Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming – valfrelsi

Nú fer af stað undirbúningsnámskeið fyrir fjórðu borgaralegu ferminguna á Íslandi. Alls hafa 42 unglingar fermst á þennan hátt og yfir 600 manns verið viðstaddir þessa athöfn. Margir einstaklingar af eldri kynslóðinni, t.d. ömmur og afar fermingarbarnanna, voru viðstaddir athöfnina og höfðu orð á því að athöfnin hefði verið falleg virðuleg og áhrifamikil.

Á námskeiðinu leggjum við áherslu á mannleg samskipti, siðfræði, og ábyrgð einstaklingsins í nútímaþjóðfélagi. í októbermánuði verður helgarferð þar sem væntanleg fermingarbörn kynnast hvert öðru í umræðum, göngutúrum, hópæfingum, og í fræðandi skemmtiatriðum, t.d. verða ýmis dulræn fyrirbrigði afhjúpuð. I nóvember verður fyrirlestur um unglingamenningu fyrir fjölskyldur sem taka þátt í næstu fermingu. Umræðuhópar starfa þar sem eldri og yngri kynslóðin bera saman bækur sínar. Vikulegir fyrirlestrar og umræður hefjast síðan í janúar og verða í u.þ.b. 15 vikur. Teknir verða fyrir málaflokkarnir: mannleg samskipti, siðfræði, efahyggja, friðarfræðsla, lífsskoðanir, vímuefni, kynfræðsla, umhverfismál, mannréttindi, jafnrétti, réttur unglinga í þjóðfélaginu og missir og sorg.

Tilgangur borgaralegrar fermingar er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinganna til lífsins. Kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi. Undirbúa þá í að vera ábyrgir borgarar. Borgaraleg ferming snýst ekki um trúarbrögð og er ekkert kennt á námskeiðinu sem er andstætt kirkjunni.

Athöfnin að loknu námskeiðinu einkennist af virkri þátttöku fermingarbarnanna sjálfra. Þau flytja ljóð og ræður um þýðingu þessara tímamóta í lífi þeirra. Auk þess er flutt tónlist og ræður eru fluttar og að lokum er afhent fallegt skírteini sem staðfestir að þau hafi hlotið þessa fræðslu og séu fermd.

Ástæður fyrir þátttöku fólks í borgaralegri fermingu eru margvíslegar. Sumir unglingar sem hafa fermst borgaralega eru trúaðir en þeim finnst undirbúningur okkar áhugaverðari en kirkjunnar. Aðrir fella sig ekki við prestinn í sinni sókn. Enn aðrir eru ekki tilbúnir að taka afstöðu til trúmála, geta ekki sætt sig við sumar kennisetningar eins og meyfæðinguna, erfðasyndina og þríeinan guð. Þá er líka hópur sem efast um tilvist guðs og vill ekki gefa nein óheiðarleg heit. Nokkrir þeirra eru sannfærðir trúleysingjar.

Við hjá Siðmennt teljum að unglingar á þessum aldri velti yfirleitt ekki trúarlegum hugmyndum fyrir sér. Við viljum að fermingaraldurinn verði frjáls. Við getum ekki hækkað fermingaraldurinn upp á okkar einsdæmi, en við getum boðið annan valkost. Valfrelsi hvetur fólk til að hugsa meira um hvað það vill og hvað hæfir því best. í lýðræðissamfélögum hefur fólk frelsi til að hafa mismunandi skoðanir á lífinu og trú eins og mörgu öðru. Mikilvægt er að fólk viti að til er val.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit