Laugardaginn 18. mars stendur Siðmennt fyrir heilum degi af húmanisma, svokölluðu Siðmenntarþingi, þar sem þemað er dauðinn og þessum frábæra degi mun ljúka með árshátíð um kvöldið!
Hvetjum áhugasama til að taka þátt í öllu því sem þeir geta en hægt er að skrá sig í einstaka liði dagskránnar líka. Skráning fer fram hér: https://forms.gle/FdBi6Y5E6599JhKJ8
Siðmenntarþing er vettvangur fyrir húmanista til að koma saman, hitta samherja sína og skoða heiminn frá húmanísku sjónarhorni. Þema þingsins í ár er Afhelgun dauðans, en dauðinn og allt sem honum tengist er áhersluefni félagsins í ár. Dagskráin verður fjórþætt; fyrri hlutinn snýr að dauðanum sjálfum, með dauðakaffi um morguninn og málþing seinni partinn. Svo verður aðalfundur félagsins á dagskrá með því sem honum tilheyrir, s.s. lagabreytingum og stjórnarkjöri, og svo slúttum við þessu með ærlegri árshátíð um kvöldið.
Dagskrá
10:00 - 12:00 - Dauðakaffi - sjá hér: https://fb.me/e/2pMtCQ8qC
12:00 - 12:30 - Hádegisverður í boði
12:30 - 14:45 - Málþing "Afhelgun dauðans" - sjá hér : https://fb.me/e/2pMtCQ8qC
14:50 - 15:00 - Húmanistaviðurkenning og fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar afhent
15:00 - 17:00 - Aðalfundur félagsins - hefðbundinn dagskrá – sjá hér: https://fb.me/e/4p7y93ta7
18:30 - 23:00 - Árshátíð Siðmenntar - kvöldverður, skemmtiatriði, ræðuhöld og almenn gleði
Staðsetning: Salur Blaðamannafélagsins, Síðumúla 23. Gott aðgengi fyrir alla
Dauðakaffi
Dauðinn hefur verið ósnertanlegur, óræðanlegur og óþægilegur að margra mati, en á svokölluðu dauðakaffi hittist fólk yfir kaffibolla og ræðir dauðann án þess að skafa af hlutunum. Fólk sem jafnvel þekkist ekkert, en deilir áhuga á dauðanum og því sem honum tengist. Tilgangurinn er að vekja fólk til meðvitundar um að allt líf tekur enda og skerpa sýn fólks á að lifa lífinu vel, í ljósi endanleika þess.
Öll eru velkomin á dauðakaffi Siðmenntar, óháð lífsskoðun.
Afhelgun dauðans // Málþing
Dauðinn og allt sem honum tengist, hefur lengi haft mjög trúarlegar tengingar. Sumar tengingarnar snúast aðallega um samfélagslega siði og hefðir; hvað við segjum við kunningja þegar ástvinur þeirra fellur frá og hverjar táknmyndir dauðans eru, en aðrar fylgja kerfislægum forréttindum kirkjunnar þegar kemur að aðgengi að þjónustu sem tengist lífslokum. En samfélög breytast og lífsskoðanir sömuleiðis. Í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi er alls ekki sjálfgefið að umgjörð dauðans sé að nánast öllu leyti kristileg, og aukin krafa er um veraldlega og trúarlega hlutlausa valkosti.
Á málþinginu ætlum við að skoða afhelgun dauðans frá mörgum sjónarhornum. Við skoðum hana úr sögulegri átt, hvernig hefðir, siðir og venjur hafa þróast, ásamt því að skoða veraldleg viðhorf í nútímasamfélagi, og hvernig hægt er að þjónusta þau. En við skoðum afhelgunina einnig út frá persónulegu sjónarhorni. Þegar dauðinn verður ekki lengur fjarlægur og ósnertanlegur, því þegar ástvinur deyr færist dauðinn nær og verður í senn jarðbundin staðreynd og heimspekilegt viðfangsefni.
Öll eru velkomin á málþingið Afhelgun dauðans, óháð lífsskoðun.
Frummælendur:
- Hjalti Hugason, guðfræðingur
- Tinna Jóhannsdóttir, verkefnastjóri athafnaþjónustu Siðmenntar
- Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar
- Guðrún Katrín Bryndísardóttir og Agla Arnars Katrínardóttir, mæðgur