Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúvæðing grunnskólanna gegnum kærleiksþjónustu Þjóðkirkjunnar

Undanfarin ár hefur borið æ meira á því að prestar og jafnvel djáknar séu með viðveru og kynningar í grunnskólum landsins við öll möguleg tækifæri og hafa m.a. sett á fót kristilega ráðgjafaþjónustu innan veggja þriggja skóla.

Í Hofsstaðaskóla í Garðabæ, er þjónusta sem kallast Vinaleið. Á forsíðu vefseturs skólans má finna upplýsingar um þjónustuna, sem byggir á “kristilegri sálargæslu og forvarnarstarfi” sem Þórdís Ásgeirsdóttir djákni var frumkvöðull að og er orðin sjö ára gömul. Verkefnið var upphaflega þróað í samvinnu við kirkju og skóla í Mosfellsbæ en þar er Þórdís með viðtöl og samskiptanámskeið fyrir börn. Vinaleið er einnig til boða í Flataskóla, Garðabæ í umsjón „skóladjákna“. Í lýsingu á Vinaleið í Hofsstaðaskóla segir:

 

Með stuðningsviðtölum við nemendur er leitast við að leiðbeina, sætta, styrkja og gera heilt. Það er aðalinntak sálgæslunnar. … Sálgæsluviðtölin eru stuðningsviðtöl en ekki meðferðarviðtöl. Góð samvinna er á milli fagaðila í grunnskólanum svo sem kennara, námsráðgjafa, sálfræðinga, deildarstjóra sérkennslu…” Áfram segir: “Boðleiðir Vinaleiðar eru þrjár: 1) Nemandi óskar eftir þjónustu beint við fulltrúa Vinaleiðar eða hann talar við umsjónarkennara. 2) Umsjónarkennari sækir um fyrir nemanda sinn. 3) Foreldri biður um viðtal. Viðtölin fara fram á skrifstofum Vinaleiðar í skólanum. Föst viðvera skóladjákna eða skólaprests í skólanum er undirstaða þess að þjónustan sé virk. Vinaleið er einnig stuðningur við kennara.

Allt hefur þetta greinilega verið sett af stað í góðri meiningu en jafnframt von djákna / presta og Þjóðkirkjunnar til að hafa sín áhrif á börnin. Ég vil gagnrýna þetta af eftirfarandi ástæðum:

1. Prestar og djáknar, sama frá hvaða söfnuði eða trúflokki þeir eru eiga ekki erindi inn í ríkisrekna skóla landsins þar sem börnin okkar eiga að vera vernduð frá hvers kyns trúaráhrifum. Í kristinfræði og trúarbragðafræði er séð um að kenna börnunum um trúarbrögð heimsins. Rétt eins og ríki og kirkja eiga að vera aðskilin, eiga menntun og trúboð að vera aðskilin. Þetta eru grundvallar mannréttindi sem viðurkennd eru af mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Fólk getur tekið sjálft ákvarðanir um hvort að það vilji senda barnið sitt í trúarlegt viðtal utan skólatímans. Þegar sá sem tekur viðtalið er gerir það í starfi sínu sem djákni eða prestur er ekki hægt annað að flokka það annað en sem trúarlegt.
2. Það er óhæft að hægt sé að senda barn í trúarlegt sálgæsluviðtal eða það farið sjálft án þess að samþykki foreldra/forsjármanna liggi fyrir.
3. Prestar eða djáknar, sama hvaða söfnuði þeir tilheyra eiga ekki að hafa skrifstofu innan veggja ríkisrekinna skóla.
4. Fagaðilar eins og t.d. klínískir sálfræðingar, geðlæknar og námsráðgjafar ættu að sjá sóma sinn í því að mótmæla þessari ófaglærðu innrás presta og djákna inní grunnskólakerfið. Sagt er að “Vinaleiðin – kærleiksþjónusta” séu “stuðningsviðtöl en ekki meðferðarviðtöl”. Þetta er bara orðaleikur. Einkaviðtöl geta haft mikil áhrif á börn og breytt hugmyndum þeirra og hegðun. Allt slíkt telst því sem meðferð, sem í þessu tilviki er ekki veitt af fagaðila. Prestar og djáknar eru ekki menntaðir á þessu sviði og hafa ekki leyfi til að bjóða uppá meðferð. Vilji þeir veita kristilegan stuðning skulu þeir / þær gera það utan grunnskólanna.

Liður í trúboði og sókn Þjóðkirkjunnar

Karl Sigurbjörnsson biskup nefndi í setningarræðu Prestastefnu Íslands 2006 (sjá á kirkja.is) eftirfarandi undir fyrirsögninni “Sóknarfæri kirkjunnar”:

“Sérþjónustan á sjúkrahúsum … Fullorðinsfræðslan…. Námskeið um sorg og sorgarviðbrögð, biblíunámskeið Alfa námskeið, hjónanámskeið, bænabandið, tólf sporin allt hefur þetta opnað nýjar gáttir. Gleðilegt að sjá þegar slík námskeið opna brýr yfir til helgihaldsins. … kyrrðardagar …. Vinaleiðin er stórmerkilegt framtak í Mosfellsprestakalli. Ég vildi óska að fleiri skólar og sóknir tækju höndum saman um slíka leið.”

Mér verður ómótt við þennan lestur. Af þessu er ljóst að yfirmaður Þjóðkirkjunnar styður starfsemi eins og Vinaleiðina heils hugar og ber enga virðingu fyrir því að börn eiga að vera í friði frá trúboði í skólum landsins.

Ég á ekki orð yfir þessari innrás fulltrúa Þjóðkirkjunar inn í grunnskólana. Er þeim ekki nóg að halda Sunnudagaskóla og KFUM/K í sínum húsum? Þurfa þeir að troða sér inní skólana í krafti þess að 84% landsmanna eru skráðir í Þjóðkirkjuna? Það skiptir engu máli hvort að það eru 1% eða 99% sem eru í henni. Trúboð rétt eins og stjórnmáláróður á ekki rétt á sér innan veggja skólanna. Ég vil biðja alla þá sem vilja gæta jafnræðis og mannréttinda innan menntakerfisins að mótmæla þessu.

Birtist í Morgunblaðinu 14. október 2006
Svanur Sigurbjörnsson læknir situr í stjórn Siðmenntar

Til baka í yfirlit