Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fyrirlestur um trú, trúleysi og almenna lífsspeki

Eftirfarandi fyrirlestur var fluttur af Gísla Gunnarssyni á ráðstefnu í janúar 1999.


Snúum okkur fyrst að hugmyndaheimi Evrópumanna áður en húmanisminn fór að menga hugarfarið: Seint á miðöldum voru hlutir ýmist taldir vera algóðir eða alvondir, fólki var ýmist sýnd fullkomin grimmd eða fullkomin miskun og ekkert var þar á milli. Andstæðurnar voru miklar og afstæðishyggjan engin. Kirkjan boðaði mildi, náð og fyrirgefningu, annars vegar og hrylling, syndir og eilífa kvöl hins vegar. Hefnd var ávallt réttlætanleg og nánst skylda á þessum tíma. Hið yfirnáttúrulega var ávallt ráðandi. Upphaf allrar syndar var hroki mannsins og ágirnd, hver átti að vera kyrr í sinni stétt eigi hann hólpinn að vera. Því samfélagið var rækilega stéttskipt og var það samkvæmt guðlegum vilja og forlögum. Að breyta samfélaginu var guðlaust athæfi. En náðin var oft skammt undan og þá var hún skýlaus og má í því sambandi nefnda aflátssölu kirkjunnar, kirkjan seldi algera syndafyrirgefningu.

Grundvallaratriði kristninnar voru þau sömu og felast í sakramentunum tveimur, skírn og altarisgöngu. Skírnin er einfaldlega að helgast kristi. Þar sem fórnardauðinn er grundvallarþáttur í kristninni þótti rétt að minnast hans með öðru sakramenti; altarisgöngunni. Þar fengu menn fyrirgefningu syndanna með því að játa trú sína á Jésúm Krist. Þessi tvö sakramenti, að helgast Kristi og að fá syndafyrirgefningu út á trúna, eru grundvallaratriði í kristninni.

Húmanisminn bæði sem menntastefna og lífsspeki fór mjög að ryðja sér til rúms á 15. öld, í upphafi mest á Ítalíu. Nafnið homo, maðurinn, , stafar af því að nú verður maðurinn aðal viðfangsefnið, ekki hugmyndir um lífið fyrir handan, eða að þetta líf sé aðeins skuggi næsta lífs eins og var grundvallaratriði í gamalli kristinni kenningu sem upphaflega var fengin frá Platon. Maðurinn getur bætt sig með eigin framtaki, lærdómi og vísindum, maðurinn á að efla gáfur sínar og hæfileika, maðurinn er ekki fæddur vondur, heldur var hann óskrifað blað (tabula rasa) sem rita átti lærdóm á. Aðeins þessi staðhæfing um manninn sem tabula rasa var bylting í hugsunargangi. Í þessu fólst líka að breytingar voru ekki taldar skaðlegar í sjálfu sér. Þetta var jafnvel ennþá meiri bylting. Þriðja byltingin: lögð var mikil áhersla á frjálsan vilja og frjálst val mannsins. Guð gat verið með í þessu öllu, manninum til aðstoðar. Slíkur húmanismi hefur gjarnan verið kallaður kristinn húmanismi. En auðvelt er að sjá að rökfræðilega fól þessi lífsspeki ekki endilega í sér guðlegan mátt og verður það rakið hér síðar.

Húmanisminn barst norður fyrir Alpafjöll seint á 15. öld og átti þar mikinn og glæsilegan feril, en hvarf þar víðast hvar sem og annars staðar í Evrópu sem lífsspeki í trúarofstæki mótmælenda og kaþólikka á 16. öld.

Lúter var í þessu samhengi barn kristins húmanisma. Í nafni lærdóms síns efaðist hann um kenningar kirkjunnar. En Lúter var jafnframt miðaldamaður og þótt efinn hefði verið forsenda þess að hann hóf gagnrýni sína á kirkjuna var hann sjálfur þeirrar skoðunar að þetta fyrirbæri – efinn – væri eitt af þeim píslartækjum sem guð hefði lagt á manninn. Lúter óttaðist mjög reiði guðs og veldi Satans. Maðurinn losnar ekki við syndir sínar með játningum og fyrirgefningu því að jafnvel með játningu geta aldrei allar syndir komið fram. Því getur maðurinn aðeins beðið um fyrirgefningu fyrir allar syndir sínar og vonað síðan að guð fyrirgefi þær. Enginn gat lengur verið viss um náð guðs fyrir sig persónulega. Maðurinn átti að hætta að treysta á sjálfan sig, en setja allt traust sitt á Jesúm Krist, sem hefði tekið á sig syndir mannanna. Svo elskaði guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn svo að hver gæti öðlast eilíft líf. Þessi kenning Lúters fól þannig í sér að í stað þess að treysta á sjálfan sig og verk sín áttu einstaklingar að trúa á Jesúm Krist þar sem fórnardauðinn var miklvægasta trúaratriðið. Hér er vissulega um að ræða grundvallaratriði í nær allri kristinni trú, en erfiðlega hefur gengið að samræma hana hugmyndum húmanismans um frjálsan vilja mannsins.

Lúter boðaði skýlausa undirgefni og hlýðni við ritninguna og réttmæta túlkun á henni.

Hann taldi að sérhver kristinn maður mætti gefa sakramentin og sjá um messur. Þetta er nefndur hinn almenni prestdómur. Hann taldi þó að það væri vinnuhagræðing að ákveðin stétt hefði kirkjulegar athafnir undir höndum. Rétti aðilinn til að skipuleggja kristnina væri ríkið með geistlegum embættismönnum sínum. Furstinn skyldi vera hinn rétti umboðsmaður kristninnar enda boðaði hann þá trú sem Lúter taldi vera hina einu réttu kristni.

Snúum okkur aftur að húmanismanum. Húmanistar urðu víða öflugir norðan Alpafjalla um aldamótin 1500. Í þeim hópi var Erasmus frá Rotterdam (1466-1536) fremstur. Hann var mikill lærdómsmaður og gagnrýndi ýmsa þætti kaþólsku kirkjunnar en hélt samt tryggð við hana. Meðal annara húmanista þessara tíma sem fylgdu svipaðri braut og Erasmus má nefna Englendinginn Thomas More (1478-1533), sem var kanslari Hinriks VIII. sem síðan lét taka hann af lífi fyrir tryggð við kaþólsku kirkjuna sem Hinrik konungur hafði snúist gegn. Kaþólska sagan um Thomas More eftir dauða hans eru athyglisverð. Á seinni hluta 16. aldar bönnuðu yfirvöld kaþólsku kirkjunnar rit hans. Á 18. öld var farið að líta á hann sem píslarvott kirkjunnar og á 19. öld varð hann dýrðlingur.

Húmanismi og skrif þessara kaþólsku menntafrömuða hlutu almennt þau örlög að kaþólska kirkjan bannaði rit þeirra á síðari hluta 16. aldar. Rit Erasmusar voru bönnuð árið 1561. Í siðaskiptunum var þröngt um frjálsa hugsun, kaþólskir ófsóttu lúterska og aðra mótmælendur og mótmælendur ófsóttu kaþólska, en báðir lögðu mestan kraftinn í það að ofsækja þá sem voru utan raða beggja.

Ofsóknir gegn kaþólskum húmanistum hófust á Ítalíu um 1560. Kardínálinn Carnesecchi var brenndur í Rómarborg 1566 fyrir að aðhyllast kenningar um frelsi mannshugans. Frjálslyndir menn flýðu frá kaþólskum löndum en fengu stundum ill örlög í löndum mótmælenda. Vísindamaðurinn og heimspekingurinn Mikael Servetus flýði Ítalíu fyrir 1550. Hann var síðan dæmdur til þess að brennast fyrir villutrú; kaþólska kirkjan á Ítalíu varð þá að láta sér nægja að brenna mynd hans. En Kalvín náði í Servetus í Genf árið 1553 og lét steikja hann þar. Glæpir Servetusar voru þessir: Hann var með hugmyndir um tilvist blóðrásarinnar, en verra var að hann efaðist um þrenninguna, þ.e. skiptingu guðdómsins í þrennt, föðurinn, soninn og heilagan anda og hélt í staðinn fram einum og óskiptum guði. Þessi kenning er nefnd unitaríanismi og var á 16. öld alls staðar líflátssök.

Á Spáni voru trúvillingabrennur, auto de fé, mikið þjóðarsport. Rannsóknarrétturinn skipulagði þessar skemmtanir, en síðasta aftaka hans fór fram árið 1821. Á 19. öld var sígild krafa íhaldssamra spænskra kaþólikka að endurreisa rannsóknarréttinn og trúvillingabrennurnar. Þessir einstaklingar stofnuðu m.a.s. sérstakan stjórnmálaflokk sem almennt kallaðist Karlistaflokkurinn. Sá flokkur sameinaðist fasistum í spænsku borgarastyrjöldinni 1937 og myndaði ásamt þeim einu leyfilegu stjórnmálahreyfingu Spánar í tíð einræðistjórnar Franco 1939-1975. Miðaldir eru oft nokkuð nærri.

Við erum eigi að síður sem sagt að tala um rétttrúnaðaröld, og þá einkum árin 1600-1750, þar sem mikil áhersla var lögð á helvíti og mátt djöfulsins.

Húmanisminn hvarf að mestu leyti sem lífsspeki á 16. öld eins og rakið hefur verið og ástæðan var ofsóknir, hins vegar hélt hann áfram sem fornmenntastefna. Sú vísindahyggja sem fylgdi fornmenntastefnunni hafði með tíð og tíma sín áhrif og þá í átt til vaxandi efahyggju. Margir fræðimenn sinntu allskyns vísindum, en til að sinna vísindum þarf að koma með spurningar og leita nýs sannleika. Efahyggjan er þannig forsenda vísinda.

Aðeins er nauðsynlegt hér að útskýra afstæðishyggju sem er nátengd efahyggju. Þessi útskýring sé ekki endilega sú eina rétta: Margar hliðar eru á hverju máli, mörg stig eru á því góða og mörg stig eru á því illa. Þetta tvennt getur blandast saman og skoða verður hvern þátt í samhengi við aðra. Samhengið getur ráðið því hve gott eða vont eitthvað er. Við lifum í flóknum heimi þar sem eigin skynsemi okkar og eigin dómgreind verður stöðugt að vera vakandi fyrir því hvað er siðferðilega rétt. Við megum ekki trúa blint á siðareglur samfélagsins né snúast blint gegn þeim, við megum einfaldlega ekki vera andlega blind.

Húmanismi og fornmennntastefna voru í tengslum bæði við vaxandi borgarmenningu og konungsvald. Athyglisverðast er að vísindahyggjan varð öflugust þegar á 17. öld, fyrst í Hollandi og síðar á Englandi, en í þessum löndum urðu borgarar snemma öflugasta stéttin.

Snúum okkur að helstu frumkvöðlum nýrra hugmynda í nafni þessarar vísindahyggju á 17. og 18. öld. .Hugo Grotíus (1583-1645) hollenskur, fjallaði um náttúruréttinn sem forsendu samfélagsskipunar. Náttúrurétturinn: að maðurinn hefði skv. náttúrunni tiltekinn rétt, en ekki endilega á forsendum guðlegs máttar. Algengt var þó að sætta þetta tvennt með jöfnunni náttúra = guð. Thomas Hobbes, enskur (1583-1679); aðeins efnið er hið eina raunverulega. Hann afneitaði ekki guði opinberlega, enda hefði slíkt getað valdið honum einhverjum erfiðleikum, en opinberlega sagði hann að tilgangslaust væri að velta guðdómnum mikið fyrir sér. Það sem væri utan allra lögmála, hið yfirnáttúrulega, það sem stæði utan efnisheimsins gæfi ekki tilefni til sérstakrar vísindaiðkunar. Í kjölfar Thomasar Hobbes komu menn eins og John Locke og David Hume sem þróuðu þessar hugsanir á ýmsa vegu og rækilega og verður ekki fjallað frekar um kenningar þeirra hér.

Píetisminn, heittrúarhreyfingin, sem varð áberandi á 18.öld, lagði megináherslu á einstaklingsbundna trúarinnlifun og lestur biblíunnar og í framhaldi af því að allir kynnu að lesa, hafði ekki mikil áhrif hér á Íslandi í trúarefnum andstætt því sem gerðist annars staðar á Norðurlöndum.

Skynsemisstefnan og húmanisminn sem lífskoðun eru mjög svipaðar. Leggja ber þó áherslu á að húmanismi 16. aldar tengdist ávallt kristni. Margir rationalistar 18. aldar voru hins vegar trúleysingjar, einkum þeir í Frakklandi. Þótt rationalistar í Danaveldi væru allir lúterskir, að minnsta kosti að nafninu til, stundum virðist raunar þessi lúterska ekki liggja of djúpt sbr. kvæði það sem Eggert Ólafsson orti um 1760 og ber heitið “Heimspekin”.

Skilgreinum aðeins rationalismann á víðtækan hátt. Að maðurinn láti rökhugsun sína og skynsemi ráða gerðum sínum og því skoðunum, ekki að einhver yfirnáttúruleg öfl utan skynseminnar eða æðri veraldleg máttarvöld ráði eða eigi að ráða ferðinni dags daglega. Eitthvað annað en yfirnáttúrleg öfl eða blessuð forlögin stjórni daglegu lífi okkar. Við sjálf gerum það. Í rationalismanum er því falinn sproti orðræðunnar þar sem við notum skynsemina til þess að vega og meta mismunandi hugmyndir, m.ö.o. sproti lýðræðisins. Hann er eðlileg afleiðing húmanismans, þar sem viðfangsefnið er maðurinn.
Samkvæmt rationalismanum var tími kraftaverkanna liðinn og við tekin hin órjúfanlegu lögmál náttúrunnar, allir áttu að læra sem mest, fylgismennirnir höfðu andstyggð á kreddum og boðuðu oft mannúð og mildi. Raunar afneituðu sumir frægustu talsmenn skynsemisstefnunnar kristinni trú eins og fyrr var vikið að, einknum í kaþólskum löndum eins og Frakklandi og ber þar fyrstan að nefna panþeistann Voltaire og guðleysingjann Diderot. En víðast í löndum mótmælenda tengdist rationalisminn kristinni kirkju, samkvæmt formúlunni náttúra = guð. Í nafni eingyðistrúar var djöflinum varpað út í buskann. Þetta gerðist í lúterskum hlutum Þýskalands og á Norðurlöndum. Segja má að sátt hafi orðið milli rationalisma og mótmælendakristni í þessum löndum, að vísu oft þrátt fyrir harðvítug mótmæli margra heittrúarmanna í löndunum. Þess má geta að kaþólska kirkjan hóf fyrst sættir sínar við rationalismann á þessari öld.

En andataðu við rationalismann var ávallt til staðar. Ryfja ma´í því samhengi söguna af síðustu galdrabrennuna í Evrópu þegar ung stúlka var brennd fyrir samneyti við djöfulinn í kantónunni Glarus í Sviss árið 1782, en þar ríkti mótmælendakristni. Þessi galdrabrenna skapaði harðar deilur í gjörvallri Vestur-og Norðurevrópu.

Skynsemistrúarmennirnir (rationalistarnir), upplýsingamennirnir sameinuðust allir, þrátt fyrir innbyrðis deilur um margt, í því að fordæma þessa athöfn. En þeir voru margir sem réttlættu þessa galdrabrennu, þeir komu yfirleitt úr röðum kirkjunnar eða embættismanna einstaka einvalda fursta. Þeir töldu galdrabrennur vera nauðsynlegar aðgerðir gegn vaxandi skynsemisstefnu og húmanisma. Hver sterk stefna skapar andsöðu sína og gegn skynsemisstefnunni (rationalismanum) reis and-skynsemisstefnan (irrationalisminn). Andstætt því sem margir telja hefur það engan veginn verið talið sjálfsagt að rationalisminn hafi alltaf haft betur. Þvert á móti hefur hann og irrationalisminn oft á tímum vegið salt í því hvor sé sterkari í hugmyndaheimi vesturlandabúa og stundum er eins og irrationalisminn hafi haft yfirhöndina.

“Gegen Rationalismus” – gegn skynsemisstefnunni var mottó margra þýskra menntamanna allt frá 18. til 20. aldar. Þessir menntamenn lögðu hornsteininn að hugmyndaheimi nasismans. Nasistar og nýnasistar hafa ávallt lagt mikið upp úr dulúð og svo nefndri nýaldarspeki, þar á meðal fljúgandi furðuhlutum. Því má skjóta inn í að sumir nýnasistar telja að Hitler lifi ennþá og búi í arnarhreiðri sínu á Suðurpólnum og ferðist um á fljúgandi disk til þess að skoða heiminn. Þessi trú gæti vafalaust flokkast undir skemmtiefni ef við gleymum því að sömu einstaklingar hrinda fötluðu fólki niður stiga til þess að hreinsa kynþáttinn og kveikja í húsum útlendinga af sömu ástæðum. Þessir einstaklingar eru andlegir arftakar þeirra 18. aldar andstæðinga rationalismans sem réttlættu galdrabrennur sem nauðsynlegar aðgerðir gegn skynsamlegri röksemdarfærslu.
Snúum okkur til Íslands og tökum hér dæmi um nokkra kristna rationalista hér á landi. Oddviti þeirra var tvímælalaust æðsti embættismaður landsins um langt skeið, Magnús Stephensen, sem hafði lengi einkarétt á allri blaða-og bókaútgáfu á Íslandi, eða frá lokum 18. aldar fram á 4. áratug 19. aldar.

Hannes Finnsson (f. 1739, d. 1796), biskup í Skálholti frá því um 1780, skrifaði þannig í Kvöldvökum sem Magnús Stephensen sjálfur gaf út : “Ekki er ég svo ónærgætinn að ég heimti af nokkrum að lesa sífelldlega guðfræðibækur sér til gagns. Þvert á móti veit ég engann beinari veg að gera unglingum lærdóm væmisaman og leiðan en að neyða þá til að hafa hann um hönd sí og æ”. Eftirmaður Hannesar í biskupsstóli, Geir Vidalín f. 1761, biskup 1797 til dauðadags 1823 skrifaði í bréfi 1807 að hann væri hneykslaður að finna eftirfarandi orð í formála að nýrri útgáfu Nýja Testamentisins á íslensku í Kaupmannahöfn. Orðin sem hneyksluðu voru: “Án þessarar visku og þessarar trúar, þ.e. í Nýja Testamentinu, kann enginn að vera frelsaður.” Hneykslaður skrifaði biskupinn “þunnskipað verður þá hjá guði mínum ef ekki fleiri en þessi verða með honum, líka skilst mér að sem fjandinn megi færa út kvíarnar ef hann á að hýsa alla hina”. Geir gerði betur en þetta, hann fékk vin sinn, Árna Helgason, síðar stiftprófast, til þess að fordæma þessa útgáfu Nýja Testamentisins í dönsku blaði 1808.

Æðstu embættismenn konungs voru þannig einhuga í viðleitninni að sameina skynsemisstefnu og kristna trú. Þetta þýddi í reynd að aðeins voru samþykkt þau dulrænu fyrirbæri sem krúnan viðurkenndi. Hér var um að ræða ríkistrú sem einnig gat orðið umburðarlítil. Ekkert mátti ógna einingu ríkisins og leikmannapredikarar í anda píetismans máttu sæta miklum kárínum víða um lönd. Líkt og píetistar börðust rationalistarnir gegn draugum, huldufólki og öðrum slíkum vættum, en einnig börðust ríkisrationalistarnir gegn nýjum píetískum hreyfingum og er þar Noregur skýrasta dæmið. Þannig sat leikmannapredikarinn, Hans Nielsen-Hauge, (1771-1824) hlekkjaður í fangelsi í alls átta ár fyrir andstöðu við skynsemistrúarbrögð ríkisins.

Á Íslandi voru engir leikmannapredikarar. Helsti andstæðingur kristinnar skynsemisstefnu var séra Jón Jónsson lærði (1759-1846), hann gaf út mörg smárit máli sínu til stuðnings en virðist lítil áhrif hafa haft.

Í upphafi virðist almúginn hafa verið nokkur fastur í sínum gamla lúterska rétttrúnaði, verið fjandsamlegur ýmsum nýjungum eins og brotthvarfi djöfulsins, en boðun rétttrúnaðarins um skýlausa hlýðni við yfirvöldin gerði alla íhaldssama óánægju máttlitla. Ef einvaldskóngurinn fyrirskipaði fólki að hugsa sjálfstætt, var þá nokkuð um annað að gera en að reyna það? Einnig ber þess að geta að í hugum þeirra sem mótmæltu trúarlegum nýjungum blönduðust þær gjarnan andúð á öðrum nýjungum, t.d. í atvinnumálum. Í sendibréfi Guðrúnar Jónsdóttur, aldraðrar konu í Skagafirði, til sonar síns, Sveins Pálssonar, síðar læknis og náttúrufræðings, frá miðjum áratug 9unda áratugs 18. aldar, taldi hún ótvírætt að nýliðin Móðuharðindin (1783-1785) hefðu verið refsing guðs fyrir umbótatilraunir Skúla Magnússonar fyrr á öldinni. Þess háttar íhaldssemi var ekki vænleg til að hafa mikil áhrif þegar til lengdar lét.

Umdeilt er hversu mikil áhrif skynsemisstefnan hafði á íslenska almúgamenn á 19. öld. Ýmsu má spá um það efni, en endanleg sönnun á því hvernig íslenski almúgamaðurinn hugsaði á 19. öld vitum við aldrei, því við höfum aldrei haft tækifæri til þess að sálgreina hann í smáatriðum. Eitt vitum við þó með vissu: Hann bjó við ólíkt meiri fjölbreytni í alls kyns hugmyndastefnum sem reynt var að ýta að honum, en íslenski almúgamaðurinn á 18. öld. 19. aldar almúgamaðurinn okkar mátti búa við allt í senn, gamallúterskan rétttrúnað, nýlúterskan rétttrúnað, skynsemisstefnu, hálfheiðna rómantíska hetjutrú og ennþá heiðnari, gamla og góða íslenska vættatrú. Ef til vill var almúgamaðurinn ekki einn, heldur margir og Íslendingar verið miklir einstaklingshyggjumenn í trúmálum á 19. öld, engu síður en á þeirri 20. En engan endanlegan sannleika getum við hér sagt, enda skortir hér víðtækari og ókreddubundnari rannsóknir en nú eru til staðar og óvíst er meira að segja að slíkar rannsóknir muni nokkru sinni gefa okkur einhverja einlita mynd af margumræddum almúgamanni.

En snúum okkur aftur að áhrifum skynsemisstefnunnar hér á landi. Aðstaða hennar til áhrifa var óneitanlega mikil. Allur þorri presta á fyrri hluta 19. aldar útskrifaðist úr Bessastaðaskólanum sem var við lýði 1805-1846. Kennarar skólans voru upp til hópa ákveðnir rationalistar og raunar var klassísk málfræði megin viðfangsefni þeirra. Guðfræðikennarar skólans fylgdu skýrt og greinilega hinni rationalísku hefð, einkum framan af. Ekki er ólíklegt að prestastétt sú sem skapaðist á fyrri hluta 19. aldar hafi verið undir sterkum áhrifum skynsemisstefnunnar. Með prestafjölda sem var 1 prestur á hverja 200-400 íbúa á öldinni er ekki ólíklegt að einhver áhrif hafi borist frá prestunum til almúgans.

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit