Rósa Björg Jónsdóttir bókasafnsfræðingur hlýtur fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2020, og Stígamót húmanistaviðurkenningu samtakanna. Þetta var tilkynnt á aðalfundi Siðmenntar síðastliðinn laugardag þar sem viðurkenningarskjöl voru afhent við lófatak viðstaddra. Báðum viðurkenningum fylgir fjárstyrkur að upphæð 100.000 krónur.
Viðurkenning fyrir 30 ára þrotlaust starf
Í ár fagna Stígamót – eins og Siðmennt – þrjátíu ára afmæli sínu. Þessa þrjá áratugi hafa samtökin og starfsemi þeirra átt verulegan þátt í miklum breytingum á aðstoð og úrræðum sem þeim konum og börnum bjóðast sem búa við heimilisofbeldi. Stígamót urðu til í krafti samstöðu og djörfungar baráttukvenna og búa enn við fjandsamleg viðhorf í samfélagi karlveldisins þótt segja megi að starfið og samtökin séu nú orðin ómissandi hluti af velferðarþjónustu á Íslandi.
Stígamót hafa síðustu reynst aðfluttum konum í vanda og börnum þeirra veruleg hjálparhella, og þau hafa einnig reynt að virkja karla og aðstoða þá með hjálparkvöldunum „Strákarnir á Stígó“ og fræðslufélagsskapnum Bakvörðum. Stígamót vinna mikilvægt starf í fullu samræmi við húmanísk grungildi, og eru vel að viðurkenningunni komin. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Stígamóta.
Margrét Pétursdóttir, stjórnarkona í Siðmennt, afhenti Stígamótum húmanistaviðurkenningu félagsins
5.600 bækur skráðar í sjálfboðavinnu
Rósa Björg Jónsdóttir er bókasafnsfræðingur á Landsbókasafninu og hefur einnig sinnt sjálfboðnu starfi sem verkefnastjóri hjá félagsskapnum Móðurmál – samtök um tvítyngi. Hún veit að þessi börn þurfa að hafa fullt vald á báðum tungumálum sínum, og hefur einbeitt sér að því að safna barnabókum á erlendum málum fyrir þau að lesa. Bækurnar eru nú orðnar um 5.600 talsins, allar skráðar, og eru varðveittar á heimili Rósu Bjargar.
Rósa Björg ásamt Hope Knútsson, stofnanda Siðmenntar, sem afhenti fræðsluviðurkenninguna
Þetta starf skiptir miklu fyrir tvítyngd börn og fjölskyldur þeirra og er mikilvægt í víðara samhengi fyrir vel heppnað fjölmenningarsamfélag framtíðarinnar á Íslandi – og ekki síst fyrir íslenska tungu sem nýtur þess að nýir Íslendingar hafi næga færni í hinu móðurmálinu. Starf Rósu Bjargar og samtakanna Móðurmáls er því í góðu samræmi við samfélagsleg markmið Siðmenntar. Fjárframlagi Siðmenntar, 100.000 kr., verður varið til að efla barnabókasafnið. Þess má geta að á aðalfundinum voru Rósu Björgu færðar að gjöf nokkrar barnabækur á ýmsum tungumálum, ásamt veglegu veggspjaldi með arabíska stafrófinu, frá félagsmönnum í Siðmennt.
Rósa og Steinunn kampakátar með viðurkenningarnar