Ævar Þór Benediktsson flutti erindið Vertu þú sjálfur! við borgaralega fermingu í Fjölbrautaskóla Garðabæjar 19. apríl 2018.
Kæru fermingarbörn – til hamingju með daginn.
Kæru, foreldarar, forráðamenn og aðrir – til hamingju með fermingarbörnin. Fermingarfólkið. Nú tölum við um fólk, ekki satt? Á þessum tímamótum, ekki satt?
Kæru vinir, nú eruð þið komin í fullorðinna manna og kvenna tölu! Þið eruð fullorðin. Þið eruð hér með ábyrgir þegnar í okkar ágæta þjóðfélagi og áður en þið vitið af verðiði byrjuð að borga skatta, vinna langa vinnudaga (líka stundum um helgar) og borga VISA-reikninga. Því það er það sem það að vera fullorðinn þýðir. Ábyrgð. Endalaus ábyrgð. Ekki satt? Og það að verða fullorðinn er eitthvað sem við viljum verða sem allra fyrst. Ekki satt?
Því það eru allir að flýta sér. Flýta sér í skólann. Flýta sér aftur heim. Flýta sér í frí. Flýta sér að vera fullorðinn.
Og um leið og maður verður fullorðinn, vitiði hvað það fyrsta sem maður hugsar er? “Ah, ég vildi að ég væri aftur orðinn barn. Eða unglingur. Af hverju var ég að flýta mér að verða fullorðinn? Ég vildi að ég gæti bara hangið í símanum allan daginn á mili þess sem ég horfi á Netflix.” Að því sögðu – að horfa á Netflix og hanga í símanum er enn stór partur af mínu lífi. En þið vitið hvað ég á við.
Og ekki það að segja að það að verða fullorðinn sé hræðilegt – það er líka snilld. Bara öðruvísi snilld. Ég þarf ekki að biðja um leyfi ef ég vil kaupa mér rándýra bók eða tölvuleik – ég þarf hins vegar að safna mér sjálfur fyrir þeim. Og fyrst þarf ég að borga reikningana. Og matinn. Því eins frábært og það væri er ekki hægt að borða tölvuleik.
Það tók mig smástund að gera mér grein fyrir því hvað það var sem ég vildi tala um við ykkur. Það fyrsta sem mér datt í hug var að tala um vísindi. Auðvitað. Og þau tengjast auðvitað öllu, en svo fór ég að grafa dýpra. Hvað er það sem ég, Ævar Þór Benediktsson, get ráðlagt ykkur? Eitthvað veganesti, skotheld formúla sem þið munuð rifja upp í veislunni ykkar á eftir og þegar þið komið hingað eftir 10, 20 eða 30 ár og haldið ykkar eigin ræðu munuði segja: “Jah, þegar ég fermdist kom gæi sem heitir Ævar og hélt svo frábæra ræðu að ég man enn eftir henni. Hver er Ævar? Sköllótti gæinn á RÚV, hann var einu sinni með hár, hefurðu ekki séð hann? Hann tók við Landanum á RÚV þegar Gísli hætti.” Og þá fattaði ég það. Boðskapur þessarar ræðu er einfaldur. Þrjú orð: Vertu. Þú. Sjálfur.
Og ég veit, ég veit, það er ömurlegur boðskapur, lumma og leiðinlegheit – en bíðiði. Ég lofa að þetta verði skemmtilegt.
Ég er alinn upp í sveit, í Borgarfirði, og fór í skóla í Varmalandsskóla – sem er rétt hjá Baulusjoppunni. Annað sem gerir þennan skóla frægan er að sundlaugin þar er líklega með stystu rennibraut landsins. Þú ert eiginlega kominn ofan í áður en þú rennir þér af stað.
Allavega – skólinn var lítill, við vorum oftast 8-10 krakkar í bekknum. Og það er ekkert gefið að maður eignist besta vin í svona litlum bekk, en sem betur fer var ég heppinn. Það var annar gaur eins og ég í bekknum. Gaur sem vildi helst bara vera inni og lesa eða horfa á sjónvarpið eða teikna eða skrifa. Og þegar maður býr í sveit er svoleiðis ekkert alltaf í boði. Alls ekki. Sveit – fyrir þá sem aldrei hafa heyrt orðið – er stórt tún fullt af húsum, dýrum og foreldrum sem segja: ,,Komdu út þegar þú ert búinn að læra – það þarf að moka stíurnar.” Svolítið eins og að vinna í Húsdýragarðinum, nema á lægri launum. Og að sjálfsögðu hjálpaði maður til – en um leið og síðasti hestaskíturinn flaug í hjólbörurnar hljóp maður aftur inn að lesa. Það voru engar tölvur komnar á þessum tíma – það var ekki fyrr en ég komst í 8. bekk, en bækur og sjónvörp réðu ríkjum. Við áttum ekki einu sinni video-tæki (sem er eins og DVD-spilari – sem er eins og Blu-Ray-spilari – sem er eins og Netflix, nema tekur meira pláss… Úff, ég er gamall.)
Það sem sveitaskólar eiga sameiginlegt – og ég er viss um að þetta gildir líka um skóla hér í bænum – er að reglulega eru haldnir samstarfsdagar. Samstarfsdagar var orð sem ég hataði. Þá hittust skólar úr sveitinni og kepptu! Engum datt í hug að við vorum kannski til í að bara hittast og spjalla í rólegheitum – nei, nei – það þurfti að vera keppni til að komast að því hvaða skóli væri fljótastur, skarpastur, bestur. Og um kvöldið var haldið diskótek. Sem var samt fáránlegt, því eðli málsins samkvæmt myndu fleiri mæta á ballið sem höfðu tapað en þeir sem höfðu unnið.
Ég var ekki góður í íþróttum (ég lærði ekki að grípa bolta fyrr en ég var 24 ára og það er engin lygi – þú átt s.s. að horfa á boltann, ekki þann sem var að kasta honum), þorði ekki að dansa á diskóinu og þótti þessi reglulegi dagur þess vegna alveg fáránlega leiðinlegur. En í 6. bekk ákvað ég að slá til. Reyna að kynnast nýju fólki. Við vorum í heimsókn í öðrum skóla, nýmætt á svæðið og ég geng einn fram á hóp af krökkum úr skólanum sem við vorum að heimsækja. Þau eru á mínum aldri og ég hugsa: “Best að brjóta ísinn. Spjalla. Eignast vini.” Og einhverra hluta vegna – og ég veit enn ekki hvað ég var að spá – ákveð ég að rappa fyrir þau. Þið vitið, eins og maður gerir þegar maður vill eignast vini. Í miðju rappi sé ég á svipnum á þeim að þetta er ekki að hitta í mark. Vægast sagt ekki. Ég klára rappið, finn að ég er orðinn eldrauður í framan, stama eitthvað um að ég þurfi aðeins að skjótast og labb-hleyp inn á næsta klósett.
Og þar gerði ég svona eins og allir gera í bíómyndunum, en enginn gerir í alvörunni – þið vitið; set vatn í lófann og skvetti framan í mig. Hvað átti ég að gera? Dagurinn var bara rétt að byrja – ég var fastur í ókunnugum skóla í marga klukkutíma í viðbót, átti eftir að keppa, átti eftir að mæta á diskótekið, átti pottþétt eftir að rekast á þau margoft í viðbót – hvað átti ég að gera? Ég gæti ekki falið mig allan daginn!
Ég leit í spegilinn.
Og fékk hugmynd.
Ég reif mig úr peysunni, og stóð á bolnum inni í baðherberginu. Tók meira vatn í lófann og setti í hárið – ruglaði því. Óð aftur fram. Beint aftur til krakkanna. Og þóttist vera tvíburabróðir minn. ,,Hæ, hafði nokkuð séð Ævar, ég er bróðir hans,” sagði ég með örlítið öðruvísi röddu en áður. Þau störðu á mig.
,,Nei…” sagði einhver.
,,Ókei,” sagði ég og skimaði í kringum mig. ,,Hvert fór hann eiginlega?” og svo óð ég af stað.
Fór aftur inn á klósett, í peysuna, þurrkaði hárið, aftur fram og: ,,Hey, hafði nokkuð séð bróður minn.” Svona gekk allur dagurinn. Lykillinn að því að þykjast vera tvíburi þegar maður er einn er að vera að leita alltaf að hinum. Þetta er dæmi um það þegar ég þorði ekki að vera ég sjálfur – gríðarlegt vesen, góð saga, en svakalegt vesen – í stað þess að klára rappið og segja svo: “Jebb, þetta var ömurlegt. Bæ!” Það gera allir lélega og fáránlega hluti – það er hluti af því að vera manneskja.
Þegar ég var 5 ára gamall gerði ég mér grein fyrir því að það væri maður sem ynni við það talsetja Strumpana. Hann hét Laddi og fengi pening fyrir það að breyta á sér röddinni og tala inn á teiknimyndir. “Þetta er það sem ég vil gera,” ákvað ég. Þremur árum seinna sá ég söngleikjabíómyndina Litlu hryllingsbúðina. Önnur ljósapera kviknaði yfir höfðinu á mér: Þetta var líka vinna. Að syngja og leika. Og oft var það sama fólk sem gerði það og talaði inn á teiknimyndirnar. Hvað hét þessi stórkostlega starfsgrein eiginlega? Leikari.
Maður þarf samt að hafa klárað framhaldsskóla til að geta orðið leikari þannig að ég hélt í þennan draum í mörg ár. Þegar ég svo loksins var orðinn nógu gamall til að fara í inntökupróf í Listaháskóla Íslands undirbjó ég mig brjálæðislega vel. Það eru þrjú þrep í inntökuprófunum. Ég flaug í gegnum það fyrsta. Í gegnum næsta. Og svo – komst ég ekki inn. Og ég ætla ekki að ljúga að ykkur; ég var 21 ára gamall og grenjaði í heila viku. Án djóks. Sat við tölvuna mína, horfði á þætti og grenjaði ofan í Subwayinn minn. En – ég gafst ekki upp. Og það er önnur lexía sem er svakalega mikilvæg. Því það mun gerast: Maður mun fá nei, það tekst ekki allt í fyrstu tilraun.
En í stað þess að skella í lás og hætta við allt saman varð ég helmingi ákveðnari. Næst ætlaði ég að komast inn! Ég undirbjó mig helmingi betur, ég lærði af reynslunni, fór aftur í prufurnar ári seinna – og flaug inn.
Áður en ég komst inn í LHÍ sótti ég um vinnu í barnaútvarpsþættinum Vitanum á RÚV. Þau voru ekki að auglýsa eða neitt – ég bara sendi þeim póst og spurði hvort ég mætti koma.
Mér til mikillar ánægju sögðu þau já og áður en ég vissi af var ég kominn með upptökutæki í hendurnar. Það var ekki búið að ráða mig, en þau voru til í að sjá hvað ég gæti gert. Ég fékk 7 daga, eina viku, og mátti taka upp hvað sem er. Sem eru hræðilegar leiðbeiningar – það er ekkert verra en að mega gera hvað sem er!
Ég var heima, í sveitinn og hugsaði: Hvað get ég gert? Og ég ákvað – ég ætla að vera ég sjálfur. Hvað er það Ævars-legasta sem ég get gert. Þannig að ég tók upptökutækið, fann kúrekahatt sem pabbi átti (þetta var samt útvarp), skellti honum á höfuðið á mér, gekk af stað út á tún – og braut blað í sögu íslensks útvarps: ég tók viðtal við hest.
Ég fékk vinnuna.
Í kjölfarið fékk ég vinnu í barnaþættinum Leynifélaginu, þar sem Ævar vísindamaður varð til. Leynifélagið heimsótti svo Stundina okkar og upp úr því fór ég að vera reglulegur gestur þar. Og svo komu þættir, bækur, lestrarátök og þessi ræða. Og ég get lofað ykkur því, að Ævar vísindamaður myndi aldrei virka, aldrei, ef ég væri ekki ég sjálfur.
Og talandi um að vera maður sjálfur: Ég hef aldrei drukkið. Aldrei dottið í það. Ekki það að það sé áfengisvandamál einhvers staðar í kringum mig – ég byrjaði bara aldrei á þessu. Ég hef smakkað – og þótti þetta allt saman vont á bragðið. Og fyrir mér var þetta mjög einfalt: Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að vera að drekka eitthvað sem mér þykir vont á bragðið ef ég þarf þess ekki?
Vinir mínir drekka langflestir og það er í góðu lagi. Þetta þýðir ekki að ég sitji einn heima og sé aldrei boðið í partý, alls ekki. Jújú, ég verð þreyttari fyrr en þá fæ ég mér bara kaffi og er góður langt fram á nótt. Það sem ég er að reyna að segja að þetta er val. Ekki byrja að drekka vegna þess að einhver er að neyða þig til þess. Vertu þú sjálfur! Ef vinur þinn eða vinkona nennir ekki að hanga lengur með þér því hann drekkur en ekki þú – þá er þetta ekki alvöru vinur þinn. Punktur.
Og eins ógeðslega hallærislegt og það hljómar þá er alveg hægt að ræða þessi mál við foreldra sína. Á einum tímapunkti í menntaskóla átti ég í hrikalegum stelpuvandræðum – en ekki hvað? Ég ákvað, eftir að hafa fengið kjánahroll í heilan dag, að hringja í pabba. Og það sem hann sagði hjálpaði. Foreldrar manns, þótt þau skilji ekki enn nákvæmlega hvað Snapcaht er, vita margt.
Kæru foreldrar, forráðamenn og ömmur og afar: Snapchat er s.s. appið með hvíta draugnum á gula bakgrunninum. Ef þið vitið ekki hvað app er – þá get ég ekki hjálpað ykkur.
Og að lokum. Hér eru nokkrir hlutir, í engri sérstakri röð, sem gott er að hafa í huga fyrir framtíðina:
- Vertu góður við aðra. Þótt þeir fari í taugarnar á þér. Sérstaklega ef þeir fara í taugarnar á þér. Vertu meganæs. Ofurnæs. – Það fer miklu meira í taugarnar á þeim.
- Borgaðu í stöðumæli. Jafnvel þótt þú sért bara að skjótast inn í nokkrar mínútur. Stöðumælasekt getur eyðilagt fyrir manni daginn og aumingja stöðumælaverðirnir eru bara að reyna að vinna vinnuna sína. Ekki skamma þá þótt þú hafir ætlað að svindla smá.
- Ekki vera í símanum í bíó. Plís. Í alvöru. Plís!
- Þú munt þurfa að mæta í vinnuna fimm sinnum í viku. Gerðu það fyrir sjálfan þig að vinna við eitthvað sem þér þykir skemmtilegt, sem þú brennur fyrir. Ef þú mögulega getur.
- Spurðu. Það er allt í lagi að spyrja. Þú ert ekki vitlaus þótt þú vitir ekki svarið við einhverju. Það veit enginn allt – en allir vita eitthvað. – Nema Google. Google veit allt.
- Það er í lagi að gera mistök. Það gera allir mistök. Þess vegna setja þeir strokleður á hvern einasta blýant.
- Það sem fer einu sinni á internetið fer aldrei af því. Jafnvel þótt þú eyðir því. Sorrý.
- Vertu kurteis við þjónustufólk. Sérstaklega ef þau eru að koma með mat til þín.
- Allir, allir sem þið dýrkið og dáið eru nördar. Að vera nörd þýðir ekki að vera stanslaust í tölvunni – að vera nörd þýðir að vera ógeðslega góður í einhverju. Sumir eru góðir í að leika, þau eru leiklistarnördar, aðrir eru brjálæðislega góðir söngvarar – vegna þess að þau voru með söng og tónlist á heilanum. Þau er tónlistarnördar. Rithöfundar, íþróttafólk, dansarar, sjónvarpsfólk – nördar á sínu sviði. Annað orð er sérfræðingur – en það er lengra og leiðinlegra. Nörd er miklu meira töff.
- Nördarnir ráða heimunum. Þannig að ekki verða miður þín ef einhver kallar þig nörd. Það er eitt mesta hrós sem þú mögulega getur fengið.
- Ekki. Vera. Í símanum. Í. Bíó. Plís!
- Og verið þið sjálf. Sama hversu erfitt og asnalegt það kann að vera – það er enginn betri í að vera þú, heldur en þú. Enginn. Njóttu þess.
Til hamingju með daginn – takk fyrir að bjóða mér.