Erindi sem Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, flutti fyrir hönd félagsins á minningarathöfn sem Ungir jafnaðarmenn héldu um voðaverkin á Úteyju árið 2011.
(22. júlí 2014)
Kæru vinir
Ég vil byrja á að þakka Ungum jafnaðarmönnum fyrir að halda þessa minningarathöfn um voðaverkin í Útey. Mikilvægt er að við gleymum aldrei þessum hræðilega atburði og ekki síður að við lærum af honum. Fordómar, ranghugmyndir og hræðsluáróður öfgasinna getur, eins og dæmin sanna, haft hræðilegar afleiðingar.
Ég var beðinn um að tala fyrir hönd Siðmenntar sem er viðeigandi þar sem félagið leggur mikla áherslu á umburðarlyndi, samúð og bjartsýni; lærdóm en ekki kreddur, staðreyndir en ekki fáfræði og skynsemi en ekki blinda trú.
Siðmennt vill reyna að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.
Örfáum dögum eftir ódæðin á Úteyju og í Osló var ég staddur í borginni til þess að taka þátt í heimsþingi húmanista, sem fulltrúi Siðmenntar, en þingið var haldið aðeins nokkur hundruð metrum frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk og drap tug manna og ollu gríðarlegri eyðileggingu. Daglega gekk ég framhjá byggingunum sem minntu á glæpinn. Yfirskrift heimsþingsins var „Húmanismi og friður“ og átti það einstaklega vel við.
69 ungmenni og leiðtogar jafnaðarmanna féllu á Úteyju, 8 létust í Osló og hundruðir slösuðust í árásinni.
Allskonar öfgahópar voru fljótir að lýsa yfir ábyrgð sinni á ódæðinu en þegar allt kom til alls var það hvítur, norskur þjóðernissinni sem var var ódæðismaðurinn. Hann var í herför gegn húmanistum, menningarmarxistum, fjölmenningarsamfélaginu og innflytjendum.
Ódæðið var í raun aðför að lýðræðislegu, fjölbreytilegu samfélagi sem byggir á mannréttindum. Slík ódæði eiga sér oft stað þó ekki af þeirri stærðargráðu sem þessi atburður. Í þetta skiptið var það Noregur sem varð fyrir barðinu en slík öfl eru enn á sveimi í Evrópu.
Mikill ótti getur í senn verið lamandi og hættulegur. Því er mikilvægt að við öll vinnum að því að draga úr ótta. Þetta gerum við meðal annars með uppbyggilegri en um leið gagnrýnni umræðu. Það er sjaldnast skynsamlegt eða gagnlegt að banna vondar hugmyndir. Vondar hugmyndir verður að afhjúpa með gagnrýnu hugarfari og samtali.
Munum að það ber engum skylda til að virða skoðanir annarra. Sumar skoðanir eru ekki virðingarverðar. Öll eigum við þó rétt á að hafa skoðanir og þann rétt verðum við að virða. Í frjálsu lýðræðisríki er mikilvægt að við nýtum tjáningarfrelsi okkar til að gagnrýna og afhjúpa málflutning sem elur á ótta og hatri. Ef við gerum það ekki sjálf getum við ekki ætlast til þess að aðrir geri það.
Það liðu ekki margir dagar frá fjöldamorðunum í Noregi þar til öfgaflokkar til hægri um alla Evrópu héldu áfram að básúna sömu skoðanir. Franski þjóðarflokkurinn, UKIP í Bretlandi. Danski þjóðarflokkurinn, Framfaraflokkurinn í Noregi, Jobbik í Ungverjalandi – svo ég nefni nokkra flokka. Þeir eiga það sameiginlegt að tala fyrir svipuðum skoðunum. Þeir boða allir eigin útgáfur af pólitískri skoðun sem sameinast í andstöðu við fjölmenningu og fjölbreytilegt samfélagi.
Svipaður málflutningur sem á sér sömu rætur var dregin fram í kosningabaráttunni hér á landi í vor til þess að draga að sér fólk á Íslandi sem notar sömu röksemdir og stjórnmálaflokkarnir fyrrnefndu nota. Það er kannski ekki rétt að nota orðið röksemdir heldur hatursáróður og popúlisma auk hræðsluáróðurs um þann málflutning sem við urðum vitni að.
Í málflutningi þessara afla fyrir kosningarnar birtust sömu elementin um að mannréttindi séu bara fyrir suma en eru ekki algild – það er að segja að trúfrelsi sé fyrir alla en ekki aðeins fyrir suma. Að sama skapi bera að gjalda varhug við rökunum um að meirihluti Íslendinga hafi tiltekna trúarskoðun og þar af leiðandi eigi sá meirihluti rétt á að fara sínu fram.
Við deildum sorg okkar og tilfinningum með norsku þjóðinni eftir atburðina 2011. Við dáðumst að því hvernig norska þjóðin brást við af æðruleysi og án fordæmingar. Við dáðumst að samstöðu norsku þjóðarinnar um að standa vörð um fjölbreytilegt, fjölmenningarlegt og lýðræðislegt samfélag.
Við skulum því heita því að standa vörð um sömu gildi hér á landi og hvetja til málefnalegrar umræðu um mannréttindi og lýðræði.
Að lokum langar mig að vitna í stefnuyfirlýsingu siðrænna húmanista sem ég tel að eigi vel við á þessum degi:
„Við veljum bjartsýni en ekki svartsýni, von en ekki örvæntingu, lærdóm en ekki kreddur, sannleika en ekki fáfræði, gleði en ekki sekt eða synd, umburðarlyndi en ekki ótta, ást en ekki hatur, samúð en ekki eigingirni, fegurð en ekki ljótleika og skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.“
Kærar þakkir
Bjarni Jónsson