Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Merkileg stefnumótun í Noregi í trúar- og lífsskoðunarmálum

Merkilegir hlutir eru að gerast í Noregi. Árið 2010 setti þáverandi menningarmálaráðherra á laggirnar 15 manna vinnuhóp sem hafði það markmið að leggja fram heildstæða stefnu í trúar- og lífsskoðunarmálum eða eins og það heitir á norsku – „helhetig tros- og livssynspolitikk“. Ekki átti að móta kirkjustefnu ríkisins heldur hvaða stefnu Noregur ætti að fylgja í fjölbreytilegu samfélagi. Í upphafi gerðu fulltrúar norsku húmanistasamtakanna Human-Etisk Forbund, systursamtaka Siðmenntar, athugasemdir við að meirihluti nefndarmanna höfðu sterkar tengingar í kristin samfélög. Þarna voru einnig fulltrúar múslima og vísindasamfélagsins en það varð síðan úr að fulltrúi HEF, Bente Sandvik, varð varaformaður nefndarinnar.

Það kom því skemmtilega á óvart að þegar niðurstöður nefndarinnar voru kynntar 7. janúar að ágæt samstaða náðist í mörgum málum og voru mörg af þeimbaráttumálum sem húmanistar hafa unnið að í mörg ár sem fengu þar brautargengi og samþykkt í nefndinni. Það má segja að jafnræði lífsskoðana hafi verið megin stefið í niðurstöðu vinnuhópsins og flestar af þeim tillögum sem lagðar eru fram eru til þess að bæta úr núverandi ástandi.

Markmið nefndarinnar

Í upphafi var hlutverk nefndarinnar m.a.:

–          Að skoða endurskoða gjöld („sóknargjöld“) til trúar- og lífsskoðunarfélaga og hvaða kröfur ríkið gerir til þeirra félaga sem fá þau.

–          Meta hvort núverandi kerfi til skráningar á trúfélögum skuli standa og þá hvort greina eigi á milli skráðra og óskráðra trúfélaga.

–          Meta hvort trú- og lífsskoðunarfélög eigi að framkvæma löggerningarhluta giftingar. Rétt er að geta að Venstre telur að trú- og lífsskoðunarfélög eigi einungis að sjá um athafnir á meðan bindandi löggjörningar eigi að lúta veraldlegri stjórn.

 

Ekki átti að fjalla t.d. um núverandi tekjumódel Norsku kirkjunnar. Einnig var hlutverk vinnuhópsins að meta hvaða hlutverk trú og lífsskoðun eigi að hafa í mismunandi opinberum stofnunum m.a. með tilliti til þjónustu trú- og lífsskoðunarfélaga, aðgang að bæna- og athafnarými, sérstakar kröfur um mat, klæðnað osfrv.

Einnig var það verkefni hópsins að skoða aðlögun fólks að samfélaginu og hvernig trúar- og lífsskoðunarstefna hefur áhrif á hana. Þá átti að skoða þörfina fyrir samhæfð lög og reglur á mismunandi sviðum samfélagsins með það að markmiði að gera stefnu í trú- og lífsskoðunarmálum heildstæðari. Um er að ræða víðfemt svið en hér undir falla lög um guðlast og umræðan um hijab klæðnað svo eitthvað sé nefnt.

Við vinnu hópsins skyldi skoða hvernig sambærileg mál eru leyst erlendis og hver kostnaður gæti orðið. Vinnuhópurinn hafði það að leiðarljósi að Noregur skuli verða samfélag sem meðhöndlar allar trúar- og lífsskoðanir á sama hátt samtímis því að gætt sé að trúfrelsi allra.

Niðurstaða vinnuhópsins

Helstu niðurstöður hópsins eru:

  1. Breyting á greiðslu gjalda til trú- og lífsskoðunarfélaga þar sem jafnræðis er gætt þeirra á milli. Endurskoða þarf kröfur um félagsaðild og útreikninga. Eins og kemur fram hér að ofan var það ekki á valdi hópsins að leggja til breytingar og verða því gjöld til ríkiskirkjunnar óbreytt en það byggist ekki á félagatali heldur beinum framlögum.
  2. Kröfur til þeirra félaga sem njóta fjárhagsstuðnings frá ríkinu um að jafnréttis kynjanna sé gætt auk þess að þau séu opin gagnvart samkynhneigðum.
  3. Breytingar á þjónustu opinberra stofnanna (t.d. sjúkrahúsa og fangelsa) með það fyrir augum bjóða þjónustu annarra lífsskoðunarfélaga og að ekki sé einungis um þjónustu ríkiskirkjunnar að ræða.
  4. Fjölgun athafnasvæða/herbergja (stillerom/bönerom) þar sem sveigjanleika er gætt og að þau séu opin fyrir öllum lífsskoðunum.
  5. Stefna opinbera aðila verði ekki að leggjast gegn sérstökum klæðnaði og trúarlegum táknum. Menningarmálaráðherra Hadia Tajik lýsti því yfir við kynningunni á niðurstöðunni  á fréttamannafundinum að notkun hijab/turban væri ekki heimil í lögreglu og af dómurum þar sem það væri landsfundarsamþykkt Verkamannaflokksins og slíkt yrði ekki leyft á meðan þeir væru við völd.
  6. Þau sterku tengsl sem eru á milli ríkiskirkjunnar og hersins verði minnkuð.
  7. Umsjón kirkjugarða verði á forræði sveitarfélaga. Hér er um verulega breytingu að ræða.
  8. Meirihluti vinnuhópsins leggur til að gifting verði borgaraleg þar sem trú- eða lífsskoðunarfélög geti síðan veitt sína vígslu eftir opinbera athöfn. Slíkt fyrirkomulag er víða í Evrópu.
  9. Vinnuhópurinn telur að til þess að ná markmiðum um jafnræði lífsskoðana þá sé það andstætt því markmiði að viðhafa sérstaka stöðu kirkjunnar og því aðeins hægt að ná með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Um þetta atriði var algjör einhugur. Leggur vinnuhópurinn því til eftirfarandi breytingar á 16. grein stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo (í lauslegri þýðingu):  „Norska kirkjan, evangelisk-lúterska kirkjan, verður þjóðkirkja Noregs og sem slík njóta stuðnings ríkisins.“ Þessi í stað skuli greinin hljóða: „Allir þegnar ríkisins hafa rétt til að iðka trú sína. Öll trú- og lífsskoðunarfélög skuli njóta jafnræðis.“

Þessu til viðbótar má nefna að opinberar athafnir verði ekki stjórnað af einu trúar- eða lífsskoðunarfélagi. Vísað er til athafnar eftir fjöldamorðin sumarið 2011 sem voru með slíku sniði og sjónvarpað m.a. til Íslands.

Lagt er til að breytt fyrirkomulag verði um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög. Nú gildir að öll börn eru sjálfkrafa skráð í kirkjuna en lagt er til að einungis verði tekið tillit til þeirra sem skrá sig sjálfir. Börn hafa rétt til þess að taka eigin ákvörðun um úrsögn eða skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag. Þetta er athyglisvert þar sem Svíar hafa í sínum lögum að enginn sé fæddur hvað þá skráður sjálfkrafa í trúfélög. Í fyrirliggjandi frumvarpi um skráð trúfélög sem liggur fyrir Alþingi kemur fram að lítil breyting er gerð á sjálfkrafa skráningu barna. Siðmennt benti á það í umsögn sinni að réttast væri að taka skrefið til fulls og afnema sjálfkrafa skráningu barna. Reyndar kom það fram í máli fulltrúa Biskupsstofu fyrir þingnefnd sem fjallaði um málið að þeir voru sammála skilgreiningu Siðmenntar (en það viðhorf vantaði samt í skriflega umsögn hennar) en þrátt fyrir það var sú breyting ekki gerð á frumvarpinu fyrir 2. umferð umræðna (sem á enn eftir að fara fram vegna málþófs).

Vinnuhópurinn samþykkti einnig að sammannleg gildi skyldu vera í stjórnarskrá og til grundvallar við mótun námsskrár í skólum í stað þess að tengja slíkt einni sérstakri lífsskoðun eins og verið hefur. Mikill meirihluti hópsins taldi að þau gildi sem þar koma fram væru til að sameina fólk en ekki að mynda gjá þeirra á milli. Það má minna á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, lagði til við breytingar á lögum um leik- og grunnskóla árið 2008 að í markmiðsgreinum laganna yrði slík útfærsla um sammannleg gildi. Því miður varð þröngsýni þingmanna og viðsnúningur Þorgerðar Katrínar í málinu eftir þrýsting frá biskupi þess valdandi að því var breytt í meðförum Alþingis og sett ákvæði um „kristilegan arf“.

Í Noregi hefur eins og hér á landi verið deilt um skólaguðþjónustur og trúboð í skólum. Því miður náðist ekki breyting á því þrátt fyrir að slíkt athæfi sé ekki hluti af námsskrá frekar en hér á landi. Greinilegt að jafnræðishugsunin náði ekki lengra en þetta. Reyndar lagði meirihlutinn til að öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum yrði hleypt í skólana og hefur sú umræða einnig sprottið hér upp í sambandi við setningu samskiptareglna Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarhópa. Að sjálfsögðu eru húmanistar á móti slíkum tillögum þar sem skólar eigi ekki að vera vettvangur trúboðs.

Einnig er lagt til að ekki verði kosið til sókna (kirkeval) samtímis og almennar kosningar eigi sér stað. Þá var einhugur um að gera ekki konungnum skylt að vera í ríkiskirkjunni og langflestir voru sammála um að fjarlægja gildisviðmiðin í 2. grein stjórnarskrárinnar sem er „Gildisviðmið verður okkar kristni og húmaníski arfur“ og lagt er til að það hljóði þess í stað „Þessi stjórnarskrá skal tryggja lýðræði, réttarríki og mannréttindi“.

Menningarmálaráðherrann lýsti því yfir að á meðan trú- og lífsskoðunarfélög fái opinbera styrki er það ekki einkamál eins eða neins. „Við þurfum skýrar sameiginlegar leikreglur í opinberu rými“ sagði hún „það er mál allra Norðmanna“. Hún benti á að stefna í trúar- og lífsskoðunarmálum snérist ekki um guð heldur um fjallar hún um manneskjur. „Ekkert trú- eða lífsskoðunarfélag er undanþegið leikreglum lýðræðisins. Trúfrelsi er ekki tromp gagnvart frelsi eða réttindum annarra“ sagði Tajik. Hún lagði áherslu á að ekki væri byrjað með óskrifað blað og fullvissaði blaðamenn um að standa þarf vörð um hinn „kristna-húmaníska“ arf Noregs!

Afstaða stjórnmálaflokkanna

Nú þegar hafa fulltrúar Venstre, Hægri flokksins og SV lýst sig jákvæða gagnvart niðurstöðunni.

Eins og áður hefur komið fram eru fulltrúar HEF í megindráttum ánægð með niðurstöðuna og telja mikilvægt að þessi niðurstaða birtist nú og að næsta skref í málefnum ríkis og kirkju verða stigin árið 2014. Árið 2008 voru samþykktar fyrstu breytingar í átt til aðskilnaðar og voru þær innleiddar 2012.

Kristelig Folkeparti (kristilegur flokkur) er enn sem komið er eini flokkurinn sem leggst harkalega gegn niðurstöðum vinnuhópsins. Flokkurinn telur að lausnin sé ekki að gæta þess að engin ein lífsskoðun sé yfirgnæfandi (livssysnsnöytral – hér verður notast við óhæði lífsskoðanna) eða að það eigi að skilja að ríki og kirkju. Að auki telur flokkurinn að viðmiðin eigi að „vera okkar sameiginlegi kristni menningararfur“ Flokkurinn telur að vinnuhópurinn gangi oft langt í átt til veraldarhyggju og óhæði lífsskoðana. Ekki hafi þess verið gætt sú mikilvæga þýðing kirkjunnar og kristindómsins og að samfélagið hafi ekki verið skapað í glidislausu vakúmi! Hér er endurómur frá málflutningi presta hér á landi þegar þeir lögðust gegn því að settar yrðu samskiptareglur Reykjavíkurborgar og skóla! Lagst er gegn því að ríkiskirkjan hafi ekki aukið vægi í opinberum athöfnum og að verið sé að úthýsa kirkjunni í hinu opinbera rými. Flokkurinn er á móti því að sveitarfélög taki yfir umsjón kirkjugarða og gefur lítið fyrir að við núverandi stöðu þurfa múslimar, húmanistar og aðrir að leita til kirkjunnar með grafreiti. Einnig er flokkurinn á móti því að giftingar verði borgaralegar.

Miðflokkurinn (Senterpartiet) er annar flokkur sem hefur stutt ríkiskirkjuna og hennar hefðir en hann hefur ekki gangrýnt niðurstöðuna eins harkalega eins og KrF. Leggst hann gegn borgaralegum giftingum og vill verja klásúlu í stjórnarskrá um „kristna og húmaníska menningararfinn“.  Flokkurinn vill fara hægar í breytingarnar.

Verkamannaflokkurinn er á móti borgaralegum giftingum auk þess að vera á móti því að leyfa hijab hjá lögreglu og dómurum. Flokkurinn telur ekki rétt að gera fleiri stjórnarskrábreytingar í bráð til að hraða aðskilnaði ríkis og kirkju.

SV eru jákvæðastir fyrir niðurstöðum vinnuhópsins og leggja áherslu á að tryggja veraldarhyggju. Flokkurinn hafi lengi barist fyrir mörgum þeim málefna sem þarna koma fram.

Samantekt: Bjarni Jónsson

Til baka í yfirlit