Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vinaleið er ekki rétt leið.

Svar við grein Helgu Bragadóttur “Vinaleið, frábær leið” Föstudaginn 27. október, 2006.

Af lestri greinar Helgu Bragadóttur “Vinaleið, frábær leið” má glöggt sjá að hún er ekki í nokkrum vafa um að Vinaleið sé trúboð. Ég er sammála Helgu um það en að öðru leyti er ég ósammála henni í flestum atriðum.

Kærleikur og gott siðferði er óháð trúarbrögðum. Ekki þarf að boða trú á guðlegar verur til að kenna gott siðferði og iðkun kærleiks. Kærleikur er sammannlegur og gott siðferði þekkist meðal allra þjóða og trúarbragða. Því væri réttara að tala um almennt siðferði frekar en kristið siðferði. Að
halda því fram að kristið siðferði, hvað sem það nú þýðir, sé öðru siðferði fremra stenst einfaldlega ekki og ber vott um fordóma.


Helga skrifar í grein sinni: “…en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt eða lesið um að Jesús Kristur boði harðræði, hefnd eða óvild.”

Jesú segir:
„(Matteus 10.34) Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. (10.35) Ég er kominn að gjöra son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. (10.36), Og heimamenn manns verða óvinir hans. (10.37), Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. (10.38), Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður. (10.39) Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.“

Þarna finnst mér Jesú boða harðræði, hefnd og óvild.

Jesú segir,
„(Matteus 5.32), En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína nema fyrir hórsök, verður til þess að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.“

Kristnir og kirkjan hafa ekki séð ástæðu til að taka mark á þessum orðum Jesú. Biblían boðar kvenfyrirlitningu og þó að kirkjan hafi í gegnum aldirnar haft í frammi misrétti gegn konum þá hefur hún látið af því að mestu. Því er þó að þakka jafnréttisbaráttu kvenna frekar en siðarbótum innan kirkjunnar. Kirkjan hefur í gegnum tíðina þurft að láta af ýmis konar misrétti og misbeitingu. Með ári hverju eykst þekking fólks og jafnframt dregur úr því sem sem Kirkjan getur boðað af því sem í Biblíunni stendur.

Annar þjóðfélagshópur sem er úthrópaður enn í dag af kirkjunnar mönnum eru trúlausir.
Forvígismönnum kirkjunnar er mikið í mun að koma þeirri hugmynd að meðal þjóðarinnar að trúlausir séu siðlausir og samfélaginu standi ógn af þessu fólki. Hóp trúlausra fylla meðal annars margir af helstu vísindamönnum sögunnar, látnir og lifandi. Fólk sem hefur lagt meira af mörkum til velsældar og hamingju mannkyns en nokkur guðsmaðurinn.
Þetta fólk er siðlaust og hættulegt samkvæmt málflutningi kirkjunnar. En auðvitað þýðir ekkert að segja vel menntaðri og upplýstri þjóð eins og Íslendingum slíka fásinnu.

Helgu er tíðrætt um kristinn kærleika í grein sinni.
Kærleikur kristninnar í eilífðinni stendur þeim einum til boða sem játast Jesú, hinir eiga vísa vist í helvíti eins og okkur er öllum kunnugt um. Hugsið ykkur alla þá einstaklinga sem í gegnum aldirnar hafa látist og ekki fengið tækifæri til að taka kristna trú. Fólk í heimshlutum sem kristnin náði ekki til. Þetta fólk brennur nú í víti og skilur væntanlega ekki hvernig á því stendur.

Ég geri ráð fyrir að Helga sé trúlaus þegar kemur að öðrum trúarbrögðum svo sem ásatrú, íslam, búddisma, hindúisma o.s.frv. Því ætti Helga auðveldlega að geta sýnt fólki skilning og umburðarlyndi, sem ekki aðhyllist sömu trú og hún. Auk þess virt rétt þeirra til að trúa á sinn guð og okkar hinna að trúa ekki.

Umræðan um Vinaleið snýst ekki um það hvort ein trúarbrögð séu betri en önnur, heldur um sjálfsögð og lögbundin mannréttindi forelda og barna þeirra að ráða hvaða trú þau iðka og eða hvort þau kjósa að iðka trúarbrögð yfir höfuð.
Vinaleið gengur út á að fulltrúar þjóðkirkjunnar fái forgang að skólum landsins umfram önnur trúarbrögð eða lífsskoðunarfélög. Kirkjan fær meira að segja að eiga viðtöl við börnin án vitneskju foreldaranna. Það hefur komið fram af hálfu kirkjunnar að í þessum viðtölum er kristinni trú haldið að börnunum, með öðrum orðum ástundað trúboð. Þarna er verið að fremja brot á lögum og ber því að stöðva þetta umsvifalaust. Trúfélög eiga ekki að fá að boða trú sína í opinberum skólum, ekkert frekar en stjórnmálaflokkar eða önnur lífsskoðunafélög skoðanir sínar. Skólar eiga að vera óháðir í þessum efnum.

Kirkjan sýnir í þessu máli ekki réttlæti heldur ranglæti, ekki umburðarlyndi heldur umburðarleysi, ekki siðferði heldur siðleysi.

Ég skora á Helgu og aðra talsmenn Vinaleiðar að horfa á málið frá fleiri sjónarhornum en þeirra eigin. Prófið að sjá fyrir ykkur Vinaleið þar sem fulltrúinn er frá öðru trúfélagi eða trúarbrögðum . Ég er sannfærður um að þá sjáið þið rangindin og óréttlætið í þessu máli.

Þannig sýnið þið kærleika í verki.

Arnold Björnsson

Til baka í yfirlit