Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skýrsla formanns 26. febrúar 2015

 

Til hamingju með 25 ára afmæli Siðmenntar! Siðmennt vex mjög hratt! Vorið 2013 áður en við fengum skráningu sem lífsskoðunarfélag voru 300 manns í félaginu og nú eru félagarnir orðnir 1200! Þetta er mikill vöxtur og sýnir að í samfélaginu hefur verið þörf á fleiri valkostum en eingöngu trúfélögum. Fólk leitar til Siðmenntar fyrst og fremst til að nýta sér þjónustu okkar. Árið 2014 var Siðmennt með 114 veraldlegar athafnir (nafngjöf, giftingar og útför) sem var 44% aukning frá árinu á undan. Einnig var 40% fjölgun í borgaralegri fermingu. Fermingarathafnir okkar í fyrra voru 9 talsins, þar af tvær á nýjum stöðum, á Flúðum og á Höfn. Nú í vor eru bæði námskeið og athöfn á nýjum stað: Reykjanesbæ. Annað ár í röð eru fermingarbörnin rúmlega 300.

Við erum með miklu fleiri verkefni en nokkru sinni fyrr, erum orðin miklu þekktari, erum að gera mjög marga góða hluti en við erum enn umdeild sem er í sjálfu sér bara fínt! Sem málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar reynum við að nýta sem flest tækifæri til að vekja athygli á trúfrelsismálum, siðferðismálum og mannréttindum.

 

 

Dæmi um verkefni árið 2014:

  • Haldið var þriggja kvölda námskeið um Húmanisma eða Líf án trúarbragða sem Jóhann Björnsson stýrði.
  • Haldið var vel sótt og umdeilt málþing um hvort Íslendingar þurfi að óttast íslam. Mikið var fjallað um málþingið í fjölmiðlum.
  • Haldið var málþing um líknardauða sem 130 manns sóttu. Þar voru fluttar mjög persónulegar frásagnir aðstandenda og hugmyndir heimspekinnar voru reifaðar. Við opnuðum umræðu í íslensku Þjóðfélagi – og það var jú markmiðið með málþinginu. Þetta var ef til vill einn mikilvægasti opni fundur sem Siðmennt hefur haldið í 25 ára sögu okkar. Málþingið vakti mikla athygli og fjölluðu flestir fjölmiðlar á landinu um þetta mál í heila viku.
  • Við tókum þátt í að endurvekja umræðukvöldin sem kölluð eru “Efast á kránni” – 40 manns sóttu fund þar sem fjallað var um muninn á milli Vantrúar og Siðmenntar
  • Stjórn Siðmenntar sendi þingmönnum erindi sem hét: Tíu atriði til að tryggja trúfrelsi og jafnrétti
  • Stofnaður var Siðmenntarspjallhópur á Facebook einungis fyrir félaga og þar er mjög lífleg umræða og margir félagar mjög virkir
  • Siðmennt gefur út fréttabréf oftar en áður.
  • Nú gefum við peninga til góðgerðamála. Gerðum það tvisvar í fyrra, til Kvennaathvarfsins strax eftir að við fengum fyrstu úthlutun sóknargjalda, og um haustið gáfum við til SOS barnaþorpa. Héðan í frá munum við veita samtökum og einstaklingum sem vinna að góðgerðarmálum árlegan styrk, um leið og við veitum húmanistaviðurkenningu Siðmenntar.
  • Við skipuðum formlegan fjölmiðlafulltrúa, Sigurð Hólm Gunnarsson.
  • Siðmennt fékk boð um að flytja fjóra pistla í vikulegum útvarpsþætti Rásar 1 „Trú, menning og samfélag“. Jóhann Björnsson samdi og flutti pistlana. Þema fyrsta þáttar var líf án guðs og ódauðleiki sálarinnar, annar þáttur var um gagnrýna hugsun, þriðji um siðferði og fjórði um tilgang lífsins og hamingjuna. Þetta var afskaplega mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna hugmyndafræði húmanismans með þessum hætti.
  • Við fengum leyfi frá Breska Húmanistafélaginu til að þýða, framleiða og dreifa fjórum vinsælum myndböndum um húmanisma sem BHA gaf út með Stephen Fry sem kynni. Reynir Harðarson þýddi en Felix Bergsson og Sigrún Valbergsdóttir lásu inn á myndböndin.
  • Annað ári í röð var Siðmennt beðið um að flytja jólahugvekju á útvarpstöðinni X-inu kl. 18:00 á aðfangadagskvöld. Jóhann Björnsson flutti ávarpið.
  • Eins og undanfarin ár héldum við hugvekju fyrir Alþingismenn sem valkost við messu í Dómkirkju fyrir setningu Þingsins. 10 þingmenn mættu siðast og flutti Huginn Freyr Þorsteinsson heimspekingur ræðu sem heitir „Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn.“
  • Svanur Sigurbjörnsson hélt erindi fyrir hönd Siðmenntar um vísindi og trú á málþingi með sama heiti á vegum Samráðsvettvangs trúfélaga.
  • Siðmennt gerðist stofnaðili að Alþjóðlegum samtökum gegn lögum um guðlast.

 Auk þess tók Siðmennt virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi en nokkur sinni fyrr.

  • Í águst sendum við til dæmis fjóra fulltrúa á heimsþing húmanista á vegum International Humanist and Ethical Union í Oxford, Englandi. Þemað var hugsana- og tjáningarfrelsi. Við heimkomuna þýddum við „yfirlýsinguna um hugsana- og tjáningarfrelsi“ og dreifðum henni.
  • Í janúar sendi Siðmennt 5 fulltrúa úr stjórninni á fyrsta fund samtaka norrænna húmanista í Osló til að bera saman bækur okkar. Þar voru saman komnir fulltrúar úr 6 félögum sem í eru samtals 100.000 félagsmenn en Noregur hefur algera sérstöðu þar sem 84.000 eru í norsku samtökunum! Á fundinum var ákveðið að halda samstarfi norrænu félaganna áfram.

Örstutt um kynningarmál en við erum alltaf að kynna félagið og húmanisma fyrir öðrum hópum. Tvö dæmi:

  • Haldinn var mjög góður kynningarfundur um Siðmennt og borgaralega fermingu í Keflavik s.l. haust á vegum Málfundarfélagsins Faxa.
  • Félagið fékk beiðni frá tveimur hópum háskólastúdenta (heimspekinema og stjórnmálafræðinema) fyrir svo kallaða „Vísindaferð“ s.l. haust. Þessir tveir fundir heppnuðust mjög vel og átti sér stað góð umræða. Nemarnir voru yfir sig hrifnir og vilja fá okkur aftur í ár. Sigurður Hólm Gunnarsson, Bjarni Jónsson, Jóhann Björnsson og Steinunn Rögnvalds töluðu við nemana.

Það hefur verið árleg hefð hjá okkur síðan 2005 að veita Húmanistaviðurkenningu og á árinu 2014 heiðruðum við þrjár kvenkyns mannréttindalögfræðinga: þær Sigríði Rut Júlíusdóttur, Katrínu Oddsdóttur og Helgu Völu Helgadóttur. Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fékk Ævar Þór Benediktsson fyrir vísindabók og sjónvarpsþátt fyrir börn.

Nú er minn tími búinn sem formaður Siðmenntar. Ég hef verið í þessu hlutverki í 19 ár og hefur það verið stór hluti af minni sjálfsmynd á þessu tímabili og reyndar lengur en það. Siðmennt hefur verið partur af mér frá því að ég hóf undirbúning fyrir fyrstu borgaralegu fermingu á Íslandi árið 1988 eða fyrir 27 árum síðan. Mér finnst bara eðlilegt að yngri manneskja taki við formennskunni nú. Félagið er komið á nýtt vaxtarskeið. Siðmennt er svo heppið að vera með mjög hæft og einlægt fólk í stjórn félagsins.

Ég býð mig fram til að vera áfram í stjórn Siðmenntar og verð áfram framkvæmdastjóri borgaralegra ferminga. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft tækifæri að vinna í nær þrjá áratugi með svo mörgum frábærum húmanistum. Þið hafið auðgað líf mitt. Ég held að Siðmennt hafi nú þegar haft mjög jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og ég veit að Siðmennt mun hafa áhrif áfram. Ég hlakka til þess að halda áfram að taka þátt í að móta starf Siðmenntar.

Takk kærlega fyrir mig.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit