27. febrúar 2007
Þema ársins 2006 var meiri sýnileiki. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, og Samfélag trúlausra, sem er hópur innan Siðmenntar, urðu miklu sýnilegri en nokkru sinni áður í sautján ára sögu félaganna. Við urðum heimsþekkt vegna alþjóðlegrar ráðstefnu “Jákvæðar raddir trúleysis” sem við stóðum fyrir síðastliðið sumar í samstarfi við Atheist Alliance International, Skeptikus og Vantrú. Við urðum einnig sýnilegri hér heima vegna málþings sem við héldum síðastliðið vor um “Trúfrelsi og lífsskoðunarfélög” í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Að auki vorum við mjög áberandi vegna langra og opinberra mótmæla okkar gegn svokallaðri Vinaleiðsþjónustu Þjóðkirkjunnar í skólakerfinu, í haust og vetur. Við erum betur þekkt en áður og almenningur er að byrja að tengja saman nafnið Siðmennt við mannréttindamál. Við stefnum að því að styrkja þessi tengsl í huga fólks, meðal annars með hinni árlegu Húmanistaverðlaunveitingu og nýlegri inngöngu okkar í Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Siðmennt hefur verið frá upphafi manngildisfélag sem hefur staðið vörð um mannréttindi á Íslandi, sérstaklega varðandi trú-og skoðunarfrelsi, en einnig um réttindi samkynhneigðra, innflytjenda, og frelsi vísindamanna t.d. til að rannsaka stofnfrumur í þágu læknisfræðarinnar svo nokkur dæmi séu nefnd. Við stefnum að því að upplýsa almenning enn betri um hlutverk, stefnumál og verkefni siðrænna Húmanista á Íslandi.
Hér á eftir kemur yfirlit yfir helstu atburði og verkefni síðastliðins starfsárs:
Strax eftir aðalfund okkar í fyrra byrjaði stjórnin að leita að nýjum lögfræðingi vegna þess að Oddný Mjöll Arnardóttir hætti hjá okkur þegar hún varð prófessor við Háskólann í Reykjavík. Hún hafði þá unnið frábæra álitsgerð fyrir Siðmennt um ójafna stöðu lífsskoðunar- og trúfélaga hér á landi,. Í apríl fundum við annan framúrskarandi lögfræðing sem sérhæfir sig í mannréttindamálum; Sigríði Rut Júlíusdóttur, sem er samstarfsmaður Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns.
Tveir stjórnarmenn (Hope Knútsson og Bjarni Jónsson) unnu í fjóra mánuði í fyrra við undirbúning fyrir málþing um trúfrelsi og lífsskoðanafélög í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Málþingið var haldið 18. maí 2006. Þetta var spennandi og mikilvægur dagur fyrir Siðmennt. Fundurinn var mikilvægt skref í baráttuferli Siðmenntar fyrir fullt trú- og skoðanafrelsi hér á landi. Framsögumenn voru Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor, Lorentz Stavrum lögfræðingur Norska systurfélags Siðmenntar (Human Etisk Forbund), Sigurður Hólm Gunnarsson varaformaður Siðmenntar, og fulltrúar alla stjórnmálaflokka (nema Framsóknarflokks) sem kynntu viðhorf flokka sinna til viðfangsefnisins. Í kjölfar fundarins sögðu tveir af þeim fjórum stjórnmálamannanna sem tóku þátt að þeir hefðu lært mikið um málið og allir lýstu því yfir að þeir styddu kröfu Siðmenntar fyrir jafnri stöðu á við trúfélög.
Nokkrir stjórnarmenn héldu árangursríkan fund sama daginn og málþingið fór fram, með Sigríði Rut Júlíusdóttur hinum nýja lögfræðing okkar og Lorentz Stavrum. Lorentz miðlaði af ítarlegri reynslu sinni af því hvernig Human Etisk Forbund fór að því að fá sömu stöðu og trúfélög í Noregi 1981. Ferlið hjá þeim tók nokkra áratugi.
Síðasta vor komu nokkrir stjórnarmenn Siðmenntar fram í fjölmiðlum: Sigurður Hólm Gunnarsson var gestur í útvarpsþætti Ævars Kjartanssonar “Lárétt og lóðrétt” ásamt Hjalta Hugasyni guðfræðiprófessor sem sagði nokkrum sinnum í þættinum að hann styddi baráttu okkar fyrir jafnri stöðu á við trúfélög. Þetta var athyglisverð staðhæfing hjá honum vegna þess að hann sat í nefndinni á vegum Kirkjumálaráðuneytisins sem hafnaði í tvígang umsókn Siðmenntar um þessa stöðu.
Jóhann Björnsson kom fram á Rás 2 og kynnti Borgaralega fermingu. Hann kom einnig fram í “Ísland í dag” á föstudaginn langa ásamt þjóðkirkjupresti og ræddi um Borgaralega fermingu. Þessi þáttur var endursýndur mörgum sinnum um páskahelgina og var mjög góð kynning.
Í apríl í fyrra var stærsta Borgaralega fermingarhópnum fram til þessa skipt í tvennt og tvær glæsilegar athafnir haldnar í Háskólabíói. Ræðumenn voru Andri Snær Magnason rithöfundur og Tatjana Latinovic formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Hóparnir sem fermdust borgaralega í Háskólabíói samanstóðu samtals af 126 ungmennum. Auk þess var haldin lítil borgaraleg fermingarathöfn í Dýrafirði fyrir tvo unglinga frá Ísafirði sem tóku þátt í undirbúningsnámskeiði Siðmenntar. Hluti af námskeiði Siðmenntar fyrir landsbyggðarfólk var haldinn á Akureyri í fyrsta skipti í fyrra vegna þess að þátttakendur frá Norðurlandi voru nógu margir. Siðmennt bauð öllum alþingismönnum á fermingarathafnirnar í Háskólabíói í fyrsta skipti. Við hyggjumst endurtaka það í ár.
Í júní fóru nokkrir stjórnarmenn Siðmenntar á fund með nefnd Menntamálaráðuneytisins sem er að endurskoða grunnskólalög og þar með námsskrá um kennslu í kristinfræði, siðfræði og gagnrýnni hugsun í skólum. Bjarni Jónsson flutti greinagerð með sjónarmiðum Siðmenntar. Meðal annars fjallaði Bjarni um lista Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um trúarstarf í skólum. Á listanum eru sambærilegar athafnir og fram fara í íslenskum skólum eins og t.d. að læra og fara með bænir, að syngja sálma og trúarleg lög, að taka þátt í trúarathöfnum, að fara í skoðunarferðir í kirkju í trúarlegum tilgangi (t.d. til að taka þátt í bænahaldi), þátttaka í helgileikjum, lita eða teikna trúarlegar myndir, og að taka á móti trúarlegu efni ss. Biblíum eða Nýja testamentinu).
Fundarmenn hlustuðu með athygli og skrifuðu punkta hjá sér. Nokkrir sögðust vera sammála okkur. Einn nefndarmanna sagði þó, “það er best að binda sem minnst í lögum vegna þess að skólar eiga að hafa frjálsar hendur.” Annar nefndarmaður sagði að við verðum að treysta kennurum vegna þess að þeir eru fagmenn. Þriðji nefndarmaðurinn sagði að hjá Menntasviði Reykjavíkurborgar hefðu farið fram miklar umræður síðan Siðmennt fór á fund hjá þeim snemma 2006 og benti á þessi sömu atriði og mótmælti m.a. tveggja daga fermingarferðalögum sem fara fram á kennsludögum skólanna. Hún sagðist vera sammála okkur en að lögin geti ekki breytt því sem skólarnir aðhafast! Hún tjáði okkur að þegar skólarnir hafi til dæmis reynt að minnka fjölda jólaatburða og jólaverkefna, kvarti margir foreldrar og að 90% foreldra vilji mjög mikið af jóla- og páskaathöfnum í skólum vegna þess að þau líta á þær sem mikilvægan hluta af íslenskri hefð, frekar en eitthvað trúarlegt. Hún benti á það að fólk gæti gagnrýnt skólayfirvöld fyrir skort á umburðarlyndi ef að dregið yrði úr þessu eða ef slíkar athafnir yrðu bannaðar á þeim forsendum að þær væru trúboð. Við sögðum að e.t.v. tæki það langan tíma að banna það trúboð sem fer fram í skólum hér á landi en það væri nauðsynlegt, því alþjóðasamtök sem Ísland er aðili að, telur það vera mannréttindabrot. Fundurinn var frekar dapurlegur fyrir okkur vegna þess að þrátt fyrir að nokkrir væru sammála okkur, skynjuðum við mikla tregðu til breytinga og fannst okkur að réttindi minnihlutahópa væru ekki efst í huga hjá fundarmönnum.
Seinna í júní fór fram langstærsti viðburður sem Siðmennt hefur nokkurn tímann tekið þátt í. Alþjóðlega ráðstefnan “Jákvæðar raddir trúleysis” var haldin í Reykjavík dagana 23.-25. júní. Þatttakendur voru 106 manns alls staðar að úr heiminum. Hope Knútsson, Karólína Geirsdóttir og Þorsteinn Kolbeinsson úr stjórninni unnu að undirbúningi þess í rúmlega tvö ár ásamt fulltrúum frá Skeptikus og Vantrú, í samstarfi við Atheist Alliance International. Við fengum alveg framúrskarandi erlenda ræðumenn sem sumir eru heimsfrægt fólk. Langfrægastur var Dr. Richard Dawkins sem vakti mjög mikla athygli og olli koma hans ritdeilum í ýmsum fjölmiðlum í margar mánuði á eftir. Dawkins kynnti nýjustu bók sína: “The God Delusion” og einnig var sýnd heimildarmynd hans, “Root of All Evil?” Fleiri þekktir trúleysingjar, fríþenkjarar og húmanistar sem héldu erindi á ráðstefnunni voru: Dan Barker, fyrrverandi bókstafstrúarprestur og konan hans Annie Laurie Gaylor. Þessi hjón er í forsvari fyrir “Freedom From Religion Foundation” sem er stærstu samtök trúleysingja og húmanista í Bandaríkjunum. Margaret Downey, Bobbie Kirkhart, Paul Geisert, Mynga Futrell og Hemant MPMta sem eru öll þekkt nöfn í heimi trúleysis, heiðruðu samkomuna. Ennfremur vorum við með tvær frægar Hollywood stjörnur: Julia Sweeney leikkonu og rithöfund sem sýndi einleik sinn “Letting Go of God” en uppselt hefur verið á einleikinn alls staðar þar sem hann hefur verið fluttur. Síðast en ekki síst flutti Brannon Braga kvikmynda- og sjónvarpsþáttahöfundur skemmtilega ræðu. Hann hefur skrifað yfir 150 Star Trek þætti og bíómyndir á síðastliðnum 15 árum og hefur einnig verið verðlaunaður fyrir framúrskarandi skrif á vísindaskáldsöguformi. Ekki voru hinir íslensku fyrirlesarar síðri. Þeir voru Jón Baldvin Hannibalsson, Sigurður Hólm Gunnarsson og Stefán Pálsson. Þátttakendurnir voru mjög hrifnir og hrósuðu okkur mörgum sinnum fyrir vel skipulagða ráðstefnu. Nokkrir ráðstefnugestir sögðu þetta langbestu ráðstefnuna sem þeir hefðu sótt. Margir dvöldu á Íslandi fyrir og eftir ráðstefnuna og undirbúningsnefndarmenn fóru með þá víða um landið. Allir þeir fyrirlesarar og sumir þátttakendanna sem enn voru á landinu í júlí sóttu hina árlega grillveislu Samfélags trúlausra. Alls mættu tæplega 50 manns sem allir skemmtu sér vel. Þessi ráðstefna var stórkostleg á allan hátt. Þetta voru sennilega mest spennandi dagar í sögu Siðmenntar. Samstarfið gekk vel, allir voru ánægðir og það var ágóði af ráðstefnunni. Samþykkt var að setja hann í lögfræðisjóð félagsins. Ráðstefnan okkar var auglýst á heimasíðum, í fréttabréfum og tímaritum húmanista- og trúleysisfélaga um allan heim. Eftir á birtust greinar um okkar vel heppnuðu ráðstefnu víða. Siðmennt og SAMT voru svo sannarlega sett á heimskortið árið 2006.
Um sumarið fór ég með mikið af heimildaefni til varðveislu hjá Borgaraskjalasafni Reykjavíkur. Ég geri þetta reglulega. Ég safna úrklippum úr öllum dagblöðum um málefni sem varða Siðmennt, trúfrelsi, trúboð í skólum o.fl.
Í júlí létum við, í fyrsta skipti, fyrirtæki sjá um kynningarherferð fyrir Borgaralega fermingu. Þetta er hin árlega útsending kynningarbæklinga til ca. 4000 fjölskyldna sem eiga börn á fermingaraldri um land allt. Í mörg ár gerðum við þetta sjálf en það varð erfiðara með hverju ári að kalla saman sjálfboðaliða á sumarfrístíma til að vinna að þessu einhæfa verkefni í einn til tvo daga. Við fengum ágætis tilboð og var þetta gert. Það er mikilvægt að í félagi eins og Siðmennt þar sem starfið er unnið af sjálfboðaliðum, að við spörum tíma og starfskraft þegar við getum.
Í lok sumarsins 2006 sendi Siðmennt fréttatilkynningu til allra fjölmiðla til að vekja athygli fólks á mannréttindabrotum gagnvart konum af erlendum uppruna sem eru fórnarlömb ofbeldismanna. Við sendum einnig fréttatilkynningu til stuðnings mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Siðmennt var beðið um að gefa umsögn um rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum. Siðmennt styður slíkar rannsóknir.
Sigurður Hólm Gunnarsson, opinber talsmaður Siðmenntar, hélt kynningafyrirlestur hjá Samtökunum 78 um Siðmennt, húmanisma og trúleysi. Einnig var tekið yfirgripsmikið 40 mínútna langt viðtal við Sigurð á Útvarpi Sögu um siðrænan húmanisma og Siðmennt
Siðmennt fær bréf og fyrirspurnir frá systurfélögum út um allan heim. Við áttum nokkur samskipti við nýstofnað Húmanistafélag í Georgíu og einnig við kanadísk-pakistanískan blaðamann sem sendi okkur heimildarmynd sína um trúleysi. SAMT hópurinn skoðaði myndina og gagnrýndi hana.
Haustið 2006 afhenti félagið Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar í annað sinn. Að þessu sinni var verðlaunahafinn Ragnar Aðalsteinsson hrl. fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu mannréttinda. Næsta dag á eftir var tekið viðtal við mig og Ragnar á Rás 1.
Í september lenti stórmál sem varðar trúboð í skólum, á borði Siðmenntar. Reyndar hefur Siðmennt fengið fjölda erinda í mörg ár frá áhyggjufullum foreldrum um trúboð sem hefur verið og er stundað í opinberum skólum á Íslandi í margvíslegri mynd. Siðmennt hefur safnað slíkum dæmum á heimasíðu félagsins og gengið ítrekað á fundi menntamálayfirvalda og rætt þessi máli með litlum sem engum árangri. Í þetta skipti hefur málið vakið mjög sterk viðbrögð almennings, mikla umræðu og deilu í kjölfarið. Hér á ég við svokallaða Vinaleið sem er sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar í skólum í Mosfellsbæ, Garðabæ, Álftanesi og á Akureyri. Siðmennt telur Vinaleið í skólum vera óviðeigandi. Við teljum að trúarleg starfsemi eins trúfélags eigi ekkert erindi inn í opinbera grunnskólana í ljósi þess að grunnskólalög banna mismunun nemenda vegna trúarbragða. Kristileg sálgæsla snýst umfram allt um trú og hefur biskupinn lýst þessari þjónustu sem mikilvægu sóknarfæri kirkjunnar. Siðmennt hefur alltaf haft þá skoðun að opinberir skólar (og ríkið sjálft) eigi að vera hlutlausir í trúmálum. Prestar hafa neitað því í fjölmiðlunum að þeir eða djáknar fari inn í tíma til barnanna en komið hefur í ljós að slíkt er einmitt raunin auk þess sem þeir tala við börnin í frímínútum og á matartíma. Siðmennt hefur ekkert á móti því að kristileg sálgæsla sé veitt þeim sem óska eftir því. Þjóðkirkjan er með kirkjur í næstum öllum hverfum landsins þar sem hægt er að veita þessa þjónustu. Ennfremur telur Siðmennt að prestar og djáknar hafi ekki nógu sérhæfða menntun og þjálfun í sál- og uppeldisfræði barna til að veita slíka þjónustu í skólakerfinu. Vinaleið er vel meint en er óviðeigandi í skólum. Börnin okkar og íslenska menntakerfið eiga betri fagmennsku skilið.
Félagar í Siðmennt hafa skrifað margar greinar í dagblöðum um Vinaleið, mætt í útvarps- og sjónvarpsviðtöl og nokkrir stjórnarmenn fóru á fund til menntamálayfirvalda ásamt lögfræðingi okkar. Nefndir á vegum Menntamálaráðuneytisins og Menntasviðs Reykjavíkurborg höfðu lofað okkur að gefa út álit um þetta eldfima mál. Siðmennt hefur birt ýmiss mótmælabréf, greinar og tengt efni á heimasíðu félagsins. Við höfum fengið fleiri kvartanir en nokkurn tímann áður frá foreldrum. Í kjölfarið hafa á fjórða tug manns gengið í félagið og þakkað okkur fyrir að standa vörð um mannréttindi og fullt trúfrelsi.
Í haust tók Siðmennt þátt í aðgerð til að styðja mannréttindabaráttu samkynhneigðra í Færeyjum. Við sendum öllum þingmönnum Færeyja stuðningsbréf um frumvarp sem fól í sér vernd fyrir samkynhneigt fólk gegn fordómum og ofbeldi. Að lokum varð það frumvarp að lögum.
Í október fengum við spennandi heimsókn frá Christer Sturmark formanni Húmanisterna í Svíþjóð. Hann tók viðtal við mig og Bjarna Jónsson um sögu og starfsemi Siðmenntar fyrir tímarit sem Húmanisterna gefa út. Christer er mjög hrífandi leiðtogi og hefur gefið út vinsæla bók um húmanisma sem við höfum áhuga á að þýða og gefa út hér á landi. Nokkrir félagar úr Samfélagi trúlausra fengu tækifæri til að hitta Christer og ræða saman um áætlanagerð Húmanista. Þess má geta að fjöldi félaga í Húmanisterna hefur þrefaldast síðan Christer varð formaður.
Í lok október héldum við árlegan kynningarfund okkar um Borgaralega fermingu. Í fyrsta skipti var fundurinn haldinn í Háskólabíói þar sem aðstæður þar eru miklu betri en í Kvennaskólanum en þar höfðum við verið í meira en áratug. Þetta var einnig í fyrsta skipti sem við notuðum Power Point sýningu og myndband þannig að kynningin var miklu betri og auðveldari í framkvæmd. Það er mikil framför að geta sent Power Point sýninguna og tengil á myndbandið til fjölda fólks sem misstu af kynningarfundinum og skráði sig seinna.
Í nóvember var ákveðið að fara af stað með dómsmál gegn íslenska ríkinu vegna ójafnarar stöðu lífsskoðanafélaga. Lögfræðingur okkar er að undirbúa málið. Þetta verður rándýrt en margra ára lobbýismi okkar á Alþingi hefur engu skilað. Margir þingmenn í stjórnarandstöðuflokkunum segjast styðja baráttu okkar fyrir jafnri stöðu á við trúfélög og aðgang að sóknargjöldum sem eru tekin af okkur. Enginn hefur þó þorað að leggja fram frumvarp til þess að leiðrétta þessa mismunun. Flest systurfélög Siðmenntar í Evrópu og Norður Ameríku eru löngu búin að fá sömu lagalegu og fjárhagslega stöðu og trúfélög.
Í nóvember sótti Siðmennt um aðild að Mannréttindaskriftstofu Íslands og beiðni okkar var samþykkt einróma. Við teljum þetta vera sterkt jákvætt skref fyrir Siðmennt. MRSÍ er nýr vettvangur fyrir okkur þar sem við getum vonandi fengið stuðning við mikilvægustu mál okkar. Einnig er þessi aðild liður í kynningu okkar fyrir íslenskan almenning. Siðmennt hefur ávallt verið mannréttindafélag en aðildin að MRSÍ getur styrkt ímynd okkar með því að tengja nafn okkur enn sterkar við mannréttindi, svipað og gerðist hjá Samtökunum 78 á sínum tíma.
Í desember sóttum ég og Svanur Sigurbjörnsson athöfn og móttöku í boði Ásatrúarfélags vegna fyrstu skóflustungu að hofi félagsins við Öskjuhlíð. Við ræddum við marga um sameiginlega afstöðu okkar varðandi trúboð í skólum, jafna stöðu allra lífsskoðanafélaga og nýfallin dóm í dómsmáli þeirra og væntanleg dómsmál okkar.
Í janúar tók Bjarni Jónsson að sér stórt verkefni sem Heimssamband Húmanista (International Humanist and Ethical Union) og Samtök Evrópska Húmanista (European Humanist Federation) hafa hrint af stað. Verkefnið heitir “Brusselyfirlýsingin og A Secular Vision for Europe” og verður gert opinbert í mars 2007. Kynning þess fer fram á höfuðstöðvum Evrópuþingsins í dag 27. febrúar og er niðurstaða samstarfs menntamanna, stjórnmálamanna, rithöfunda, vísindamanna, sveitastjórnarmanna, auk veraldlegra og trúarlegra félagasamtaka. Nú eru 50 ár liðin frá stofnun Evrópusambandsins og eru Vatikanið og Angela Merkel (sem er nú forseti Evrópusambandinu) að reyna að setja ákvæði um þá skoðun að evrópsk menning sé grundvölluð á kristnum gildum, inn í endurnýjaða stjórnarskrá Evrópusambandsins. Brusselyfirlýsingin felur í sér 11 sameiginleg gildi um lýðræði, jafnrétti, mannréttindi, sjálfsvirðingu, umburðarlyndi, tjáningarfrelsi, menntun o.fl. Við viljum vekja athygli á að þau grundvallaratriði og gildi sem höfð voru til hliðsjónar við endurreisn Evrópu nútímans eru veraldleg. Þessi gildi eru í hættu ef trúarlegum gildum er bætt inn í stjórnarskrána. Bjarni safnaði saman um 300 nöfnum og netföngum, sendi yfirlýsinguna á alla og í kjölfarið skrifaði margt þekkt fólk á Íslandi strax undir.
Þess má geta að Siðmennt hefur lagt inn boð um að vera gestgjafi Heimsþings Húmanista 2011 sem Heimssamband Húmanista stendur fyrir.
Annað árið í röð hefur Siðmennt fengið húsaleigustyrk frá Reykjavíkurborg vegna Borgaralegrar fermingar. Annað árið í röð samanstendur fermingarhópurinn af rúmlega hundrað ungmennum. Þetta er 19. árið sem Borgaraleg ferming er haldinn á Íslandi.
Síðast en ekki síst var Siðmennt tilnefnt til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2007 og fékk viðurkenningarskjal við hátíðlega athöfn 22. febrúar á Hótel Nordica. Þessi viðurkenning var í flokki sem heitir “Framlag til æskulýðsmála”. Þetta er sögulegur atburður og fyrsta opinbera viðurkenningin á framlagi Siðmenntar til Íslensks samfélags.
Ég vil þakka öllum stjórnarmönnum fyrir vel unnið sjálfboðastarf í ár eins og fyrr og öllum sem hafa komið að starfi félagsins og tekið þátt í baráttunni með okkur.
Þetta hefur verið ótrúlega viðburðarríkt ár í sögu Siðmenntar. Verkefnunum er alltaf að fjölga og félögum líka. Það væri mjög gott ef félagið myndi vaxa enn hraðar. Við gætum þá áorkað miklu meiru. Siðmennt er alltaf að verða þekktara bæði innanlands og úti í hinum stóra heimi. Við erum alltaf að styrkja tengsl okkar við aðila hér heima og víðar. Við erum stórhuga og haldin eldmóði um okkar dýrmætu málefni. Við stefnum að fullu trúfrelsi og fullu frelsi lífsskoðanafélaga á Íslandi, aðskilnaðs ríkis og kirkju og aðskilnaðs skóla og kirkju. Lengi lífi Siðmennt!
Hope Knútsson, formaður