Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hver er húmanisti ársins? Sendu okkur þínar tilnefningar

Siðmennt leitar að tilnefningum til húmanistaviðurkenningarinnar og fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar, en viðurkenningarnar verða afhentar á ársþingi Siðmenntar 15. febrúar næstkomandi. Ef þú ert með verðugan kandídat í huga, sendu okkur línu á sidmennt@sidmennt.is

En hvaða skilyrði þurfa þeir að uppfylla sem hljóta viðurkenningarnar?

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta húmanistaviðurkenninguna. Þeir sem hafa hlotið viðurkenninguna í gegnum árin koma úr ýmsum áttum og hafa starfað að fjölbreyttum málefnum, sem öll eiga það þó sameiginlegt að stuðla að betra og réttlátara samfélagi. Hægt er að lesa um fyrri viðurkenningahafa hér.

Siðmennt lætur sig fræðslumál og upplýsta umræðu hér á landi varða, vegna þess að eitt af þremur meginviðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar, rétt eins og siðfræðin. Við búum í samfélagi vísinda og tækni en samtímis búum við í samfélagi þar sem ríkir á stundum töluvert áhugaleysi um vísindi. Við viljum vekja áhuga almennings á vísindum og ein leið til þess er að  veita viðurkenningar til þeirra sem sinna þessum málaflokki.

Mynd frá því 2019, þegar Sævar Helgi Bragason og nemendur Hagaskóla fengu viðurkenningar.

Til baka í yfirlit