Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Virðing og umburðarlyndi

Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur á Hofsósi, skrifar kostulega grein í Fréttablaðið 28. september síðastliðinn, þar sem hann fer mikinn gegn Siðmennt – félagi siðrænna húmanista á Íslandi. Gunnar lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að guðleysingjunum í Siðmennt hafi verið hleypt inn í Fríkirkjuna til að gefa saman par borgaralega. Leiðinlegt þykir mér að Gunnar hafi áhyggjur af því að trúleysingjar heimsæki kristilegar kirkjur en mun alvarlegra þykir mér þó að lesa þær rangfærslur sem Gunnar fer með um Siðmennt, stefnu félagsins og markmið.


Um virðingu

Presturinn á Hofsósi heldur því fram í grein sinni að Siðmennt sé með þátttöku sinni í borgaralegri giftingu, sem haldin var í Fríkirkjunni, að sýna kristinni kirkju og eigin félagsskap óvirðingu. Hann segir orðrétt:

„Enda þótt Siðmennt kunni að bera takmarkaða virðingu fyrir kirkjunni þykir mér skrýtið að hún skuli ekki bera meiri virðingu fyrir eigin félagsskap og gildum. Þegar beðist er undan athöfn sem þessari þá er Siðmennt auðsýnd meiri virðing en hún auðsýnir kirkjunni – og eigin félagsskap.“

Síðar í greininni segir Gunnar að trúverðugleiki Siðmenntar „hafi beðið hnekki í samhengi þessa máls“.
Í fyrsta lagi á ég erfitt með að sjá hvernig Siðmennt er að sýna kirkjunni óvirðingu með því að taka þátt í borgaralegri athöfn í Fríkirkjunni með leyfi kirkjunnar sjálfrar. Í öðru lagi var það ekki Siðmennt sem valdi staðsetningu athafnarinnar eins og Gunnar gefur í skyn. Parið sem um ræðir hafði einfaldlega samband við félagið og óskaði eftir aðstoð við að framkvæma borgaralega athöfn. Parið hafði sjálft áður bókað Fríkirkjuna og fengið leyfi til að halda borgaralega giftingu þar. Umrætt par hafði í fyrstu ætlað að halda athöfnina í Salnum í Kópavogi en þar á bæ kærðu menn sig ekki um að hýsa borgaralega giftingu þar sem slík athöfn hafði aldrei verið framkvæmd áður. Hvað áttu forsvarsmenn Siðmenntar að gera? Neita því að aðstoða parið vegna þess að athöfnina átti að halda í kirkju? Ég hefði nú haldið að óvirðing og skortur á umburðarlyndi hefði falist í slíkum viðbrögðum.

Staðlausar staðreyndir

Gunnar segist hafa sérstakar áhyggjur af trúverðugleika Siðmenntar í „ljósi þeirrar stað­reyndar að Siðmennt [… hafi verið stofnað] sem mótvægi við íslensku Þjóðkirkjuna“. Þetta eru fréttir fyrir okkur sem höfum starfað í Siðmennt til margra ára. Enda segir í stefnuskrá Siðmenntar, sem Gunnar segist hafa lesið, að: „Siðmennt styður opið, víðsýnt og fjölþætt samfélag og telur að lýðræði sé besti kosturinn til að vernda mannréttindi bæði gagnvart einræðissinnuðum forréttindahópum og umburðarlitlum fjöldahreyfingum.“ Stofnun Siðmenntar hefur ekkert með Þjóðkirkjuna eða aðra trúar­söfnuði að gera.

Fyrir utan þessa staðlausu „staðreynd“ segir Gunnar það vera „augljóst markmið félagsins að lágmarka sýnileika trúar í samfélaginu“. Hvar presturinn fær þessar upplýsingar veit ég ekki en þær koma í það minnsta ekki úr stefnuskrá Siðmenntar. Siðmennt er málsvari húmanisma á Íslandi og berst fyrir trúfrelsi og þar með fyrir hlutleysi yfirvalda þegar kemur að lífsskoðunum.

Siðmennt fagnar öllu góðu samstarfi

Frá upphafi hefur Siðmennt haft það á stefnu sinni að bjóða upp á borgaralegar eða veraldlegar athafnir á borð við nafngjafir, fermingar, giftingar og útfarir. Opinber stuðningur við slíkar veraldlegar athafnir er næstum enginn hér á landi. Siðmennt hefur ekkert hús til yfirráða og engan starfsmann. Mest allt starf Siðmenntar fer fram með sjálfboðavinnu. Við fögnum því öllu jákvæðu samstarfi sem okkur býðst. Ég vil því þakka Fríkirkjunni sérstaklega fyrir samstarfsviljann og það umburðarlyndi að hleypa guðleysingjum inn í guðshús. Slíkt umburðarlyndi er greinilega ekki að finna í öllum vistarverum almættisins.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Til baka í yfirlit