Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2013 – ræða Steinunnar Jónsdóttur

Þessa hugljúfu ræðu Steinunnar Jónsdóttur fermingarbarns, sem hún flutti við fermingarathöfn sína þann 14. apríl síðastliðinn, fengum við góðfúslegt leyfi til að birta svo fleiri fáið notið.

Kæru fermingarbörn, aðrir góðir gestir

Ég hef alltaf verið forvitin um framtíðina, hver ég verð, hvað ég geri og hvað fólkið í kringum mig gerir en helst hvernig heimurinn verður.  Ég veit ekki hve oft við vinirnir höfum sökkt okkur í djúpar samræður í frímínútum um hvernig allt verði í framtíðinni. En ég er viss um að eftir 10 ár munum við hlæja að öllum ágiskunum okkar.Núna í  kringum ferminguna finnst mér tilvalinn tími til þess að grúska í gömlum myndum og skóladóti, kannski fyrir vandræðalega myndasýningu fyrir fermingarveisluna, eða til að hressa uppá minnið og sjá breytinguna. Allar þær nostalgíu tilfinningar sem vöknuðu við grúskið fengu mig til þess að hugsa hvað „fortíðar ég“ hefði fundist um mig, eins og ég er núna. Eða hvað „framtíðar ég“ muni finnast um nútíma mig.

Í ævintýraleitinni niðri í geymslu fann ég gamalt skóladót.  Í fjórða bekk fylltum við út skjal um okkur sjálf. Hver áhugamálin okkar væru, hvað okkur fyndist gaman að gera…en það sem mér fannst merkilegast var að við vorum spurð hvað við hugsuðum um. Þegar ég var í fjórða bekk hugsaði ég greinilega mikið um fólk og hvað fólk gerði og ég vildi aldrei lenda í stórri deilu.  Tveimur árum seinna fylltum við sama blaðið út aftur. Munurinn á þessum 2 blöðum var mikill þótt að einungis 2 ár hefðu liðið. Þegar ég var í fjórða bekk taldi ég mig vera fótboltafrík en tveimur árum seinna var ég löngu hætt að æfa fótbolta. Fyrst nefndi ég eina uppáhalds bók en þegar ég var 12 ára breytti ég setningunni í fleirtölu og nefndi 4 bækur. Á fyrra blaðinu skrifaði ég allt stutt og nefndi helst einn hlut en í 6 bekk skrifaði ég svo langan texta að línurnar voru of fáar.

Ástæðan fyrir því að mér fannst gaman að lesa þetta er sú að ég var löngu búin að gleyma þessu öllu. Þetta var dálítið eins og að hafa samskipti við 10 ára mig. 10 ára mig sem leit upp til unglingana með hræðslu í augum, en samt af aðdáun.

Ég er viss um að í framtíðinni þegar ég lít til baka verð ég glöð að ég hafi valið að fermast borgaralega, ég vona líka að það verði sjálfsagður hlutur. Mér finnst nefnilega mikilvægt að sjálfsagt sé að velja, til þess að móta okkar eigin heim nú þegar við göngum í fullorðinna tölu.

Þótt við séum öll ansi ólík er samt ótrúlegt hvað við erum lík. Við lifum á sama tíma, þekkjum kannski sama fólkið, upplifum sömu stóratburðina, tískubylgjur og tækni. Við völdum öll að fermast borgaralega og ég er nokkuð viss um að enginn muni sjá eftir því.

Til baka í yfirlit