Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Virk þátttaka í fermingarundirbúningi

ÞAÐ er flestum ljóst að það krefst nokkurs tíma að aðlagast nútímasamfélagi. Það er margt sem þarf að læra og margir siðir að taka upp. Það krefst líka nokkurs undirbúnings að verða unglingur og fullorðinn maður. Í okkar villta og fjölbreytta samfélagi er auðvelt að taka upp ósiði þannig að ekki verður aftur snúið. Þess vegna er lögð mikil áhersla nú á tímum á forvarnir t.d. gegn fíkniefnum. Enginn fæðist með siðferðisleg sjónarmið heldur lærast þau af samfélaginu. Það er ekki gefið að unglingur taki upp viðhorf og gildi sem foreldrar telja mikils virði. Afstaða til jafnréttis kynja, hörundslitar, lýðræðis, trúarbragða og frelsis er ekki meðfædd heldur lærist.


Hver sá sem lærir nemur best ef hann fær að taka virkan þátt í umræðu. Það er nauðsynlegt að þegar unglingar heyra um forvarnir gegn fíknefnum, um gildi í samfélaginu, mannleg samskipti, um trúarbrögð, fái þeir að rökræða um málefnin. Unglingur sem er óvirkur móttakandi og fær ekki að tjá sig mun ekki samsama sig skoðunum fyrirlesarans. Fyrirlesari um trú og siðfræði verður að veita unglingnum þau réttindi að ræða málefnið. Þegar einstaklingur tekur þátt í umræðu og tjáir skoðanir sínar tekur hann ábyrga afstöðu.

Félagið Siðmennt hefur í rúman áratug staðið fyrir undirbúningi unglinga fyrir fermingu. Unglingar taka þátt í námskeiði um margvísleg málefni. Þátttaka unglinganna er á jafnréttisgrundvelli þar sem allir fá að tjá sig og þar sem umræðan er mikilvægt atriði. Eftir að unglingarnir hafa tekið þátt í tólf vikna námskeiði er hátíðleg lokaathöfn þar sem þeir eru virkir þátttakendur með upplestur og tónlist, allt eftir eigin vilja. Fermingarathafnirnar hafa farið fram í Háskólabíói, Ráðhúsinu, Hafnarborg í Hafnarfirði og í Norræna húsinu og eru fjölsóttar. Opinber stuðningur við starfsemi Siðmenntar hefur verið af skornum skammti. Erlendis þykir það sjálfsagt að styrkja uppbyggjandi starfsemi frjálsra félagasamtaka á sama hátt og opinber trúfélög eru styrkt. Vonandi munu íslensk stjórnvöld sjá sér hag í að styrkja starfsemi Siðmenntar, sérstaklega þegar svo margir kjósa að láta ferma sig borgaralega.

Kynningarfundur um borgaralega fermingu verður haldinn kl. 11 laugardaginn 23. október í Kvennaskólanum. Frekari upplýsingar um borgaralega fermingu má finna á heimasíðu Siðmenntar, http: //www.islandia.is/sidmennt/

ÞYRÍ VALDIMARSDÓTTIR,
gjaldkeri Siðmenntar.

Frá borgaralegri fermingu árið 1995.

Morgunblaðið 21. október, 1999

Til baka í yfirlit