Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kristinfræðikennsla)

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kristinfræðikennsla)

Þingmenn Miðflokksins, ásamt tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp sem hefur þann grunntilgang að bæta orðinu kristinfræðikennsla framan við trúarbragðafræðslu í upptalningu á þeim fögum sem getið skal sérstaklega um í námskrá. 

Siðmennt leggst gegn þessu frumvarpi og gerir eftirfarandi athugasemdir við innihald þess og þann rökstuðning sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins: 

Núverandi staða kristninnar í íslenskum skólum

Í inngangi greinargerðarinnar segir: ,,Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi.” Í kjölfarið er saga kristinfræðakennslu á Íslandi rakin og sömuleiðis gert grein fyrir þeim breytingum sem hægt og bítandi hafa verið gerðar á aðalnámskrá. Siðmennt tekur heilshugar undir þau sjónarmið sem fram koma í innganginum, en að mati félagsins er sú endurskoðun sem orðið hefur á trúarbragðafræðikennslu einmitt liður í því að búa nemendur undir það að búa í fjölbreyttu samfélagi. 

Með því að endurnefna trúarbragðafræði sem kristinfræði og trúarbragðafræði vilja frumvarpshöfundar auka veg kristninnar í skólum landsins. Það er þó svo að í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011/2013 er sérstaklega getið á um kristni í hæfnivísum allra aldursbila. Við lok 10. bekkjar á nemandi til að mynda að geta ,,sýnt fram á læsi á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims.” Jafnframt segir í 2. gr laga um grunnskóla nr. 91/2008 að starfshættir grunnskóla skuli meðal annars mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Það er því ljóst að kristni er nú þegar gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum með því að vera sérstaklega tilgreind bæði í hæfnivísum og meginhlutverki skóla skv. lögum.

Kristinfræðikennsla í nútímasamfélagi

Siðmennt setur sig ekki upp á móti því að saga kristninnar sé kennd í sögulegu samhengi og að nemendur læri um helstu siði og hefðir kristins fólks og annars trúaðs fólks. Kristni er samofin sögu þjóðarinnar, á því er enginn vafi. Hlutverk kristni í íslenskri sögu á hins vegar heima í sögukennslu en ekki í trúarbragðafræði. Trúarlega hlutlaus trúarbragðafræðsla er lykilatriði í því að skapa skilning á milli mismunandi þjóðfélagshópa, sem eykur víðsýni og styður við fjölbreytni. 

Í könnun sem Siðmennt lét framkvæma í febrúar 2020 kemur fram að meirihluti landsmanna er þeirrar skoðunar að leik- og grunnskólar í eigu hins opinbera eigi að halda trúarlegu hlutleysi. Þar kemur fram að 56,7 prósent eru sammála því að bæði skólastigin eigi að vera trúarlega hlutlaus. 22,2 prósent eru því mótfallin og 22,1 prósent eru hlutlaus gagnvart fullyrðingunni. Í þessu ljósi er erfitt að sjá hvernig það samsvari meirihlutaviðhorfi landsmanna að færa eitt trúarbragð öðrum ofar í trúarbragðafræðslu.

Íslenskt samfélag hefur breyst mikið á undanförnum árum m.t.t. lífsskoðana og trúarbragða. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru um 245 þúsund Íslendingar skráðir í Þjóðkirkjuna árið 1998 eða tæplega 90 prósent landsmanna. Á undanförnum árum hefur þetta hlutfall lækkað hægt og bítandi. Árið 2020 voru rúmlega 63 prósent landsmanna skráð í Þjóðkirkjuna. Þrátt fyrir að meirihluti landsmanna skuli vera skráðir í Þjóðkirkjunna má gera ráð fyrir, með hliðsjón af breytingum seinustu ára, að hlutfallið mun halda áfram þróun sinni. Menntakerfið mun því þurfa að taka tillit til mikilla lýðfræðilegra breytinga og koma til móts við fjölbreyttari námshópa. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að tryggja fræðslu um trú- og lífsskoðanir á jafnræðisgrundvelli. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu uppfylla ekki þau markmið.

Aðlögun menntakerfis að fjölbreyttara samfélagi

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a: 

Árið 2002 gaf Evrópuráðið út tilmæli um að aðildarríkin geri sér grein fyrir því að trúarbrögð séu mikilvægur þáttur í evrópsku samfélagi og að menntun sé lykillinn að baráttunni gegn fáfræði, staðalímyndum og misskilningi varðandi trúarbrögð og leiðtoga þeirra. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (e. European Commission against Racism and Intolerance) telur að menntun gegni mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn skorti á umburðarlyndi og kynþáttafordómum, þar sem nemendur séu fræddir um fjölbreytileika mannlífsins og mismunandi trúarbrögð. 

Siðmennt tekur í megindráttum undir þau markmið sem felast í tilmælum Evrópuráðsins en að þeim sé þegar fullnægt í lögum um grunnskóla þar sem trúarbragðafræðsla er sannarlega til staðar. Því telur Siðmennt þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu óþarfar og í raun afturför þar sem það stríði beinlínis gegn markmiði tilmælanna að gera tilteknum trúarbrögðum hærra undir höfði en öðrum.

Þá segir einnig í greinargerð:

Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota.

Þessi fullyrðing, að best sé að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins er ekki rökstudd og dregur Siðmennt í efa að hún sé byggð á faglegum grunni. 

Siðfræðikennsla

Greinargerð frumvarpsins er tíðrætt um siðferðiskennslu, siðfræði og siðgæði. Siðmennt tekur undir með frumvarpshöfundum um mikilvægi siðferðiskennslu í grunnskólum, en dregur í efa þau skýru tengsl trúarlegs efnis og siðferðiskennslu sem dregin eru upp í greinargerð. Siðfræði og siðferðiskennsla í grunnskólum ætti, að mati Siðmenntar, að grundvallast á veraldlegri nálgun þar sem skapaður er vettvangur þar sem nemendur eru hvött til að finna svörin sjálf með ígrundun á eigin siðferði, eða eins og segir í námskrá borgaralegrar fermingar, þar sem áhersla er lögð á siðfræði og gildismat: ,,...helst leggjum við áherslu á að kenna unga fólkinu sem námskeiðin sækja hvernig þau geti beitt fyrir sig gagnrýnum aðferðum í sinni eigin leit að svörum.” 

Í drögum að frumvarpi stendur einnig: 

Sem siðfræði er trúarbragðafræðsla afar mikilvæg. Í siðfræðilegri fjölhyggju nútímans ætti fræðslan að gera nemendur vel í stakk búna til að fást við spurningar sem snúa að hversdagslífinu og auka umburðarlyndi og gagnkvæman skilning á ólíku lífsviðhorfi. [...] Kennslan krefst hlutleysis og ætlast er til að hún fáist við raunveruleg vandamál.

Eins og tekið var fram hér að ofan tekur Siðmennt undir mikilvægi siðfræðilegrar kennslu innan grunnskólakerfisins. Sú kennsla eigi þó síður en svo að vera undir formerkjum kristinnar trúar, heldur skuli nálgast þá umræðu á trúarlega hlutlausan máta. Siðfræði er fræðigrein sem krefst íhugunar og gagnrýni, og því er á skjön við forsendur hennar að gera einni siðfræðilegri nálgun, svo sem kristinni, hærra undir höfuð en öðru siðfræðilegum skoðunum.

Niðurlag

Siðmennt leggst gegn því að einum trúarbrögðum sé gert hærra undir höfuð en öðrum innan skólakerfisins. Betur færi að fjarlægja kristna arfleifð íslenskrar menningar úr upptalningu á starfsháttum grunnskóla frekar en að halda sjónarmiðum kristinnar trúar meira fram en öðrum. Trúarbragðafræði er mikilvæg námsgrein til að gera einstaklingum grein fyrir ólíkum lífsskoðunum. Lykilatriði er að sú kennsla sé hlutlaus, sem endurspeglar vilja landsmanna miðað við könnun Siðmenntar í febrúar 2020. Sömuleiðis er ljóst að snarpar breytingar hafi átt sér stað í trúarskoðunum Íslendinga á seinustu árum, og því þurfi að taka tillit til þess í mótun námskrár. Að lokum tekur Siðmennt undir áherslu á kennslu í siðfræði, en eigi sú kennsla ekki að vera undir formerkjum trúarbragða, heldur öllu frekar sprottin út úr gagnrýnni og ígrundaðri umræðu. 

Virðingarfyllst,
f.h. Siðmenntar, 

Inga Straumland – Formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi

 

Umsögn Siðmenntar í 141. máli má einnig finna á vef Alþingis.

Til baka í yfirlit