Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skýrsla formanns 27. febrúar 2006

27. FEBRÚAR 2006
Þegar ég lít yfir síðasta starfsár sé ég tvö megin þemu: alveg ótrúlega virkni hjá stjórninni og stigmagnandi tengsl milli stjórnarmanna. Við vinnum afar vel saman og er þetta mjög jákvætt! Það er mjög spennandi og krefjandi að taka þátt í því hugsjónastarfi sem Siðmennt stendur fyrir. Enn það væri miklu árangursríkara fyrir íslenskt samfélag ef Siðmennt væri með sömu lagalegu og fjárhagslegu stöðu og hin lífsskoðunarfélögin hér á landi, staða sem flest húmanistafélög í hinum vestræna heimi hafa í dag og hafa haft í mörg ár. Þá gætum við veitt alla þá þjónustu við helstu tímamót lífsins sem fólk er oft að biðja okkur um. Þá gætum við starfað eðlilega og haft einhvers konar þekkingarmiðstöð, bókasafn, kennslustofu, og starfsfólk. Þetta er draumurinn sem við stefnum að.


Árið 2005 höfum við gert allt það sama sem við höfum alltaf gert hin 14 árin á undan, nema miklu meira af því, og bætt ýmsum nýungum við. Stjórnarmenn Siðmenntar tóku þátt í fjölmörgum fundum, málþingum og ráðstefnum bæði hér á landi sem og erlendis og voru í sviðsljósinu allt árið. Auk þess fengum við gesti frá systurfélögum okkar beggja vegna Atlantshafisins.

Það helsta er eftirfarandi:
• Varaformaðurinn Sigurður Hólm Gunnarsson hélt erindi hjá Ungum Jafnaðarmönnum ásamt alþingismanninum Einari Karli Haraldssyni um trúfrelsi (feb)

• Ítarlegt viðtal var við Jóhann Björnsson á Talstöðinni um sögu Borgaralegrar fermingar og Siðmenntar á Íslandi (feb)

• Sigurður Hólm Gunnarsson kom fram í Silfri Egils um trúboð í skólum (mars)

• Við sendum menntamálaráðherra og menntamálanefnd alþingis bréf um trúboð í skólum (mars)

• Bjarni Jónsson og ég hittum fulltrúa sendiráðs Bandaríkjanna til að svara spurningum um stöðu trúfrelsismála á Íslandi. Svör okkar eru hluti af árlegri skýrslu þeirra um trúfrelsi um allan heim. (mars)

• Heimsókn frá Juha Kukkonen, formanni Finnska Fríþenkjarafélagsins. Kvöldverðufundur með nokkrum SAMTörum. (maí)

• Stjórnin leitaði til lögfræðings um trúfélagsmál vegna baráttu okkar til að fá jafna stöðu sem lífsskoðunarfélag. (frá apríl til júni). Oddný Mjöll Arnardóttir er sérfræðingur í mannréttindamálum Evrópu og samdi hún víðarmikið álit sem við höfum notað síðan í samskiptum okkar við yfirvöld. Oddný taldi það ekki árangursríkt að fara til Umboðsmanns Alþingis. Þess í stað telur hún að það sé lagalegur grundvöllur fyrir Siðmennt að höfða mál gegn íslenskum stjórnvöldum til að fá sömu stöðu og trúfélög. Slík málaferli gætu tekið mörg ár og verið afar kostnaðarsöm.

• Stjórnin tók ákvörðun um að reyna fyrst til hlítar að fá lögum um skráð trúfélög breytt, eða fá sérlög um lífsskoðunarfélög eins og gert var í Noregi 1981. Þetta ferli er enn í vinnslu og fengum við ráð hjá þingmönnum sem styðja okkar málstað, um að byrja á því að fá fund með Allsherjanefnd. Erindi okkar var sent í lok nóvember og biðin eftir að vera kölluð á fund var löng. Fundurinn hjá Allsherjanefnd Alþingis var loksins haldinn fyrir hálfum mánuði síðan og reyndum við okkar besta til að sannfæra þingmenn um að barátta okkar fyrir lögum um skráð lífsskoðunarfélög er jafnréttis-og mannréttindamál.

• Fulltrúi Siðmenntar, Bjarni Jónsson flutti stutt erindi á ráðstefnu Stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrár Íslands (haldinn í júní) þar sem hann skýrði frá skoðun félagsins um aðskilnað ríkis og kirkju. Í ágúst sendum við stjórnarskrárnefnd bréf ásamt áliti lögfræðings þar sem við óskuðum formlega eftir breytingu á 63. grein stjórnarskrárinnar.

• Sigurður Hólm Gunnarsson var sendur í júlí sem fulltrú Siðmenntar á heimssráðstefnu IHEU (International Humanist and Ethical Union) um aðskilnað ríkis og kirkju og ungmennaráðstefnu IHEYO strax á eftir í París.

• Ég átti fund með Lauri Sivonen aðstoðarmanni Forstöðumanns Evrópska Mannréttindaráðsins sem var að kanna stöðu lifsskoðunarfélaga hér á landi, áhrif þess að Ísland er ennþá með Þjóðkirkju, og sjálfvirka skráningu nýfæddra barna í trúfélög.

• Byrjað var síðastliðið sumar að vinna að undibúningi alþjóðlegrar trúleysis ráðstefnu á Íslandi í lok júni n.k. í samstarfi við Atheist Alliance International. Stofnuð var skipulagsnefnd með fulltrúum Siðmenntar, SAMT, Vantrúar og Skeptikus

• Við fengum óvænta heimsókn frá August Berkshire varaforseta Atheist Alliance International í júlí. Sex manns frá SAMT komu saman með klukkustundar fyrirvara til að spjalla við hann.

• Stjórnin sendi ályktun til fjölmiðla þar sem Siðmennt styður rétt samkynhneigðra til að frumættleiða börn. Siðmennt er á móti sérlögum fyrir mismunandi þjóðfélagshópa.

• Siðmennt sendi bréf til allra þingmanna (15. ágúst) þar sem leitað var eftir stuðningi við væntanlegt frumvarp til lagabreytinga varðandi rétt lífsskoðunarfélaga án trúar til að fá sóknargjöld af sínum meðlimum líkt og trúfélög. Einnig var send fréttatilkynning um þetta til fjölmiðla

• Í stórum dráttum var erindi okkar eftirfarandi: Siðmennt byggir á húmanískum siðferðisgildum sem hafa langa sögu og mikið alþjóðlegt fylgi meðal rökhyggjufólks af öllum stéttum og hyggst bjóða uppá meira en eingöngu borgaralegar fermingar, m.a. borgaralegar giftingar, útfarir og nafngiftir. Til þess að byggja upp þessa starfsemi þarf félagið að sitja við sama borð og önnur lífsskoðunarfélög í landinu (sem eingöngu eru viðurkennd ef að þau eru trúfélög skv. núverandi lögum) og fá sóknargjöld (7200 kr per meðlim) greidd, en í dag renna þau til HÍ sé viðkomandi skráður „utan trúfélaga“.

• Í ágúst fengum við heimsókn frá Pekka Elo, formanni Finnska Húmanista Sambandsins sem tók viðtal við Karólínu Geirsdóttir og Hope Knútsson og skrifaði grein um Siðmennt í tímarit þeirra.

• Stjórnin sendi fréttatilkynningu í fjölmiðla þar sem við gagnrýndum tillögur nokkurra presta um hækkun sóknargjalda sem trúfélög fá frá ríkinu.

• Í október gaf Björgvin Brynjólfsson sem er heiðursfélagi Siðmenntar 660 eintök af sjálfsævisögu sinni “Minningar og lífssýn” til félagsins í fjáröflunarskyni. Gísli Már Gíslason fyrrverandi stjórnarmaður, sem er með bókaútgáfufyrirtæki tók það að sér að verða dreifingaraðili fyrir okkur. Ágóði af sölu bókarinnar rennur í söfnunarsjóð til að kosta viðurkenningu stjórnvalda á að Siðmennt fái jafna stöðu og trúfélög.

• Stjórn Siðmenntar lét gamlan draum sinn rætast með því að afhenda Húmanistaviðurkenningu í fyrsta sinn í október s.l.. Þetta verður árlegur viðburður og fyrsti aðili til að fá þessa viðurkenningu voru Samtökin 78. Fjörtíu gestir voru boðnir, fréttatilkynningar sendar, og móttakan var haldin í Kaffi Reykjavík. Félagar í Samtökunum 78 voru mjög ánægðir með viðurkenninguna. Fréttir um þetta voru settar strax á vefsíðu Mbl og í Blaðið, auk viðtals við fulltrúa Siðmenntar og Samtakanna 78 á Talstöðinni.

• Fjórir stjórnarmenn fóru á fund hjá nefnd Menntamálaráðuneytisins sem er að endurskoða námskrá varðandi kristinfræðikennslu og kennslu um siðfræði og gagnrýna hugsun þar sem við bentum á mörg dæmi um trúboð í skólum, ræddum um tillögur Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um sams konar mál í Noregi. Nefndarmenn voru frekar jákvæðir en sögðu breytingar á námsskrá ganga mjög hægt fyrir sig.

• Í vetur varð ljóst að við erum með algjöra metskráningu í Borgaralega fermingu eða 130 ungmenni. Þetta er 40% aukning frá síðasta ári sem var ennig metár hjá okkur! Nú er stærsti salur í Háskólabíói ekki nógu stór fyrir okkur og verðum við að skipulegga tvær mjög stórar athafnir. Þetta er orðið frekar flókið skipulagsferli en við lítum á það sem jákvætt vandamál.

• Við erum að taka önnur stór skref í fermingarmálinu með því að halda seinni hluta af helgarnámskeiðinu (sem er ætlað landsbyggðarfólki) á Akureyri fyrir um 10 börn sem búa á Norðurlandi. Við vonum að þetta leiði til frekari útbreiðlsu Borgaralegrar fermingar úti á landi í framtíðinni.

• Siðmennt hefur verið í sviðsljósinu í allan vetur. Nokkrir kirkjumenn skrifuðu afar neikvæðar greinar um Siðmennt byggðar á rangtúlkun og misskilningi. Jóhann Björnsson, Sigurður Hólm og Svanur Sigurbjörnsson svöruðu opinberlega í Morgunblaðinu. Mikil og heit umræða fór fram á vefsíðu Vantrúar um okkar mál.

• Stjórnin var mjög dugleg við að senda fréttatilkynningar í fjölmiðla um ýmis mál t.d. metþáttöku í Borgaralegri fermingu, Húmanista-viðurkenningu og baráttu Siðmenntar fyrir jafnri stöðu sem lífsskoðunarfélag. Í kjölfarið voru viðtöl tekin við Sigga á NFS og Vísir.is.

• Síðastliðið haust tóku Bjarni Jónsson og Svanur Sigurbjörnsson þátt í Landsmóti Human Etisk Forbund í Noregi
í boði Human Etisk Forbund.

• Það birtist ítarleg grein um Siðmennt í Fri Tanke, einu af mörgum blöðum sem Human Etisk Forbund gefur út.

• Einnig birtist grein í Bresku tímariti “Gay Humanist Quarterly” um Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar til Samtaka 78.

• Siðmennt er í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands, að skipuleggja málþing í vor um jafna stöðu lífsskoðunarfélaga. Það er líklegt að lögfræðingur Human Etisk Forbund verði fyrirlesari á þessu málþingi. Stefnt verður að því, að fá fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna til að lýsa skoðun flokks síns á þessu máli.

• Nokkur viðtöl við mig hafa birst, í Blaðinu nýlega varðandi Borgaralega fermingu og mjög stórt viðtal við mig með áherslu á Siðmennt sem lífsskoðunarfélag birtist í sunnudags Morgunblaði í janúar og vakti athygli. Það var líka tekið viðtal við mig á Rás 1.

• Fyrirspurnum sem við fáum um borgaralega giftingu og útför fer fjölgandi með hverju ári.

• Við fáum alltaf mikinn stuðning og hvatningu frá Norska systurfélagi okkar, Human Etisk Forbund. HEF hefur boðað fulltrúa Siðmenntar á landsfund sinn í mörg ár og núna á fimmtugs afmæli samtakanna í apríl. Human Etisk Forbund hefur einnig boðið okkur lögfræðilega ráðgjöf varðandi baráttu okkar gegn trúboði í skólum og jafnri stöðu sem lífsskoðunarfélag.

• Eitt stærsta verkefnið í vetur hefur verið undirbúningur vegna alþjóðlegrar trúleysis og Húmanista ráðstefnu á Íslandi í lok júni. Við höfum fengið heimsþekkta fyrirlesarar og erum að kynna þetta eftir ýmsum leiðum út um allan heim og hér á landi.

• Við höfum brennandi áhuga á að halda námskeið til að þjálfa fólk til að framkvæma borgaralegar athafnir. Einn fyrirlesari á ráðstefnunni í júni (Margaret Downey) mun tala um mikilvægi þess að mennta fólk í þessu hlutverki. Hún hefur haldið mörg slík námskeið og viljum við fá hana til að koma aftur til Íslands þegar og ef við fáum réttindi til að gifta og jarða fólk, svo við getum sinnt þessu almennilega.

Draumurinn drífur okkur áfram
Já, Siðmennt er ótrúlegt félag. Við höfum ótrúlegan kraft og samheldni sem eykst frá ári til árs. Við höfum lítil peningaráð, ekkert húsnæði eða launaða starfsmenn en við höfum hugsjón og ástríðufullan áhuga á mannréttindum og réttlæti sem bindur okkur saman og drífur okkur áfram sem samhent teymi. Við erum ákveðin í að gera draum okkar um alvöru trúfrelsi og jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á Íslandi að veruleika.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit