Stefnuskrá Siðmenntar
Siðrænir húmanistar leggja áherslu á að rækta siðræn gildi og þekkingarleit án vísana í yfirnáttúrleg fyrirbrigði.
Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum.
Skilgreining, vettvangur og áhugasvið
Siðmennt er húmanískt lífsskoðunarfélag. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem með frjálsri aðild félaga hefur eftirfarandi að áhugasviði sínu og starfsvettvangi:
a. Siðferði og siðfræði. Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa siðferðileg álitamál.
b. Þekkingarfræði og heimsmyndin. Umræða um hvernig menn geta best aflað þekkingar um náttúrulegt umhverfi okkar og okkur sjálf. Þekkingarfræðin fjallar um það hvernig menn geta metið skynjanir sínar og hugsanir á hlutlægan máta til myndunar á gagnlegri þekkingu.
c. Fjölskyldan og félagslegar athafnir. Framkvæmd félagslegra athafna fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) samkvæmt lífssýn siðrænna húmanista.
- Áhugasvið félagsins er maðurinn, umhverfi hans og menning.
Siðferðilegur grunnur
- Siðmennt byggir starfsemi sína og lífssýn á siðrænum húmanisma (manngildishugsjóninni), sem er lífsviðhorf óháð trúarsetningum. Maðurinn sjálfur er ábyrgur fyrir velfarnaði sínum, ekki „æðri máttarvöld“. Félagið aðhyllist siðrænan, veraldlegan húmanisma sem styður manngildi, sæmd og sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings og rétt hverrar mannveru til að njóta frelsis svo lengi sem það brýtur ekki í bága við rétt og frelsi annarra.
- Siðmennt leggur áherslu á persónulegt frelsi mannsins en jafnframt ábyrgð einstaklingsins gagnvart náunga sínum. Félagið stendur vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum og hvetur þá til ábyrgðar bæði á eigin velferð og annarra.
Þekking og menntun
- Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.
- Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.
- Siðmennt hvetur til umræðu og fræðslu um siðferði, ekki síst á meðal barna.
- Siðmennt stuðlar að fræðslu innan félagsins og utan þar sem við á, í samræmi við markmið félagsins.
Þjóðfélagið og réttindi
- Siðmennt styður opið, víðsýnt og fjölþætt samfélag og telur að lýðræði sé besti kosturinn til að vernda mannréttindi bæði gagnvart valdafrekum forréttindahópum og umburðarlitlum fjöldahreyfingum.
- Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.
Frelsi frá játningum og innrætingu
- Siðmennt leitast við að tryggja réttlæti og sanngirni og útrýma umburðarleysi og ofsóknum.
- Félagið hafnar kreddum og krefst ekki trúarlegrar eða skoðunarlegar játningar af félagsmönnum sínum. Siðrænn húmanismi tileinkar sig menntun og frelsi frá innrætingu.
- Siðmennt er þeirrar skoðunar að siðrænn húmanismi sé raunhæfur valkostur í stað trúarbragða.
Mannúð, umburðarlyndi og valfrelsi
- Mannúð, umburðarlyndi og valfrelsiHúmanisminn er uppspretta ríkrar persónulegrar reynslu og ánægju við að hjálpa öðrum.
- Siðmennt hvetur til mannúðar og telur það skyldu náungans að hjálpa þeim sem eiga við fötlun eða sjúkdóma að stríða og styðja til aukins sjálfstæðis og hamingju.
- Siðmennt leggur áherslu á umburðarlyndi, samúð og bjartsýni; lærdóm en ekki kreddur, staðreyndir en ekki fáfræði og skynsemi en ekki blinda trú.
- Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.
- Siðmennt virðir réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild, að eignast börn samkvæmt eigin ákvörðunum, að hafa aðgang að víðtækri og góðri heilbrigðisþjónustu og fá að deyja með reisn.
Lífheimurinn og umhverfi okkar
- Siðmennt hvetur einstaklinga og stjórnvöld til að standa vörð um verðmæti jarðarinnar, auka þau og vernda fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
- Siðmennt er mótfallið óþarfa þjáningum dýra.
Listir og sköpunargáfa
- Siðmennt metur mikils listræna sköpun og viðurkennir mátt lista til umbreytinga. Siðmennt bendir á mikilvægi lista til persónulegs þroska og lífsfyllingar. Notkun ímyndunarafls til listrænnar tjáningar er í samræmi við húmaníska hugsjón.
Athafnir fjölskyldunnar
- Siðmennt mun halda áfram að efla borgaralega fermingu og hlúa að þeirri uppbyggilegu menntun sem ungmenni fá þar. Félagið mun nú bjóða upp á athafnaþjónustu þjálfaðra athafnarstjóra við veraldlegar, siðrænar og húmanískar athafnir, þ.e. nafngjöf, giftingu og útför, og mun leitast við að þróa, útvíkka og efla þá þjónustu ár hvert. Siðmennt fagnar því að með aukinni þjónustu við félagslegar athafnir fjölskyldna fjölgar valkostum þeirra til að lifa lífi sínu samkvæmt eigin lífsskoðun og menningarumhverfi.
[Samþykkt á aðalfundi 19. mars 2009]