Opið bréf til allsherjarnefndar Alþingis
SIÐMENNT er félag sem berst fyrir jafnrétti í trúmálum og þar af leiðandi afnámi lögbundinna forréttinda þjóðkirkjunnar. Sömuleiðis viljum við að ríkisvaldið á Íslandi hætti afskiptum af málefnum eins trúfélags. Því vill félagið að 62. grein stjórnarskrárinnar sé afnumin, en þar stendur m.a. „að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli íslenska ríkið að því leyti styðja hana og vernda“. Ákvæði þetta hefur staðið í stjórnarskránni fá 1874 þegar trúfrelsi var fyrst innleitt í landinu. Það var skiljanlegt á sínum tíma en er í engu samhengi við nútímann.
Meirihlutinn vill aðskilnað
Opinberar skoðanakannanir Gallups undanfarin ár hafa ótvírætt sýnt að meirihluti þjóðarinnar vill aðskilnað ríkis og kirkju. Ástæða þess er meðal annars að almenningur telur trúmál ekki vera í verkahring ríkisvaldsins. Einnig vantar öll rök fyrir forréttindum þjóðkirkjunnar, þar á meðal þeim fjárútlátum úr ríkiskassanum sem tíðkast hafa.
Alþingi virðist ekki ætla að taka tillit til vilja meirihluta þjóðarinnar í þessum efnum því að nýtilkomið frumvarp gengur þvert á hann. Verði frumvarpið að lögum verður þjóðkirkjan að vísu sjálfstæðari en áður en forréttindi hennar munu styrkjast og aukast. Meðal annars skuldbindur ríkið sig til að greiða þjóðkirkjunni nokkur hundruð milljónir króna árlega um ókomin ár. Verður það að teljast mikið ábyrgðarleysi við skattborgarana, ekki síst á tímum niðurskurðar til heilbrigðis-, mennta- og félagsmála.
Kirkjujarðir
Frumvarpið byggir á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslu starfsmanna þjóðkirkjunnar sem ríkið og þjóðkirkjan gerðu nýlega. Þar skuldbindur ríkið sig til að greiða kirkjunni nær hálfan milljarð á ári um alla framtíð og er látið líta út sem ríkið sé að greiða nær aldargamla skuld til kirkjunnar fyrir kirkjujarðir. Ekki er tekið fram um hvaða jarðir sé að ræða, né hve hátt þær eru metnar. Það verður að teljast ónákvæmni við fjárhagslega samningagerð.
Í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að fyrir 20 kirkjujarðir sem seldar voru á árunum 1984-1996 hafi fengist 71 milljón króna, eða um 3,5 milljónir fyrir hverja jörð. Ef 3,5 milljónir er meðalverð fyrir kirkjujörð þá mættu kirkjujarðirnar sem ríkið eignast varla vera öllu færri en 3.000 talsins til að arðsemisrök séu fyrir greiðslum ríkisins.
Á það ber að líta að verðmæti jarðanna felst trúlega að meirihluta í mannvirkjum sem ríkið hefur sjálft kostað eftir að það tók við rekstri jarðanna árið 1907. Þar sem ríkið hefur fyrir löngu yfirtekið margvíslegar menntunar- og almannatryggingaskyldur kirkjunnar, er eðlilegt að það haldi stórum hluta af fyrri jarðeignum kirkjunnar án þess að bætur komi fyrir. Þannig eru efnahagsleg rök frumvarpsins afar rýr.
Siðmennt leggur því til að frumvarpið verði dregið til baka. Þess í stað verði samið frumvarp til laga um starfsemi trúfélaga og lífsskoðunarfélaga almennt, hinnar lútersk- evangelísku kirkju þar á meðal. Þjóðkirkjunni verði veittur aðlögunartími til að standa á eigin fótum eins og önnur trúfélög.
Fyrir hönd stjórnar Siðmenntar,
ÞORVALDUR ÖRN ÁRNASON,
HELGI M. SIGURÐSSON.
Morgunblaðið 2. apríl, 1997