Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um dánaraðstoð (771. mál á 154. lögþ., þskj. 771)

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um dánaraðstoð (771. mál á 154. lögþ., þskj. 771)

Siðmennt lýsir stuðningi við meginefni frumvarpsins.
https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/771/?ltg=154&mnr=771

Dánaraðstoð sem veitt er að vel yfirveguðu máli og undir samfélagslegu eftirliti er í fullu samræmi við grunnstefnu samtakanna. Í Amsterdam-yfirlýsingu Alþjóðasamtaka húmanista frá 2002 er lögð áhersla á „virði, reisn og sjálfsákvörðunarrétt“ hvers einstaklings, sem hafi rétt til „mesta mögulega frelsis“ ‒ að því tilskildu að það samþýðist frelsi annarra. Það er réttur allra „að móta líf sitt og gefa því merkingu“.

Dauðinn er hluti lífsins, og grundvallarreglur um sjálfsákvörðunarrétt og reisn eiga að gilda um lífslok rétt eins og um mannsævina sjálfa.

Málefni dánaraðstoðar hafa verið rædd fyrr og síðar á vettvangi Siðmenntar, og samtökin hafa veitt alþingi jákvæða umsögn um fyrri þingmál af þessu tagi, þingsályktunartillögurnar frá 2017, 2018 og 2020. Málið hefur þroskast í almennri umræðu og ljóst er að lögleiðing dánaraðstoð nýtur nú víðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar.

Með ákvæðum í lögum um þetta efni, eða í reglugerð, verður að ganga þannig frá málum að vilji viðkomandi sjúklings til dánaraðstoðar sé ótvíræður og byggist á eigin aðstæðum en ekki einhvers konar þrýstingi ættingja eða annarra nákominna, meintum eða raunverulegum. Með því væri létt áhyggjum ákveðinna hópa gagnvart þessum umbótum, svo sem fatlaðs fólks. Við endanlega smíð laga og reglugerða er sjálfsagt að hafa náið samráð við samtök þeirra sem helst eiga hlut að máli í þessum efnum.

Án þess að taka afstöðu til einstakra atriða í frumvarpinu telur Siðmennt æskilegt að athuga betur orðalag í 1. gr. frumvarpsins um „ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu“ sem skilyrði dánaraðstoðar. Okkur sýnist að fyrra skilyrðið, um að sjúkdómurinn sé ólæknanlegur, ætti að vera nægilegt. Þegar kemur að þessum erfiðu spurningum hljóta möguleikar til lífsgæða og aðstæður til að halda mannlegri reisn að vega jafnþungt og jafnvel þyngra en þær líkamlegu þjáningar sem um er að ræða.

Siðmennt gerir einnig athugasemd við ákvæði 4. gr. um að lækni sé heimilt að skorast undan því að veita dánaraðstoð „stangist framkvæmd hennar á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans“. Ætla má að svipað ákvæði 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn (34/2012) nægi að þessu leyti.

Siðmennt telur lagasetningu í framhaldi af þessu frumvarpi vera framfaraskref í mannréttindamálum og lagalegum aðbúnaði dauðvona sjúklinga.

Til baka í yfirlit