Borgaraleg ferming í Hofi á Akureyri 19.mars 2011
Hugleiðing um áhyggjur, ótta og hugrekki
Góðan og gleðilegan dag kæru fermingarbörn, foreldrar, aðrir aðstandendur og vinir.
Þið fermingarbörn, sem eruð að komast í fullorðinna manna tölu, eigið enn eftir nokkur ár í skjóli foreldra og ástvina til að undirbúa ykkur fyrir sjálfstætt líf. Þetta er skemmtilegur tími – og unglingsárin eru mikilvæg – því nú reynir á ykkur sjálf meir en áður þegar þið voruð börn.
Mig langar til að gera eitt atriði að umtalsefni. Ég veit að þið þekkið öll tilfinninguna að verða hrædd og áhyggjufull. Það er mjög eðlileg tilfinning og mikilvæg því hún segir manni að nú sé hætta á ferðum og að við þurfum að gæta að okkur. En það skrítna er – að við verðum oft hrædd og áhyggjufull án þess að raunveruleg hætta sé á ferðum.
Þegar ég var á ykkar aldri, raunar aðeins eldri – þá sagði ein góð vinkona mín eitt sinn við mig að hún hefði heyrt –einhversstaðar – að við – fólkið sem býr í ríka hluta heimsins – hefðum í 95% tilvika áhyggjur af einhverju sem engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af eða vera hrædd við. Það væru einungis um 5% af öllum okkar áhyggjum sem ættu sér ríkar ástæður. Þessi speki hefur lifað með mér æ síðan ogvinkona mín þar með, en ég missti þessa góðu vinkonu mína í slysi nokkrum árum síðar. Ég hugsa einmitt til hennar í hvert sinn sem eitthvað gerir mig óttaslegna og áhyggjufulla – og hvort áhyggjuefni mitt tilheyri alvöru 5 prósentunum eða falli í ástæðulausu 95 prósentin. Ef óttinn og áhyggjan tilheyrir 5 prósentunum verð ég að leita aðstoðar og gera eitthvað en ef óttinn og áhyggjan tilheyrir 95 prósentunum þarf ég að breyta minni eigin hugsun – verða hugrökk og kjörkuð – horfast í augu við óttann – og sigrast á honum.
Og nú ætla ég að segja ykkur örlitla dæmisögu.
Síðastliðið sumar var ég á ferðalagi í útlöndum með hópi fólks – ungum og gömlum. Einn daginn stóð til að fara með lyftu upp á efstu hæð í einu hæsta húsí heims. Þá kom til mín einn ferðalanganna – hann var 6 ára – og spurði mig hvort ég gæti orðið eftir með honum á meðan hinir færu með lyftunni upp – því hann þyrði alls ekki í lyftur – hann væri svo hræðilega hræddur við þær. Ég reyndi að tala hann til – og foreldrar hans reyndu líka að tala hann til – en allt kom fyrir ekki – svo ég varð við ósk hans um að bíða niðri með honum. Þegar svo að því kom að fólkið tíndist inn í lyftuna hvert af öðru – og lyftudyrnar voru við það að lokast þá skaust stráksi fram – og inn í lyftuna – en eftir stóð ég með spurn í augum. Hvað hafði gerst?
Fólkið kom aftur úr lyftuferðalaginu og þá spurði ég strákinn hvað hefði eiginlega gerst, hvað hann hefði verið að hugsa –en hann sagði:
Það stóð utan á innkaupapokanum sem við fengum í búðinni í gær að við ættum -á hverjum degi – að gera eitthvað sem við erum hrædd við. Og ég er svo hræddur við lyftur – þessvegna fór ég í lyftuna með hinum. Drengurinn, sem nú er orðinn 7 ára, fylgir þessari reglu að gera eitthvað sem hann er einmitt hræddur við, kannski ekki á hverjum degi, en nógu oft til að gleyma ekki reglunni. Hann er hættur að vera hræddur við ýmislegt sem skelfdi hann áður – en það sem er mikilvægara, hann veit að ef hann verður hræddur þá getur hann sjálfur gert ýmislegt til að sigrast á óttanum.
Ef við æfum okkur þá verðum við flínk – ef við æfum okkur í hugrekki þá verðum við hugrökk. Ef við erum hugrökk þá þorum við að vera við sjálf, jafnvel þótt það þýði að við erum ekki eins og hinir og jafnvel þótt það þýði að einhverjum finnist það asnalegt.
Ég hef rökstudda ástæðu til að ætla að þið búið yfir hugrekki. Passið vel að týna því ekki og munið að æfa ykkur eins oft og þið getið – helst alla daga – og alla ævi.
Til hamingju með daginn – og velkomin í fullorðinna manna tölu.
Sigrún Sveinbjörnsdóttir er sálfræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri