Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúleysið og sorgin

Fyrir allnokkru síðan sótti ég um starf sem auglýst var hjá Nýrri dögun sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema hvað ég fékk á tilfinninguna eftir spjall við fulltrúa samtakanna að syrgjendur mættu hvorki vera trúyleysingjar né trúarlegir efahyggjumenn. Samt hafa samtökin gefið það út að vera vettvangur fyrir alla syrgjendur.


Atvinnuviðtalið tók prestur og fór það fram í Hallgrímskirkju. Ég sat hljóður og prúður á meðan hann las ferilskrá mína. Ég hafði fengið það á tilfinninguna í samtölum við hann símleiðis að honum litist ekkert svo illa á mig. Taldi ég mig hafa góða menntun fyrir umrætt starf og nokkra reynslu hafði ég þar sem ég hafði unnið dálítið með aðstandednum þeirra sem svipt hafa sig lífi fyrir utan það að hafa haldið fyrirlestra og skrifað ritgerðir um sjálfsvíg.

Á einum stað sá presturinn í atvinnuviðtalinu ástæðu til þess að líta upp á meðan hann las ferilsskrá mína. „Ég sé að þú hefur verið að starfa fyrir Siðmennt?“ Virtist hann ekki hafa himinn höndum gripið. Jú því var ekki að neita að ég hafði unnið mjög ánægjulegt starf fyrir Siðmennt. „En hvað með það, er það ekki bara gott mál?“ hugsaði ég. „Geta trúleysingjar ekki verið syrgjendur eins og annað fólk?“ hélt ég áfram að hugsa en hafði ekki hugrekki til að segja upphátt.

Ég hafði mikinn áhuga á að gera góða hluti á þessu sviði fyrir trúleysingja ekki síður en annað fólk. Enda ekki vanþörf á. En ég gat lesið það út úr líkamlegu látbragði, hljómi raddarinnar og svipbrigðum að hann taldi sig hafa keypt köttinn í sekknum að kalla til fundar við sig í sjálfa Hallgrímskirkju trúleysingja sem vildi vinna með syrgjendum. Enda var atvinnuviðtalinu fljótt slitið.

Því miður eru samtökin Ný dögun ekki trúverðug þegar þau fullyrða að þau séu samtök fyrir alla syrgjendur. Ekki þarf að nefna mörg dæmi því til staðfestingar og er nærtækast að spyrja út í fundarstað samtakanna sem er í Háteigskirkju. Er það sá fundarstaður sem trúleysingjar helst óska sér?

Jóhann Björnsson
22-05-2001

Til baka í yfirlit