STAKSTEINAR Morgunblaðsins 15. nóvember fjalla um sjónvarpsumræður Kastljóssins sem fram fóru 14. nóvember þar sem við Hilmar Ingólfsson, skólastjóri í Hofsstaðaskóla, ræddum um svokallaða Vinaleið og starfsemi trúfélaga í grunnskólum. Í grein Staksteina er tekin út ein setning sem ég sagði og birt án samhengis við orðræðuna í heild sinni og hljómar hún þannig: „Nú á ég börn í grunnskóla. Ég vil vera öruggur um það að börnin séu ekki í höndunum á fólki sem er annarrar lífsskoðunar heldur en ég.“Nú lætur Staksteinahöfundur líta út eins og þetta hafi verið það eina sem ég sagði í tíu mínútna umræðum og tekur ekki mið af samhengi orðræðunnar. Staksteinahöfundur áttar sig greinilega ekki á því að í umræðunni var verið að ræða um það þegar boðun trúar og lífsskoðana er í fyrirrúmi. Þegar slíkt á sér stað kæri ég mig ekki um að börnin mín séu í höndum einhvers sem hefur þann starfa að boða trú sína eða lífsskoðun.
Það liggur alveg ljóst fyrir að þegar skólastarf er þess eðlis að fólk er ekki að boða trú sína eða lífsskoðun, heldur að kenna hefðbundnar námsgreinar þá skipta persónulegar skoðanir fólks engu máli. En því miður virðist vera mikil sókn í ýmsum skólum í þá veru að þar verði í síauknum mæli stundað trúboð og trúarleg innræting eins og fram hefur komið m.a. á vef þjóðkirkjunnar og þar hefur komið fram að engu máli skiptir hvort foreldrar eru því samþykkir eða ekki.
Höfundur Staksteina er greinilega ekki vel upplýstur um skólastarf enda gefur hann það sterklega í skyn í grein sinni að ég vinni við það að kenna nemendum mínum stefnuskrá Vinstri grænna fyrir hádegi og svo stefnuskrá Siðmenntar eftir hádegi. Þetta sjónarmið Staksteina er afskaplega undarlegt enda veit hann vel eins og fram kom í máli mínu í gær að samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla á skólinn að vera fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun.
En það er einmitt kjarni málsins að æ fleiri eru farnir að starfa við skólana í þeim tilgangi að boða trú sína og lífsskoðanir og það er mjög alvarlegur hlutur og við því verður að bregðast.
Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt. http://blog.central.is/johannbj
Jóhann Björnsson