Áslaug Guðmundsdóttir, íþróttafræðingur
Ágætu fermingarbörn, foreldrar, systkini og aðrir gestir.
Það er mér sannur heiður að fá að taka þátt í þessum merka degi með ykkur. Elsku börn þið eruð æðisleg að vanda, það þarf reyndar engin spariföt og gel í hárið til þess, þið eruð það reyndar bara flesta daga. ( já ég sagði FLESTA).
Þannig er nú mál með vexti að ég var stödd í Krambúðinni fyrir nokkru síðan og þar vindur sér upp að mér kona og segist hafa verið að reyna að ná í mig í síma, nú var það eitthvað sérstakt, spyr ég. Þá ber hún upp erindið sem var hvort ég væri ekki til í að segja nokkur orð við borgaralegu ferminguna.
Ég þurfti ekki mikinn umhugsunarfrest frekar en oft áður, þar sem ég á frekar erfitt með að segja nei við svona samfélagslegum verkefnum. Þið skuluð einmitt muna það að það skiptir ekki bara máli hvað samfélagið ætlar að gera fyrir ykkur, heldur hvað eruð þið til í að leggja að mörkum fyrir samfélagið, því að við fólkið erum jú samfélagið sem við búum í.
En þarna kveð ég þessa ágætis konu og rölti út í bíl. Þegar þangað er komið er ég eitt stórt spurningamerki því ég hafði ekki hugmynd um hvað ég „íþróttakennarinn“ ætti að fara að fræða ykkur um á þessum merka degi. Ég var búin að fara fram og til baka með umræðuefni í nokkra daga þegar að mér allt í einu datt í hug að skrifa um það umhverfi sem ég lifi og hrærist í allan daginn, það eru jú íþróttir.
Nei nei ég er ekki að fara að standa hér uppi og þusa um reglur í körfubolta eða neitt slíkt, þó að ég viti það að hér séu börn sem myndu jafnvel frekar nenna að hlusta á það heldur en nokkuð annað.
Þannig er það nefnilega með blessaðar íþróttirnar og að þær eru smækkuð mynd af lífinu sjálfu, nú hugsið þið klárlega að ég sé orðin rugluð, en það er ekki svo gott. Að taka þátt í lífinu sjálfu er nefnilega ekki ósvipað því að keppa í íþróttum, já eða keppa í söngkeppni.
Bara þú einn stjórnar því hvernig þú vilt haga lífinu þínu í framtíðinni, bara eins og þegar maður er að keppa, þú ræður hversu mikið þú leggur þig fram þar.
En ekki gleyma því að það eru hinsvegar óteljandi hindranir á vegi okkar þegar við erum að keppa, þær eru t.d. okkar dagsform þá er ég að tala um hversu mikinn svefn við fengum nóttina fyrir mót, hvernig hef ég verið að æfa, hvernig hef ég verið að borða, já og einnig hefur veðrið áhrif, liðsfélagarnir okkar, andstæðingarnir á vellinum og margt margt fleira hefur áhrif á það hvernig okkur gengur í keppni.
Þegar við tökum þátt í keppni þá er ekki það eina sem við stefnum að er að sigra er það (jú sumir) en flest stefnum við á að bæta okkur og gera betur en síðast, ekki klúðra jafn íllilega og síðast, heldur læra af þeim mistökum og gera betur, ekki gefast upp.
Þannig er nefnilega líka lífið sjálft, dagsformið skiptir líka máli í lífinu sjálfu og einnig hvernig við högum okkur dags daglega, til dæmis því betri nætursvefn sem þið fáið, því tilbúnari eru þið í skólann eða vinnuna daginn eftir og eruð því færari að tækla þær hindranir sem verða á vegi ykkar þann daginn.
Liðsfélagarnir (sem að þessu sinni geta verið fjölskyldan, vinir eða vinnufélagar), við viljum koma vel fram við liðsfélaga okkar, við viljum vera vinsæll liðsfélagi, andstæðingarnir(sem í lífinu geta verið hverjir sem eru), það eru þeir sem gera allt til að stöðva leið okkar eða breyta stefnu okkar, því í lífinu veljum við okkur andstæðinga, því færri sem við veljum því auðveldara verður lífið (ímyndið ykkur að við mættum velja hversu margir væru í liði andstæðinganna í handboltaleik).
En að öðru þá langar mig svolítið að koma inn á annað mikilvægt í lífi okkar, þar sem ég hef orðið vör við að þið eruð nú þegar farin að reka ykkur á þessa veggi. Mig langar að minnast á þægindaramman okkar og áskoranir. Ég er hér með tómt A4 blað, ímyndum okkur að það sé þægindaramminn okkar í gær, daginn fyrir fermingu.
Þessi blessaði rammi er misstór hjá okkur fullorðna fólkinu og líka hjá ykkur kæru fermingabörn. Allt utan við þetta blað er það sem okkur þykir óþægilegt að gera (sem getur verið mjög misjafnt, t.d. syngja fyrir framan aðra, taka þátt í fótboltaleik, stökkva hástökk fyrir fullu húsi, taka þátt í leiksýningu, lesa upp fyrir allan bekkinn eða hvað sem er).
Ef við ætlum alltaf að forðast þá hluti sem okkur þykja óþægilegir þá smátt og smátt fjölgar þessum hlutum, og svæðið sem er okkar þægindarammi það minnkar og minnkar. Þetta getur endað með því að þægindaramminn okkar verður svo lítill að ekkert rúmast þar fyrir nema bara vera heima í tölvunni, þá erum við komin á slæman stað.
Því það sem er erfiðast, er að ætla að stækka þennan ramma þegar allt er komið í óefni og staðan orðin slæm og við orðin eldri. Ég ætla því að ráðleggja ykkur kæru fermingabörn að hafa þetta alltaf á bakvið eyrað og vera alltaf að skora á ykkur sjálf að gera betur og gera líka það sem er óþægilegt því þá fyrst verður það minna óþægilegt.
Dæmisaga um mig…………… Koma fram?????
Með þessu er ég að reyna að segja ykkur að þið komist þangað í lífinu sem þið ætlið ykkur, en það getur verið býsna erfitt, það þarf að hafa sig allan við og leggja sig allan fram, það verða fullt af andstæðingum og hindrunum, en ekki leyfa þeim að stjórna ykkar stefnu, þið hafið valið. Þetta er allt spurning um hversu mikið eru þið tilbúin að leggja á ykkur í lífinu til að ná ykkar markmiðum.
Elsku fermingarbörn innilega til hamingju með daginn og megi framtíð ykkar verða björt og full af tækifærum og áskorunum.
Takk fyrir mig.
Ræða flutt við fermingarathöfn Siðmenntar í Safnahúsinu á Húsavík 3. júní 2017