Skráning í borgaralegar fermingar fer vel af stað!
Nú eru yfir 400 börn skráð í borgaralegar fermingar árið 2020 og óhætt að segja að skráning fari vel af stað. Tvær athafnir í Háskólabíó í apríl eru orðnar fullar en laust í aðrar. Utan höfuðborgarsvæðisins eru staðfestar athafnir á Akureyri, Akranesi, Selfossi, Reykjanesbæ og í fyrsta sinn verður einnig athöfn í Skagafirði. Skráningin er 100% rafræn og fer fram hér.
Vinsældir borgaralegrar fermingar hafa aukist gífurlega síðustu ár og hefur farið úr 339 fermingum árið 2016 í 545 fermingar árið 2019 sem er aukning um 60% á þessum þrem árum . Árið 2019 voru alls 13% fermingarbarna á Íslandi sem völdu þessa leið.
Siðmennt er stollt af því að bjóða fermingarbörnum val á þessum merku tímamótum. Markmið borgaralegrar fermingar er að styrkja sjálfsmynd, metnað og uppbyggilegt hugarfar. Fermingarfræðslan miðar að því að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og búa þeim dýrmætt veganesti til framtíðar. Fermingin er opin öllum ungmennum, óháð uppruna, kyni, kynhneigð eða trúarbrögðum.
Að loknu námskeiði eru ungmennin fermd við hátíðlega athöfn. Hluti fermingarbarnanna tekur virkan þátt í athöfninni, t.d. með ljóðalestri, dansi, tónlistarflutningi og ávörpum og öll fá viðurkenningarskjal sem staðfestir ástundun þeirra í náminu. Siðmennt leggur metnað í að gera athafnir sínar hátíðlegar og virðulegar, en jafnframt skemmtilegar og eftirminnilegar.
Við uppfærðum nýlega tölfræðina okkar og sést þar að alls 4340 börn hafa fermst borgaralega hjá Siðmennt frá upphafi. Tölfræðina má sjá hér.