Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúarleg starfsemi í grunnskólum

Halldór Reynisson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu, svaraði þann 21. október síðastliðinn grein minni (Mbl. 15. okt s.l.) og gagnrýni fleiri, m.a. foreldris barns í Hofsstaðaskóla sem sendi bréf til allra íbúa Garðabæjar, á þjónustu Þjóðkirkjunnar í nokkrum grunnskólum sem kallast Vinaleiðin. Halldór vildi ekki skilgreina þjónustuna sem trúboð og sagði m.a. að „Við prestar og djáknar teljum þá sálgæslu sem við veitum vera til þess að hlusta og styðja á forsendum skjólstæðingsins sjálfs.“ og „Víst eru þeir [prestar / djáknar] fulltrúar kristninnar, en þeim ber að virða trúararf skjólstæðinga sinna og veita stuðning á forsendum þeirra.“ Hér vil ég minna á að djáknum í þessum skólum er heimilt að fá börnin ein í viðtöl án sérstaks leyfis foreldra. Hvernig á barn að geta útskýrt trúarlegar forsendur sínar? Hér að neðan er vitnað í lýsingu á því umhverfi þar sem þessi viðtöl fara fram í Varmárskóla og Lágafellsskóla:
„Faðir vor er í ramma á vegg og sjö boðorð voru í einlægni skrifuð á blátt blað. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í Lágafellssókn og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd.“


Eftirfarandi er lýsing á starfsemi djákna í skóla:
* djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
* djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning
* djákni er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju
* djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna bæði í skólunum og í kirkjum safnaðarins
* djákni aðstoðar kennara og starfsfólk að taka á erfiðum málum og undirbúa þau.
* djákni veitir áfallahjálp
* djákni leiðbeinir inni í bekkjum s.s. um góðan bekkjaranda, góða siði, tillitsemi, umburðarlyndi, ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann, svarar spurningum sem upp koma við andlát aðstandenda, stöðvar einelti o.s.frv.
* djákni aðstoðar kennara við sérstök verkefni í kristnum fræðum s.s. kynningu á kirkjuhúsinu sjálfu og kirkjulegum munum. (Tilvitnun lýkur).

Af þessu er ljóst að djákni er einnig með starfsemi inni í bekkjum og leiðbeinir um siðferðislega hegðun auk þess að halda bæna- og helgistundir. Þetta er brot á jafnræðisreglu og mannréttindum barna skv. 29. gr. íslenskra laga um grunnskóla og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Meginpunktur gagnrýni minnar og margra fleiri er sú að trúarleg starfsemi, hvort sem hún kallast þjónusta eða trúboð, á ekki rétt á sér innan veggja ríkisrekinna skóla landsins. Þegar manneskja sem býður þjónustu sína í skóla er á vegum trúflokks er ekki hægt annað en að flokka þá þjónustu sem trúarlega, burt séð frá því hvert innihaldið er. Kærleikur, sálgæsla, áfallahjálp eða annað innihald skiptir ekki máli í því sambandi. Vegna aðstöðumunar sóttist Siðmennt, félag siðrænna húmanista, fyrir um 17 árum, eftir því að kynna borgaralega fermingu í skólum en var hafnað (réttilega) á grunni þess að auglýsingar væru bannaðar í skólum og einn skólastjóri benti á að þá gætu ýmis trúfélög fylgt í kjölfarið. Siðmennt er ekki trúfélag en meðlimir þess aðhyllast ákveðnar lífsskoðanir sem byggjast á siðrænum húmanisma og er því ekki hlutlaus aðili. Hins vegar var ekkert gert til að taka á viðveru presta í skólunum og þeir fá að dreifa upplýsingamiðum um kristilega fermingu og setja fermingarfræðsluna í stundaskrá hjá sumum skólum. Börn í skólum landsins eiga rétt á því að fá hlutlausa fræðslu frá aðilum sem eru ekki á vegum neinna trú- eða lífsskoðunarfélaga. Þetta eru grundvallar- mannréttindi barna um allan heim og samþykkt af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Ég vona að fulltrúum Þjóðkirkjunnar takist að skilja þetta og setji sig í spor annarra. Þeim dugar ekki að vera með góðar meiningar. Þeir/þær þurfa, rétt eins og allir aðrir, að halda trúarstarfsemi sinni á réttum vettvangi, þ.e. í trúarlegum samkomuhúsum en ekki opinberum skólum. Einnig þurfa stjórnendur grunnskóla að taka þessi mál fyrir og vísa trúarlegri starfsemi út úr skólunum.

Höfundur er læknir og stjórnarmaður í Siðmennt.

Svanur Sigurbjörnsson

Til baka í yfirlit