Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Viðreisn telur að ríkið eigi ekki að skipta sér af trúarbrögðum og vill því aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

Áður er einstökum spurningum Siðmenntar er svarað er rétt að benda á stefnu Viðreisnar um trúmál, ríki og kirkju, sem var samþykkt á landsþingi flokksins þann 24. september síðast liðinn. Á grundivelli hennar er spurningunum svarað.

„Trú og trúarbrögð eiga að vera án afskipta ríkisins. Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög né innheimtu gjalda til trúfélaga. Tímabært er að ræða aðskilnað ríkis og kirkju og bera breytingar á kirkjuskipan undir þjóðina.“

 

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Viðreisn er þeirrar skoðunar að trú og trúarbrögð eigi að vera án afskipta ríkisins. Í því felst aðskilnaður ríkis og kirkju.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?

Viðreisn telur tímabært er að ræða aðskilnað ríkis og kirkju og bera breytingar á kirkjuskipan undir þjóðina.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög né innheimtu gjalda til trúfélaga. Rétt er að breyta lögum  til samræmis, en veita sanngjarna aðlögun að þessari breytingu.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Ríkið á ekki að skipta sér af innheimtu gjalda til trúfélaga. Rétt er að breyta lögum til samræmis, en veita sanngjarna aðlögun að þessari breytingu.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Trú og trúarbrögð eiga að vera án afskipta ríkisins. Þess vegna er óeðlilegt að löggjafinn leysi byggingar kirkna eða annarra tilbeiðslubygginga undan hefðbundnum greiðslum í tengslum við úthlutun lóða og annan lögbundin kostnað við byggingar.

Frá Siðmennt:

Sumar spurningarnar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda.

Til baka í yfirlit