Eftirfarandi ræðu flutti Jóhann Björnsson í fermingarathöfn Siðmenntar þann 28. apríl 2012 á Selfossi.
Ágætu fermingarbörn, aðstandendur og góðir gestir, til hamingju með daginn
Eitt af því sem manneskjur leiða hugann að og þið hafið meðal annars fengið að velta fyrir ykkur á námskeiðinu fyrir borgaralega fermingu er þetta: Hvernig lífi er best að lifa? Þetta er spurning sem þið eigið eflaust öll eftir að velta fyrir ykkur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum á lífsleiðinni. Mig langar því til þess að segja ykkur sögu sem getur vonandi nýst ykkur sem veganesti þegar spurning þessi leitar á huga ykkar.
Þó ég sé nú langt í frá að vera háaldraður maður þá hef ég engu að síður lifað það mörg ár að ég get litið til baka og spurt hvað það hafi verið þess vert að reyna í lífinu. Og það er svo skrítið að eitt af því sem ég hef reynt og tel hafa gefið lífi mínu ótvírætt gildi er eitthvað sem ég frétti fyrir skömmu að væri nú með því versta sem hægt væri að gera í þessum heimi. Það er skrítið að það besta sem ég hélt að væri geti líka verið það versta.
Og nú skilur ábyggilega enginn hvað ég er að fara. Nema hvað. Þegar ég var nokkrum árum eldri en þið eruð núna, þá ákvað ég að dvelja í eitt ár sem skiptinemi í fjarlægu landi. Ég gat valið það land sem ég vildi komast til en ég hafði ekkert um það að segja hvar í landinu ég yrði og því síður hjá hvernig fjölskyldu. Og ég fór af stað, hélt vestur um haf og lenti í afskekktum skógi í franska hluta Kanada. Ég hef alltaf sagt að ég hafi verið svo lánsamur að lenda hjá fjölskyldu sem var eins ólík minni eigin og mögulegt var. Ég var svo lánsamur að lenda hjá fjölskyldu sem talaði tungumál sem ég varð að læra frá grunni. Ég var svo lánsamur að lenda hjá fjölskyldu sem hafði mjög ólíkar skoðanir mínum eigin. Ég efahyggjumaðurinn í trúmálum var svo lánsamur að lenda hjá fjölskyldu sem var svo strangtrúuð að hún bað til guðs upphátt í 40 mínútur daglega.
En hversvegna er ég að segja að ég hafi verið svona heppinn að lenda hjá fólki sem hugsaði öðruvísi en ég og sem hafði gjörólíkar skoðanir og trú. Jú ég var heppinn vegna þess að þar lærði ég mjög dýrmæta lexíu og hún er þessi: Þrátt fyrir það að vera mjög ólík þá gátum við ekki bara lifað í sátt og samlyndi þetta eina ár sem ég dvaldi þarna, heldur gátum við líka lifað góðu lífi saman, borið virðingu fyrir hvert öðru og það sem meira er okkur gat þótt vænt um hvert annað. Þetta gátum við þrátt fyrir ólíkan lífsstíl, þrátt fyrir ólíkar skoðanir, þrátt fyrir að upp kæmi togstreita eða ágreiningur. Og það skemmtilega við þetta allt saman er að þetta var bara alls ekkert svo flókið. Ástæðan fyrir því að þetta var ekkert svo flókið er sú að við gerðum öll ráð fyrir því að í heiminum byggi ólíkt fólk, fólk með mismunandi lífsstíl, mismunandi skoðanir, trú, útlit, af mismunandi uppruna, hver með sína sérvisku, kæki og mismunandi tungumál og svona mætti lengi áfram telja.
Eftir að hafa reynt slíka sambúð í svo mikilli nálægð sem fylgir heimilishaldi, þá er það bara sorglegt til þess að hugsa að alltof margir geta ekki liðið það að aðrir séu þeim öðruvísi og alltof oft með hörmulegum afleiðingum.
Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef allir í heiminum væru nákvæmlega eins og ég. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að þessir 7 milljarðar sem eru í heiminum væru nákvæmlega eins og ég. Hvert sem ég færi myndi ég mæta öðrum sem væru eins og ég, hugsuðu eins og ég, töluðu eins og ég, hefðu sömu skoðanir og ég, og ég tala nú ekki um hefðu sömu leiðinlegu kækina og ég hef. Það er ekki laust við að bara tilhugsunin um slíka tilveru komist næst því að vera mesta martröð lífs míns.
Það er nefnilega þannig að margbreytileiki mannlífsins gefur lífinu óneitanlega mikið gildi. Með því að fermast borgaralega hafið þið lagt það á ykkur að skera ykkur úr fjöldanum og benda á að það er ekki bara allt í lagi að vera öðruvísi, heldur getur það líka verið gott og skemmtilegt. Kannski hefur það reynst ykkur erfitt, kannski hafið þið þurft að hafa mikið fyrir því að réttlæta ákvörðun ykkar fyrir öðrum. En bara með því að gera slíkt standið þið örugglega sterkari fyrir vikið og betur undir það búin að takast á við áskoranir fullorðinsáranna.
Það er nefnilega þannig að á degi hverjum er gerðar tilraunir til að telja okkur trú um ýmislegt sem er miður gott og ekki endilega rétt og því síður fagurt.
Og vík ég nú aftur að ævintýri mínu hjá fjölskyldunni góðu í Kanada.
Við bjuggum í litlu húsi úti í skógi. Lífsviðurværi hafði fólkið af kúm og skógarhöggi. Við fórum í fjósið kvölds og morgna til að sinna skepnum og þess á milli var unnið við skógarhögg. Nema hvað, og nú er komið að því sem ég sagði hér á undan að það besta geti líka verið það versta. Dvölin þarna var ekki alltaf ánægjuleg, en þegar upp er staðið var hún mjög góð og þroskandi. Vinnan var ekki alltaf auðveld en hún var lærdómsrík, skepnurnar voru ekki alltaf eins og hugur manns en þær gátu sýnt manni fegurðina í lífinu, ekki síst þegar kýrnar báru kálfa eða fóru út um vorið.
Síðan gerist það fyrir örfáum dögum að reynt er að telja mér trú um að þarna hafi ég verið að upplifa slæma hluti.
Það var blaðamaður nokkur við dagblað hér á landi sem fékk þá stórfurðulegu hugmynd að taka saman 200 störf og raða þeim upp eftir því hvaða starf er best , næstbest, þriðja best o.s.frv. Og hvaða starf skyldi nú vera samkvæmt þessum ágæta blaðamanni númer 199 eða næstversta starf í öllum heiminum. Jú það að vera kúabóndi. Ég hafði því lent í þeirri “hörmung” sem skiptinemi að gerast kúabóndi, þurfa að búa við það að sinna næstversta starfi í heimi. En sagan er ekki alveg búinn, því hvaða starf ætli þessi annars ágæti blaðamaður hafi valið sem versta starf sem hægt er að hugsa sér í öllum heiminum? Jú versta starfið er nefnilega starf skógarhöggsmannsins. Og þegar maður skoðar þessa dvöl mína þarna á unglingsárunum þá mætti ætla að ég hafi upplifað heilt ár af hreinni martröð. Þarna var ég niður kominn á bæ þar sem fólk vann tvö verstu störf allra tíma að mati blaðamannsins.
En samt sem áður sagði ég hér í byrjun að dvöl mín á þessum stað hafi verið með því besta sem ég hef upplifað um ævina. Ekki hef ég heldur upplifað það að fólkið hafi verið eða sé mjög vansælt vegna þessa.
Af þessu má draga þann lærdóm eins og þið lærðuð á námskeiðinu ykkar að við skulum ávallt hlýða á þann boðskap sem dynur á okkur á degi hverjum með gagnrýnu hugarfari. Þó einhver segi að eitthvað sé hið versta, hvort sem það er margbreytileiki mannlífsins eða einstök störf þá eru orðin ein og sér engin trygging fyrir því að sá hinn sami hafi rétt fyrir sér.
Því segi ég þetta ágætu fermingarbörn. Verið ekki löt við að hugsa sjálfstætt, veltið upp ýmsum hliðum og gerið ávallt ráð fyrir því að ekki sé allt sem sýnist.
Ég óska ykkur aftur innilega til hamingju með daginn, ég þakka fyrir samveruna á námskeiðinu sem þið sóttu. Megi líf ykkar verða farsælt.
Jóhann Björnsson
Kennslustjóri borgaralegrar fermingar