Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Málþing um málefni fólks á flótta

Málþing um málefni fólks á flótta

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi stóð á dögunum fyrir málþingi um málefni fólks á flótta út frá siðfræðilegu- og sögulegu samhengi

Efni þingsins er sprottið úr atburðum liðinna vikna, vinnubrögðum sem beitt er við brottvikningu fólks í viðkvæmri stöðu úr landi sem og viðbrögðum og viðbragðaleysi ráðamanna. Spurningin um hvenær við erum bara að vinna vinnuna okkar var rædd og því velt upp hvort - og þá við hvaða aðstæður - okkur beri okkur siðferðileg, jafnvel lagaleg skylda til að óhlýðnast fyrirmælum? Er opinberum starfsmönnum í einhverjum tilfellum heimilt að láta eigið gildismat og siðferðiskennd ráða því hvort þeir hlýði skipunum. Ef já, hvar liggur línan og hver setur hana? Ef nei, af hverju ekki og hvaða kosti hefur fólk þá? Hvað getur sagan kennt okkur? Hvar koma grundvallarmannréttindi fólks á flótta inn í jöfnuna? Hver eru grundvallarmannréttindi?

 

Málþingið var haldið í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1, R. mánudaginn 21. nóvember kl. 17:00-19:00 og frummælendur voru þrjú;

Anna Marsibil Clausen, dagskrárgerðarkona og ritstjóri hlaðvarpa RÚV hóf dagskrána með yfirferð um hlaðvarpsþætti sem gefnir voru út fyrir ári síðan en vöktu endurnýjaða athygli í ljósi athburða liðinna vikna. Þættirnir, sem bera nafnið "Á samviskunni" fjalla um örlög þýskra gyðinga sem sóttu um að koma til Íslands á árum seinni heimstyrjaldarinnar, sem undantekningalítið fengu höfnun við umsókn sinni öfugt við Þjóðverja almennt og aðra í sambærilegum erindagjörðum. Við mælum með hlustun: https://www.ruv.is/utvarp/spila/a-samviskunni/32950/9q7hb1 því sögurnar sem Anna Marisibil dró upp voru afar áhrifamiklar og líkindin með atburðum dagsins í dag sláandi eins og fram kom í máli Morgane Priet-Mahéo sem fæddist í Frakklandi en hefur verið búsett á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni um árabil.

 

Morgane er sjálfboðaliði og stjórnarmeðlimur í Félagi barna á flótta og hefur verið virk í aðstoð sinni við fólk í viðkvæmri stöðu. Morgane benti á að vinnubrögð og túlkun starfsfólks Útlendingastofnunar og Embættis ríkislögreglustjóra þrengdi í sífellu að réttindum og aðstæðum fólks á flótta og gekk hún svo langt að fullyrða að á flóttafólki, sér í lagi börnum væru lög og sáttmálar iðulega þverbrotnir. Morgane benti einnig á að því er virðist afstöðumun minni lögregluembætta um hvenær meðalhófs væri gætt og tók dæmi um að lögreglufólk hjá einu embætti hefði hafnað því að taka þátt í tiltekinni aðgerð en fulltrúar annars embættis ekki.

 

Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki og sjálfstætt starfandi ráðgjafi í siðferðilegum og vönduðum ákvarðanatökum sagði nær ómögulegt að svara nokkurri þeirra spurninga sem lagt var upp með, með afgerandi hætti en velti þó upp atriðum til umhugsunar. Hann lagði á það áherslu að þegar um börn, eldra fólk, fólk með fötlun eða veikt fólk er að ræða, sé sérstök ástæða til að staldra við þegar ákvaraðnir eru teknar.

 

Á milli erinda og að þeim loknum stýrði Arnar Snæberg Jónsson, vefstjóri, athafnastjóri og húmanisti umræðum. Þinginu var formlega slitið kl. 19:00.

 

Smellið hér til að sjá upptöku af málþinginu.

Til baka í yfirlit