Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt styður ekki hækkun sóknargjalda

Í kjölfarið á frétt innanríkisráðuneytisins þess efnis að unnið sé að hækkun sóknargjalda í áföngum* vill Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, árétta að félagið styður ekki hækkun sóknargjalda. Þó Siðmennt hafi fengið lögformlega skráningu sem lífsskoðunarfélag í fyrra og þar með aðild að sóknargjaldakerfinu er félagið á móti fyrirkomulaginu. Siðmennt ítrekar þá afstöðu sína að hið opinbera eigi ekki að fjármagna starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Í erindi sem Siðmennt sendi þingmönnum í október 2013** segir orðrétt:

Siðmennt – félag siðrænna húmanista lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trú- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.“

Í umræddu erindi er að finna nokkrar tillögur Siðmenntar um hvernig best sé hægt að tryggja fullt trúfrelsi á Íslandi. Fyrsta tillagan hljóðar svona:

1. Að ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana fólks hjá Þjóðskrá og útdeilingu sóknargjalda

Slíkt fyrirkomulag er andstætt persónuverndarsjónarmiðum. Siðmennt telur óeðlilegt að einstaklingar þurfi að gefa upp hverjar lífsskoðanir þeirra eru. Að auki er það ekki hlutverk hins opinbera að halda skrá yfir trúfélagaaðild fólks eða innheimta gjöld fyrir hönd trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga. Siðmennt telur eðlilegast að þau félög sjái sjálf um að innheimta eigin félagsgjöld.“

Bréf Siðmenntar til þingmanna má lesa í heild sinni á vefsíðu félagsins**.

*http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/29004
** http://sidmennt.is/2013/10/10/opid-bref-til-thingmanna-tillogur-sidmenntar-um-breytingar-a-logum/

Fréttatilkynning (.pdf)

Til baka í yfirlit