Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 15. febrúar 1990 og fagnar því 34 ára afmæli í dag. Siðmennt er málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar. Það flokkast sem lífsskoðunarfélag, starfar óháð trúarsetningum og stendur fyrir húmanískum athöfnum.
Hugtakið lífsskoðunarfélag hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Siðmennt hefur unnið markvisst að því að kynna hugtakið fyrir þjóðinni. Lífsskoðunarfélög geta verið bæði veraldleg og trúarleg. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félagsskap sem fjallar um siðfræði, þekkingarfræði og þjónustar við tímamótaathafnir fjölskyldna. Þessi viðfangsefni eru sambærileg þjónustu trúfélaga en inntakið er ekki trúarlegt og athöfnunum stýrir athafnarstjóri í stað prests. Hugtakið lifsskoðunarfélag er nú víða notað, bæði meðal almennings og innan stjórnsýslunnar. Þekkingarfræðin fjallar um hvernig við getum öðlast skilning á umheiminum, þ.e. hvað sé haldbær þekking og hvað ekki.
Þann 3. maí 2013, fyrir tæplega 11 árum síðan, var gerð lagabreyting sem gerði lífsskoðunarfélögum kleift að fá hlutdeild í sóknargjöldum og að hafa vígsluréttindi. Siðmennt öðlaðist þessi réttindi þann 3. maí 2013 og hefur þessi breyting skipt sköpun fyrir félagið og gert því kleift að vaxa verða atkvæðameira í okkar góða samfélagi.
Sóknargjöldin renna til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga, og eru innheimt af öllum einstaklingum 16 ára og eldri. Sé viðkomandi skráður í eitthvað trú- eða lífsskoðunarfélag rennur gjaldið til þess, ef ekki þá rennur það beint til ríkissjóðs. Sóknargjöldin fyrir árið 2024 eru kr. 1.192 per einstakling á mánuði og reiknast út frá meðlimaskráningu 1. desember undanliðins árs.
1. janúar 2024 voru Íslendingar 399 þúsund talsins, af þeim voru 226 þúsund í Þjóðkirkjunni, rúmlega 30.500 utan trú- og lífsskoðunarfélaga og 5.800 í Siðmennt.
Lagabreytingin hafði einnig þær afleiðingar í för með sér að síðan 2013 hafa allar giftingar á vegum Siðmenntar verið fullgildir löggjörningar, en þó er einnig í boði að halda táknræna athöfn eða endurnýjun heita.
Í dag þykir eðlilegur sá valkostur að velja húmaníska athöfn þegar tímamótum er fagnað og býður félagið upp á húmanískar nafngjafir, fermingar, giftingar og útfarir og er fjöldi athafnaþega orðinn hærri en eittþúsund á ársgrundvelli.
Siðmennt er jafnframt virkur þátttakandi í erlendum sem innlendum samtökum. Má þar nefna Humanists International, Norrænan samvinnuhóp, umræðuvettvang trú- og lífsskoðunarfélaga og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Í ágúst 2023 hélt félagið, ásamt húmanistafélögum hinna Norðurlandanna, heimsþing húmanista í Kaupmannahöfn. Þemað að þessu sinni var: "Building Better Democracies Through Humanist Values". Þetta var fyrsta heimsþing húmanista frá því að Covid-19 lék heimsbyggðina grátt en síðasta þing fór fram í Oxford 2014. Um 20 Íslendingar fóru í víking undir merkjum Siðmenntar þar sem ýmist var hlustað á erindi eða tekið þátt í vinnustofum auk þess sem við áttum okkar fulltrúa í hópi ræðumanna og vinnustofustýringar.
Siðmennt hefur fengið nokkrar viðurkenningar bæði hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi. Frá árinu 2005 hefur Siðmennt árlega veitt sérstaka húmanistaviðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu mannréttinda og/eða mannúðar á Íslandi. Síðan 2008 hefur félagið einnig veitt fræðslu- og vísindaviðurkenningu fyrir mikilvæg framlög í þágu fræðslumála á Íslandi. Siðmennt reynir að vera duglegt við að styrkja við góð og þörf málefni sem eiga samhljóm með húmanískum gildum.