hefðbundnum leiðum.

Það eru ýmsir möguleikar til að kolefnisjafna í dag, bæði heima og erlendis. Stjórn Siðmenntar ákvað að fyrir árið 2018 yrði kolefnisjafnað með það að markmiði að hafa bæði áhrif til að draga úr losun almennt ásamt því að kolefnisjöfnunin hefði jákvæð áhrif á lífsgæði fólks. Stjórn Siðmenntar ákvað því að kolefnisjafna með eins beinum hætti og mögulegt er. Aukin menntun stúlkna og kvenna í þróunarlöndum er eitt veigamesta skrefið sem hægt er að stíga í baráttunni gegn hamfarahlýnun og hafa þannig bein áhrif til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að gefa vatnsdælur til þorpa í þróunarlöndunum má bæta líf kvenna og barna þar sem tíminn sem fer í sækja vatn dregst verulega saman sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði fjölskyldna í þorpunum. Með vatnsdælu fær heilt samfélag aðgang að hreinu vatni, sem bætir lífsgæði íbúa. Börnum gefst auk þess meiri tími til skólagöngu, heimanáms og þess að fá að vera börn og leika sér, sem eykur lífsgæðin enn frekar. Stjórn Siðmenntar gaf því tvær vatnsdælur frá Sönnum Gjöfum UNICEF, sem verða settar upp í 2 þorpum í þróunarlöndum. Þetta mun hafa bein áhrif til aukinar menntunar barna og gefa konum meiri tíma fyrir fjölskyldulífið.

Samkvæmt Drawdown verkefninu, þar sem reynt er að flokka verkefni og aðgerðir sem leiða til samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda, þá er tveimur verkefnum sem snúa að stúlkum og konum í þróunarlöndunum raðað í 6. og 7. sæti af 80 tegundum verkefna. Aukin menntun stúlkna í þróunarlöndum (e. educating girls) er 6. í röðinni og verkefni sem snúa að því að auðvelda fjölskyldum skipulag fjölskyldna (e. family planning) er 7. í röðinni. Kaup á vatnsdælum til uppsetningar í þorpum í þróunarlöndum hefur að mati stjórnarinnar bein áhrif á bæði þessi atriði.

Stjórn Siðmenntar mun í framtíðinni reyna að finna önnur verkefni sem hafa jákvæð áhrif á menntun, mannréttindi, réttlæti, styður við verðmæti jarðar og eykur lífsgæði almennt við kolefnisjöfnun starfssemi Siðmenntar. Við hvetjum almenning til að leita leiða til að láta gott af sér leiða við kolefnisjöfnun sína og svo er einnig hægt að gefa húmanískar gjafir yfir hátíðirnar, sem gefa af sér löngu eftir að pakkinn hefur verið opnaður.

Til baka í yfirlit