Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vetrarsólstöðuhugvekja2024

Vetrarsólstöðuhugvekja2024

Gleðilegar vetrarsólstöður kæru vinir, nær og fjær.
Við höldum inn í hækkandi sól með okkar jákvæðu húmanísku hugsjónum og gildum og hlökkum til komandi árs.

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, flutti í morgun á Rás 1 hugvekju félagsins í tilefni vetrarsólstaða. Hér er hún.

 

Kæri hlustandi

Nú þegar klukkuna vantar aðeins örfáar mínútur í sjö að morgni tuttugasta og fyrsta desember, eru mörg ykkar rétt að fara á fætur; og samhliða gömlu gufunni ómar gutlið í hraðsuðukatlinum. Vatn sem verður von bráðar að kaffi. Inni er hlýtt og notalegt, en úti er ennþá myrkur og verður það vísast enn um stund. Sólarupprás er ekki fyrr en eftir um það bil fjóra og hálfa klukkustund, þegar klukkan er tuttugu og tvær mínútur gengin í tólf, og dagurinn hefur raunverulega innreið sína. Dagur sem varir styst allra daga ársins. Fjórar klukkustundir, sjö mínútur og sjö sekúndur. Sex sekúndum styttri en í gær.

En hvað sem innreið dagsbirtunnar líður, þá veit ég að mörg ykkar verða löngu búin að hefja daginn sinn. Sum hafa kannski nýtt tímann og pakkað inn síðustu gjöfunum, á meðan önnur ranka við sér og átta sig á því að nú séu einungis þrír dagar þar til venjan er á flestum heimilum landsins að skiptast á pökkum við sína nánustu. Það sé nú kannski kominn tími til að hefja innkaupin, eða föndrið eða hvað það nú er sem meginstefið í gjöfum verður þetta árið.

Ég verð að viðurkenna að ég tengi meira við síðari týpuna en hina fyrri. Þrátt fyrir að elska myrkrið, jafnvel meira en skínandi sólina, og þrá samverustundir með vinum og fjölskyldu, þar sem gripið er í spil eða hlustað á ljúfa tónlist, eða bara spjallað um léttmeti eins og hvalveiðar og valkyrjur, þá eru hátíðirnar mér líka hátíð samviskubits og kvíða. Kröfurnar eru óramargar. Sumar sjálfskipaðar. Aðrar fáum við í arf og enn aðrar eru samfélagslegar og dynja á okkur, þar sem við skrunum niður samfélagsmiðlana, í eins konar bælingu til að fresta því að takast á við öll verkin.
Það á að baka allavega sjö sortir, og reira aðventukrans, gera alþrif á húsinu og hengja upp skrautið sem við eigum að vera búin að sanka að okkur í mörg ár. Helst í ákveðnu þema, svo það sé alltaf ákveðin stemming að kíkja í aðventukaffi til Ingu. Svo þarf að búa til samverudagatal fyrir fjölskylduna - og framkvæma það — Home Alone í kvöld, lautarferð á morgun — finna til gjafir fyrir leikskólakennarana og fara með kerti á grafir formæðranna. Börnin verða auðvitað að fá gjafir í skóinn, OG dagatal af nýju gerðinni, sem ekki lengur hverfist um eftirvæntinguna við að finna lítinn mynstraðan súkkulaðimola í hverjum glugga, heldur á það að vera meira og stærra en í fyrra. Minecraft, snyrtivörur, legó. Þá hefur áður óþekkt aðskotaplanta gert vart við sig í vistkerfi íslenskra jólahefða: Álfur á hillu, sem veður í villu og ráfandi rústar öllu á heimilinu. Bjórdagatal fyrir bóndann og fullkomin gjöf handa tengdamömmu sem á allt. Sængurfötin straujuð og jólafötin keypt inn, svo enginn fjölskyldumeðlimanna fari í jólaköttinn.

Og ofan á samviskubitið yfir þessu öllu leggst svo annað lag af samviskubiti. Það er skömmin yfir því að láta undan þessari neysluhyggju. Lítil rödd með loddaralíðan, sem hugsar með sér hvort feðraveldið hafi kannski rétt fyrir sér. Er það kannski ég sem bý til vandann? Og sektarkennd yfir því að njóta samverustundanna með eigin fjölskyldu og vinum, inni í hlýjunni; þegar það er ljóst að það búa ekki öll við hlýju og yl á myrkustu mánuðum ársins. Samverustundir allt of margra systkina okkar hér á jörðinni eru litaðar af ófriði. Af sorg yfir missi fjölskyldumeðlima sem þurftu ekki að falla. Jólin eru hringd inn með sprengiregni, sem ómar um þunna veggi tjaldanna í flóttamannabúðunum.

Og auðvitað eru allar þessar hugrenningar mínar litaðar af þröngum sjóndeildarhring forréttindamanneskjunnar. Jólin eru mögulega ekki stórhátíð á Gaza, frekar en í mörgum löndum í kring. En það sem flestar trúarhátíðir og veraldlegri árstíðir eiga sameiginlegt, þvert á menningarheima, er að þær snúast fyrst og fremst um samverustundir. Um ilmandi mat og heit faðmlög. Um að staldra við og vera þakklát fyrir fólkið okkar.
Nú er klukkan að skríða yfir níu á Gaza. Sólin kom upp vel fyrir sjö og sest ekki fyrr en rétt fyrir fimm. Þar er stysti dagur ársins rúmir tíu tímar - en samt hefur myrkrið heljartök á lífinu þar. Í skugga þjóðarmorðs Ísraelshers á þeirri þjóð sem hefur mátt gera innmúraða strandlengjuna að heimili sínu — að fangelsi sínu — svo áratugum skiptir, er vonin veikari en nokkru sinni fyrr. En hún lifir samt enn. Í brjóstum barnanna sem leika sér um göturnar. Í samverustundum þeirra fjölskyldumeðlima sem eftir standa. Í ljóðum og ljósmyndum. Í voninni um að alþjóðasamfélagið taki höndum saman og segi að nú sé komið nóg.

***

Nú legg ég samviskubitið til hliðar og tek upp samkenndina þess í stað. Fyrir sjálfri mér og eilífðarbaráttu manneskjunnar fyrir því að feta milliveginn milli krafna nútímans, meðvitundar um náttúruna og samfélagið, og þess sem okkur raunverulega finnst gott og satt og skipta máli. Og samkenndina fyrir öllum sem sannarlega eiga skilið von, ofar volæði.

Í dag er stysti dagur ársins. Í myrkasta mánuðinum er hefð fyrir því, í flestum menningarheimum, að koma saman og fagna því að nú skipti sólin um skoðun. Að myrkrið hörfi á flótta og dagana taki að lengjast. Að það sé von eftir allt saman. Megi fleiri taka sér sólina til fyrirmyndar og snúa sinni vegferð á bjartari veg. Það er ekki of seint að finna mennskuna.

Kæri hlustandi.
Fyrir hönd Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, óska ég þér gleðilegra hátíða.

Til baka í yfirlit