Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Þjóðkirkjan segir Vinaleið vera trúboð

Halldór Reynisson, verkefnisstjóri fræðslusviðs Biskupsstofu, skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 21. október síðastliðinn og furðar sig á því að margir haldi að “kristileg sálgæsla” sem stunduð er í opinberum skólum í formi “Vinaleiðar” sé falið trúboð. Halldór segir að Vinaleiðin sé “þjónusta við náungann en ekki boðun”. Við þennan málflutning er margt að athuga. Sérstaklega það að aðrir talsmenn kirkjunnar sjálfrar virðast vera á öndverðri skoðun við Halldór og telja að sálgæsla sé hluti af trúarstarfi.


Samkvæmt erindinu “Formleg staða sálgæslunnar”, eftir Þorvald Karl Helgason, biskupsritara, er morgunljóst að sálgæsla er kristilegt trúboð. En í erindinu segir m.a.:

“Markmið sálgæslunnar er ekki hvað síst sjáanlegt í skriftum hjá prestinum sem boðar fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þar er lagður grunnur að endurnýjun í lífi einstaklingsins er leiðir til betra lífs, sátt við Guð og heim.” “Sálgæsla er það að veita umhyggju, stuðning, hlustun, skilning, á kristnum forsendum.”

Sálgæslan er ein af meginstoðum kirkjulífsins, sá andi sem svífur yfir vötnunum og hefur áhrif bæði á tilbeiðslu, prédikun, boðun og fræðslu, hefur það víðtæka markmið að veita manneskju leiðsögn á vegi trúarþroska og trúarstyrkingar”

“Í kristinni sálgæslu er umfram allt verið að auka sem mest tengingu grunn kristinnar trúar, vísa í táknmál trúarinnar, og ekki hvað síst með skírskotun í hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists.”

Augljósara gæti trúboðið vart verið. Vinaleið er sálgæsla og sálgæsla fjallar um “fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni”, “sátt við Guð og menn”, er stunduð á “kristnum forsendum”, er ein af “meginstoðum kirkjulífsins”, hefur áhrif á “tilbeiðslu, prédikun, boðun og fræðslu”, hefur það markmið að efla “trúarþroska” og styrkja trúna. Og umfram allt að “auka sem mest tengingu grunn kristinnar trúar […] með skírskotun til hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists.”

Um hlutverk djákna í opinberum skólum segir á vef kirkjunnar sjálfrar. “Djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar”, “djákni veitir kristilega sálgæslu”, “er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju”, “djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna”, bæði í skólunum og í kirkjum safnaðarins, “djákni ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann”.

Í sérstakri kynningu Þjóðkirkjunnar á vinaleiðinni á vefsíðu trúfélagsins segir svo að “á skrifstofu VINALEIÐAR í skólunum [sé] heimilislegt og notalegt.” Þar er meðal annars að finna “bænavers”, “Faðir vor í ramma” og “sjö boðorð”. Á skrifstofu Vinaleiðar eru svo “auglýsingamiðar um fundartíma barnastarfs kirkjunnar” og “Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að.”

Af þessum orðum að dæma virðist sá eini sem misskilur starf Vinarleiðar vera verkefnastjóri fræðslusviðs Biskupsstofu. Er hægt að lýsa trúboði mikið betur en með þeirri lýsingu sem Þjóðkirkjan veitir sjálf um Vinaleiðina?
Aðskiljum skóla og kirkju

Trúaruppeldi á ekki að vera í verkahring opinberra skóla eða annarra opinberra aðila. Siðmennt telur að slíkt uppeldi sé alfarið á ábyrgð foreldra. Starfsemi sem þessi er brot á grundvallarákvæðum trúfrelsis sem bundin eru í stjórnarskrá Íslands. Að auki hefur mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna úrskurðað að starfsemi sem þessi í opinberum skólum sé brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Takmörkuð virðing er borin fyrir mismunandi uppruna, lífsskoðunum eða þörfum annarra en ríkiskirkjunnar. Skilja þarf að skóla og kirkju sem allra fyrst.

Þeir sem starfa innan Siðmenntar eru að sjálfsögðu fylgjandi því að börnum sé boðin víðtæk þjónusta fagmanna, svo sem sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa. Siðmennt er einfaldlega þeirrar skoðunar að áróðir eigi ekki heima í opinberum skólum. Óháð því hvort sá áróður er af pólitískum, trúarlegum eða öðrum toga. Opinberir skólar eiga að vera hlutlausar fræðslustofnanir og griðland barna. Foreldrar barna eiga heldur ekki að hafa áhyggjur af því að börn þeirra verði fyrir áróðri í skólanum sínum og þeir eiga heldur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að þau verði stimpluð öðruvísi eða komið fram við þau á annan hátt vegna þess að þau aðhyllast ekki ríkistrúna.

Sigurður Hólm Gunnarsson
www.skodun.is

Til baka í yfirlit