Hér má lesa skýrslu formanns Siðmenntar sem lögð var fram á aðalfundi félagsins 6. mars 2014.
Kæru félagar,
Síðasta ár var merkilegt ár í sögu Siðmenntar. Athafnir félagsins hafa aldrei verið vinsælli, félagsmönnum hefur fjölgaði mikið og mikilvægt skref var stigið í átt að jafnrétti og trúfrelsi á Íslandi.
Siðmennt opinberleg skráð sem lífsskoðunarfélag
Árið 2013 byrjaði afar vel. Þann 30. janúar samþykkti Alþingi Íslendinga breytingar á lögum um skráð trúfélög. Eftir breytingarnar var lífsskoðunarfélögum sem uppfylla skilyrði laganna heimilað að sækja um skráningu sem slík félög og öðlast þar með sambærileg réttindi og skráð trúfélög. Siðmennt hefur barist fyrir því lengi að veraldleg lífsskoðunarfélög fái sambærilega stöðu á við trúfélög og því var samþykkt þessara laga mikilvægur áfangi.
Nokkrum dögum eftir að lagabreytingin var samþykkt sótti Siðmennt um skráningu á grundvelli breyttra laga. Umsókn félagsins var formlega samþykkt þann 3. maí 2013. Þann dag varð Siðmennt fyrsta veraldlega lífsskoðunarfélagið sem er með sambærileg réttindi og skyldur og trúfélög á Íslandi. Siðmennt hélt upp á áfangann viku síðar á Grand Hótel þar sem félagar og gestir komu saman og fögnuðu.
Þessi breyting á stöðu félagsins okkar þýðir meðal annars að athafnastjórar Siðmenntar hafa nú lagalega heimild til að gifta fólk. Pör sem leita til athafnastjóra Siðmenntar vegna giftinga þurfa því ekki lengur að fara til sýslumanns til að giftingin öðlist lagalegt gildi.
Með breyttum lögum geta þeir sem styðja stefnumál Siðmenntar skráð sig í félagið hjá Þjóðskrá og látið þar með svokölluð sóknargjöld renna til Siðmenntar. Þó Siðmennt sé í raun á móti sóknargjaldakerfinu er það vissulega skref í rétta átt að nú geti fólk með veraldlegar lífsskoðanir valið að styðja félag eins og Siðmennt.
Nánar má lesa um þessa breyttu stöðu Siðmenntar í nýútkomnu fréttabréfi og á vefsíðu félagsins.
Um athafnir Siðmenntar
Það er virkilega gaman að segja ykkur frá því að Borgaraleg ferming Siðmenntar hefur aldrei verið vinsælli og að eftirspurn eftir öðrum athöfnum hefur einnig aukist gríðarlega. Það er augljóst að það er mikil þörf fyrir veraldlega valkosti.
Í fyrra voru haldnar sex glæsilegar fermingarathafnir víðs vegar um landið sem heppnuðust allar mjög vel. Ræðumenn og ekki síður börnin sjálf stóðu sig með prýði. Í ár er svo metaðsókn í Borgaralega fermingu. Nú er ljóst að 304 börn munu fermast hjá Siðmennt í vor. Það eru um það bil 7,3% allra barna á fermingaraldri. Í fyrra voru börnin 209 og því hefur þeim fjölgað 45% á einu ári.
Aðrar athafnir Siðmenntar verða vinsælli með hverju árinu. Sem dæmi gáfu athafnastjórar Siðmenntar 36 pör saman 2013 sem er meira en 300% aukning á milli ára. Eftirspurnin eftir útförum og nafngjöfum hefur einnig aukist mikið. Ég býst fastlega við sömu þróun áfram. Vegna aukinnar eftirspurnar og áhuga var ákveðið að fjölga athafnastjórum félagsins. Í október var svo haldið námskeið fyrir verðandi athafnastjóra. Sjö nýir athafnastjórar útskrifuðust og eru athafnastjórar Siðmenntar þar með orðnir 20 talsins.
Ég er afskaplega stolt af athafnþjónustu Siðmenntar. Við fáum reglulega að heyra hvað fólk er ánægt með þessa þjónustu og hvað það er mikilvægt að eiga val. Ég vil nota tækifærið hér til að þakka öllum sem hafa unnið að því að þróa og halda utan um þessa þjónustu, mikið til í sjálfboðavinnu. Ég þakka sérstaklega þeim Svani Sigurbjörnssyni, umsjónarmanni athafnaþjónustu Siðmenntar, og Jóhanni Björnssyni, kennslustjóra Borgaralegrar fermingar. Þið eruð frábærir og Siðmennt til sóma!
Hugvekjur við setningu Alþingis
Að venju bauð Siðmennt þingmönnum upp á heimspekilega hugvekju fyrir þingsetningar en þing var sett tvisvar á árinu 2013. Þann 6. júní þegar þing kom saman í fyrsta sinn eftir kosningar og svo 1. október eftir sumarfrí. Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir, lögfræðingur, og Ólafur Páll Jónsson, dósent á menntasviði HÍ, og fluttu þar áhugaverð erindi sem fjölluðu um lýðræði, ríkisvald og trúfrelsi.
Baráttan fyrir mannréttindum og trúfrelsi
Siðmennt hefur alltaf lagt mikla áherslu á að berjast fyrir mannréttindum og trúfrelsi. Siðmennt tók t.d. þátt í atburðinum „Glæstar Vonir“ sem haldinn var á vegum Samtakanna 78 sem mótvægi við komu bandaríska predikarans Franklin Graham til Íslands. Sigurður Hólm Gunnarsson, stjórnarmaður í Siðmennt, flutti erindi um mannréttindi, fordóma og tjáningarfrelsið.
Snemma í október sendi Siðmennt öllum alþingismönnum opið bréf með tillögum að breytingum á lögum. Lagabreytingatillögurnar snúast um að tryggja fullt trúfrelsi og efla almenn mannréttindi á Íslandi. Um sama leyti sendi félagið öllum þingmönnum bókina „Um húmanisma“ sem bókaútgáfan Ormstunga gaf út í samstarfi við Siðmennt árið 2012.
Viðurkenningar, viðtöl, kynningar og fleira
Ýmislegt annað var að gerast hjá Siðmennt árið 2013. Húmanistaviðurkenning Siðmenntar var veitt í níunda sinn. Að þessu sinni ákvað félagið að veita Jóni Gnarr borgarstjóra Reykjavíkur viðurkenningu fyrir mikilvæg störf í þágu mannréttinda og mannúðar á Íslandi. Við sama tækifærið veitti félagið Pétri Halldórssyni Fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins fyrir útvarpsþáttinn „Tilraunaglasið“ sem var á dagskrá á RÁS 1. Því miður var sá góði þáttur tekinn af dagskrá stuttu síðar vegna niðurskurðar hjá RÚV.
Töluvert var um umfjöllun um málefni Siðmenntar í fjölmiðlum á síðasta ári og voru stjórnarmenn því nokkuð áberandi í útvarpi, sjónvarpi og í blöðum. Einn skemmtilegasti fjölmiðlaviðburðurinn á þessu ári var þegar Jóhann Björnsson var fenginn til að flytja húmaníska jólahugvekju klukkan sex á aðfangadag á útvarpsstöðinni X 97.7. Hér er kannski komin enn ein ný hefð sem Siðmennt hefur tekið þátt í að skapa.
Fulltrúum Siðmenntar var einnig boðið að taka þátt í ýmsum kynningum og ráðstefnum bæði hér á landi og erlendis. Þannig fór Bjarni Jónsson, varaformaður félagsins, í heimsókn til systurfélags okkar í Danmörku og flutti þar erindi. Sjálf var ég svo með erindi á vel sóttum fyrirlestri um borgaralega fermingu og Siðmennt á World Esperanto Congress í Hörpu. Á árinu fengum við nokkrar heimsóknir frá erlendum húmanistum og fjölmiðlafólki. Sem dæmi kom Roar Johnsen stjórnarmaður í Alþjóðasamtökum siðrænna húmanista (IHEU) til landsins.
Að lokum
Eins og heyra má var síðastliðið ár bæði viðburðarríkt og ánægjulegt. Við hjá Siðmennt finnum almennt fyrir velvild í okkar garð í samfélaginu. Það er greinilegt að margir eru sammála hugmyndum okkar um mannréttindi og trúfrelsi og það kemur sífellt betur í ljós hversu mikil þörf er á veraldlegu lífsskoðunarfélagi eins og Siðmennt.
Kæru félagar. Ég hef verið formaður Siðmenntar síðan 1996. Þetta hefur verið ánægjulegur tími og er ég einstaklega stolt af félaginu okkar. Ég ætlaði mér þó aldrei að vera formaður svona lengi. Ég býð mig fram til formanns eitt tímabil í viðbót en ég er alvarlega að hugsa um að bjóða mig ekki fram næst. Líklegast er ágætt að láta 18 ár í röð duga J. Ég mun þó áfram taka þátt í starfi Siðmenntar eins lengi og ég get.
Óháð því hver býður sig fram næst til að leiða Siðmennt þá veit ég að starfsemi Siðmenntar mun blómstra. Það er þörf fyrir Siðmennt. Það er þörf fyrir félag sem býður upp á athafnir og gagnrýna umræðu um siðferði og lífssýn óháð trúarbrögðum.
Það er þörf fyrir okkur!
Takk fyrir
Hope Knútsson