Siðmennt var sem félag stofnað utan um það sem í þá daga var lítið þróunarverkefni áhugafólks um húmanisma. Verkefnið var borgaraleg ferming; valkostur fyrir ungt fólk sem fermast með veraldlegum hætti, með almennri fræðslu og athöfn sem ekki hefði sérstaka trúarlega merkingu. Fermingarstarfið var sett á laggirnar með óeigingjarnri vinnu Hope Knútsson og fleiri foreldra, en námsefnið byggðist á vinnu systurfélags okkar í Noregi sem hafði haft slíkan valkost í boði um árabil. Síðar meir var Jóhann Björnsson fengin til að halda þessari vinnu áfram, eftir að Hreinn Pálsson kom að þróun kennslunnar og svo hafa margir aðrir, meðal annars stór hópur leiðbeinenda, komið að starfinu. Síðan hefur þetta verkefni vaxið gífurlega og er nú orðinn valkostur sem um 14% hvers árgangs velja. Um leið hefur fermingarstarfið orðið flóknara, ábyrgð samtakanna þyngst í réttu hlutfalli við aukinn fjölda fermingarbarna og aðstandenda, og kröfur aukist um gegnsæi og faglegt verklag.
Ýmsa þætti þarf að endurmeta til þess að mæta þessum auknu kröfum og bregðast við vaxandi flækjustigi. Stjórn ákvað því að ráða nýjan verkefnastjóra á skrifstofu Siðmenntar til að halda utan um skipulag og umsýslu fermingarathafna og fermingarfræðslunnar að einhverju leyti. Að auki lagði stjórn upp með ýmsar breytingar til að auðvelda upplýsingaflæði og tryggja ábyrgt verklag og gagnsæi og var reynt að gera það í samstarfi við þáverandi kennslustjóra, Jóhann Björnsson. Jóhann reyndist ekki rétti maðurinn til að fylgja þessum nýju verkferlum úr hlaði og því var tekin sú ákvörðun í að endurnýja ekki samning hans.
Ákvörðun stjórnar um að taka upp nýtt skipulag við kennslustjórn borgaralegrar fermingar var tekin einróma. Forsendur ákvörðunarinnar voru atriði í stjórn og skipulagi fermingarfræðslunnar sem kennslustjóri átti þátt í, en ætlunin er ekki síður að taka skref inn í framtíðina. Rétt er að taka fram að ákvörðunin var ekki tekin vegna óánægju með sjálfa kennsluna. Það getur vissulega verið erfitt að gera breytingar, en við viljum endilega halda áfram að þróa hið mikilvæga starf sem hefur vaxið og dafnað í rúmlega 30 ár.
Jóhann Björnsson hefur lagt félaginu til krafta sína og þekkingu og átt mikinn þátt í að móta fermingarfræðsluna. Hann hefur getið sér gott orð sem kennari, og var við þessar breytingar var boðið að taka að sér almenn leiðbeinendastörf í fermingarfræðslu Siðmenntar. Hann hefur ekki séð sér fært að þiggja það boð. Yfirstjórn kennslustarfanna krefst hæfni í bæði uppeldisfræði og heimspeki, og einnig ríkra hæfileika í samskiptum við marga hópa (svo sem nemendur, foreldra, leiðbeinendur, starfsfólk og stjórn) að ógleymdri skipulagsfærni á mörgum viðum. Þá hefur áhersla á miðlun og samskipti við foreldra aukist, og vilja þeir margir fylgjast betur með hvað á sér stað innan veggja kennslustofunnar. Kröfur samfélagsins til fagmennsku í æskulýðsstarfi og kennslu, þar á meðal í lögum, hafa einnig aukist talsvert á síðustu áratugum og þessum kröfum þarf að mæta með samstilltu átaki forystu Siðmenntar og forsvarsmanna borgaralegrar fermingar. Skýr markmið og opin verkferli er hluti af okkar markmiðum.
Um einstök atvik og orðaskipti fyrir og eftir ákvörðun stjórnar verður ekki fjallað hér. Stjórn telur sig þó hafa gætt almennrar kurteisi í þeim samskiptum.
Það er ekki sjálfgefið að Jóhann Björnsson sé eini hæfi maðurinn til að stjórna fermingarfræðslunni, sérstaklega þegar hóparnir stækka ár frá ári og áherslan eykst á örugg samskipti og gott skipulag. Stjórninni er umhugað um að sú þróun og það mark sem hefur verið sett á kennsluna frá upphafi haldi áfram og við buðum leiðbeinendum að taka þátt í því starfi. Nýtt kennsluráð hefur hafið störf, eins og fram kemur í frétt á þessari síðu. Í því sitja meðal annars tveir reyndir leiðbeinendur sem hafa starfað í fermingarfræðslunni síðustu ár. Stjórn ber fullt traust til kennsluráðs og efast ekki um að ráðsmenn byggi starf sitt á afrakstri þeirrar áratugalöngu þróunar sem hefur átt sér stað í fermingarfræðslu Siðmenntar.
Stjórnin áttar sig á því að breytingar geta reynst fólki erfiðar og það er ekki endilega fallið til vinsælda að leggja af stöðu kennslustjóra, sem góður kennari og hugsuður hefur gegnt um langa hríð. Skipulag og stjórnun í stóru og stækkandi félagi á borð við Siðmennt þarf á hinn bóginn að geta haldið áfram þótt einstakir menn hverfi frá. Í starfinu má ekki taka svo mikið tillit til einnar persónu að það geti ekki haldið áfram frá degi til dags ef viðkomandi hættir. Í nútímalegum stjórnarháttum eiga ferli að vera opin og skiljanleg. Því er stjórnin ekki síst að reyna að ná fram með þessum breytingum, breytingum sem við höfum hvatt leiðbeinendur til að taka þátt í og vonumst til að skili sér í enn betra starfi við fermingarundirbúninginn.
Stjórn Siðmenntar
Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður
Sveinn Atli Gunnarsson
Kristín Sævarsdóttir
Margrét Pétursdóttir
Karen Edda Benediktsdóttir
Mörður Árnason, varamaður
Hope Knútsson, varamaður
Árný Björnsdóttir, varamaður
Stefán Rafn Sigurbjörnsson, varamaður