Þingsetningar athöfn Siðmenntar var haldin í dag, 4. febrúar, í Tjarnarbíó. Þar ávarpaði Inga Auðbjörg, formaður Siðmenntar, samkomuna og Gunnar Hersveinn heimspekingur og athafnastjóri Siðmenntar flutti hugvekju um frið. Þess à milli fluttu Vigdís Þóra og Vignir Þór hugljúf tónlistaratriði. Fjöldi þingmanna lagði leið sína til okkar á athöfnina og þökkum við þeim vel fyrir komuna.
Meðfylgjandi er hugvekja Gunnars Hersveins sem á afar vel við á þeim tímum sem við nú lifum:
Ágætu þingmenn og aðrir gestir.
Hugvekja okkar á þingsetningardegi Alþingis, 4. febrúar er um friðarmenningu.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að árið 2025 skyldi vera tileinkað friði og trausti. Í ályktuninni er skorað á alþjóða samfélagið að leysa deilur með viðræðum og samningum til að tryggja varanlegan frið og traust í samskiptum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.
Árið 2021 var einnig alþjóðaár friðar og traust hjá SÞ en það þótti rík ástæða til að endataka það svo fljótt aftur í stað þess að gefast upp þótt á móti blási. Sameinuðu þjóðirnar tileinka 2025 einnig samvinnu og samvinnufélögum. Markmið þess er að leggja áherslu á þýðingarmikið hlutverk samvinnufélaga í sjálfbærri þróun. Árið 2025 á einnig að minna á varðveislu jökla og skammtafræði. Allar eru þessar tileinkanir mikilvægur þáttur í því að stuðla að friði í heiminum.
Í ársskýrslu sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI fyrir árið 2023 kemur fram að stríð og blóðug átök voru í 59 ríkjum í heiminum. Á mörgum af þessum stöðum var gert ráð fyrir að vopnavaldið gæti leyst málin, svo fór ekki.
Flest dauðsföll urðu í borgarastyrjöld í Eþíópíu, Súdan, vegna innrásar Rússa í Úkraínu og loftárása og innrásar Ísraelsríkis á Gaza í Palestínu. Samantekt um stríð á árinu 2024 kemur síðar en hvernig verður árið 2025?
Talið er að á tveimur svæðum gætu átök breiðst út og stefnt heimsbyggðinni í hættu.
Verkefni ársins 2025 er brýnt og felst meðal annars í því að þróa vináttusamband þjóða og koma í veg fyrir að næstu kynslóðir þurfi að glíma við þjáningu og dauða sem af stríðum hlýst. Getum við það?
Sextánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er Friður og réttlæti. Heiðrum það markmið.
Friður er ekki aðeins vopnahlé eða fjarvera átaka heldur líferni án hlekkja, landamæra, flokkunar og haturs. Og ekki aðeins það heldur staður og ástand þar sem vinátta og traust eflast og kærleikur vex. Þar sem við fáum öll að vera manneskjur.
Jafnvel þótt kynnt sé undir ófriðarbál í heiminum um þessar mundir og vopnaframleiðendur hugsi sér gott til glóðarinnar, þá er engin ástæða til að hætta að styrkja friðarmenningu og efla traust og samvinnu milli þjóða.
Mótmæli almennings eru öflug. Við getum til dæmis sniðgengið vörur frá völdum löndum, við getum beitt okkur á margvíslegan hátt án þess að grípa til ofbeldis og haft víðtæk áhrif.
Við erum ekki ósjálfbjarga. Salman Rushdie fjallar bæði um fegurð og ljótleika veraldar í bókinni Hnífur. Hann spyr, hvernig eigum við að bregðast við einræðisherrum? Hann skrifar: Hinir voldugu kunna að eiga nútíðina, en rithöfundar eiga framtíðina.“
Nútíðin æpir á athygli en við getum sungið sannleikann eins og höfuð Orfeusar gerði, við getum nefnt lygarana og sýnt félögum okkar samstöðu. Það eru ekki aðeins rithöfundar sem eiga framtíðina, heldur við öll í samstöðu gegn fölskum frásögnum harðstjóra og lýðskrumara og við getum sagt betri sögur en þeir, sögur sem fólk vill lifa í.
Tökum undir með Rushdie. Við verðum að bregðast við þessari skautun sem orðið hefur á helstu sviðum. Valdamenn veraldar sem einblína á eigið vald, blindast og tapa samkennd sinni og kærleika – og of margt fólk trúir þeim og fylgir að málum.
Okkar helstu gildi eins og góðvild og miskunnsemi geta breyst í veikleika þar sem fólki, hópum og þjóðum er raðar í vini og óvini. Það gerist ef valdamenn ætla að vinna út frá svarthvítri heimsmynd sem byggir á gömlum kenningum og andstæðupörum eins gott og vont og við og hinir. Dregnar eru upp hættulegar staðalímyndir af óvinum.
Friðarmenningu aftur á móti fylgir líferni þar sem fólk tileinkar sér æðruleysi og örlæti. Hún felst í því að koma í veg fyrir aðskilnað, heift, heimsku og að draga hvarvetna úr líkum á félagslegu óréttlæti. Á alþjóðaári friðar og trausts SÞ er nauðsynlegt að fræða um þessi gildi og vakna til vitundar um þau.
Hvað getum við gert? Ekki líta undan, ekki gefast upp á að vera friðflytjendur, eflum hnattræna borgaravitund og virkjum almenna borgara til aðgerða án ofbeldis, styðjum samvinnu félaga sem beita friðsamlegum aðferðum. Veljum leiðir til að til þess að auka samkennd milli ólíkra einstaklinga og efla gagnrýna hugsun.
Við þurfum að segja eitthvað og gera eitthvað til að halda hugsjóninni um frið á lofti. Við þurfum að mótmæla kröftuglega, tala meira um frið og traust, rannsaka þau, skrifa um þau, læra þau og miðla þeim til annarra.
Friðarmenning felst í því að hlúa að veikustu þáttum samfélagsins og ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi. Vinnum að því! Friðarmenning er ekki vopnahlé eða ógnarjafnvægi. Hún er mennska, tengsl. Vopnahlé er aðeins fyrsta skrefið.
Hvað sagði Immanuel Kant sem átti 300 ára fæðingarafmæli árið 2024 um frið? Nú getum við lesið það á íslensku því bókin Fyrir eilífum friði eftir Kant er nýtt lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Í inngangi stendur:
„Mannkyn allt er eitt samfélag og við höfum skyldur hvert gagnvart öðru.“
Kant hafði einnig trú á friðsamlegri samvinnu ríkja í þágu allra og það sé öllum í hag að lúta alþjóðalögum. Verkefnið er að tryggja að við getum „lifað saman í samfélagi án þess að ganga á frelsi hvert annars.“ (26).
Friður er langtímaverkefni sem við megum aldrei missa sjónar á. Þótt mörgum finnist ólíklegt að varanlegur friður muni ríkja á jörðu, þá eru skilyrðin samt fyrir hendi og það er hægt að vinna að þeim: að friður haldist innan hvers ríkis, samskipti ríkja verði friðsamleg og samskipti borgara milli ríkja séu vinsamleg.
Tilmæli SÞ og áskorun til alþjóða samfélagsins um að leysa deilur með viðræðum og samningum til að tryggja varanlegan frið og traust eru í anda Kants.
- Kant lýsir sex byrjunarákvæðum friðar. Þau eru einföld og kveða á um hvað við megum ekki gera: Ekki setja fyrirvara um mögulegt stríð í friðarsamning.
- Ekkert ríki má eignast annað ríki.
- Fastaherir skulu lagðir af.
- Ekki stofna til skulda vegna milliríkjadeilna.
- Ekki hlutast til um innanríkismál annars ríkis.
- Ekki heimila hernaðaraðgerðir sem grafa undan trausti á friðartímum.
Það eru til aðferðir til að skapa frið, bæði nýjar og gamlar.
Við getum á þessu ári eflt traust, aflað friðarmenningu fylgist og unnið saman að lausnum, mótmælt og sniðgengið. Það er of mikið í húfi til að sitja hjá. Ógnin vex og hernaðarbandalögin stækka um stundarsakir. Þrátt fyrir það er það enn skilyrðislaus skylda Íslands að tala fyrir eilífum friði í heiminum – eins og Kant gerði.
Takk fyrir og gott gengi í ykkar störfum