Í tilefni þess að prestshjónin Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson hafa í rituðu orði í ýmsum fjölmiðlum svívirt Siðmennt með að líkja stefnu Reykjavíkurframboðs Framsóknarflokksins á óskiljanlegan hátt við stefnu Siðmenntar vill stjórn félagsins lýsa yfir eftirfarandi.
Á engan veg er félagið fylgjandi því að taka fyrir eitt trúfélag og ráðast á lagaleg réttindi þess eins og Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hefur gert með orðum sínum um að afturkalla lóðarúthlutun múslíma í borginni. Siðmennt telur ótækt að ráðist sé að einu trúfélagi þegar það hefur fengið úthlutun samkvæmt lögum.
Siðmennt er í fararbroddi baráttunnar fyrir jafnri meðferð hins opinbera á öllum trú- og lífsskoðunarfélögum. Þar ber hæst að leggja á niður þjóðkirkjufyrirkomulagið og þau sérréttindi og sérstöku fjárútlát sem hin evangelísk-lútherska kirkja nýtur.
Siðmennt hefur barist fyrir því að trúboð og trúariðkun sé ekki hluti af opinberu skólastarfi og er þar með ekki að setja eigin lífsskoðanir sem eitthvað viðmið eins og prestshjónin saka félagið ranglega um. Siðmennt vill að foreldrar, sama hverrar trúar eða veraldlegrar sannfæringar þeir eru, geti rólegir sett börnin sín í opinbera skóla án þess að eiga það á hættu að þau verði þar sett undir trúariðkun annarra.
Þessi sýn á aðskilnað trúariðkunar/trúboðs og skólastarfs á ekkert skylt við framgöngu Framsóknarflokksins í Reykjavík undanfarnar vikur. Félagið frábiður slíkar tengingar og telur við hæfi að prestshjónin biðji félagið afsökunar á þessum ummælum.
6. júní 2014