Siðmennt sameinast Þjóðkirkjunni
Í gær var undirritaður samningur um samruna íslensku þjóðkirkjunnar. Tók stjórn Siðmenntar ákvörðun, eftir mikla yfirlegu, um að hagsmunum íslenskra húmanista væri best borgið með þessu fyrirkomulagi, en Siðmennt verður áfram sjálfstæð eining innan kirkjunnar.
“Við þurftum að spyrja okkur sjálf, hver er tilgangur félagsins? Er það ekki einmitt að vera málsvari húmanista á Íslandi og styðja við þá? Er ekki besta leiðin til þess að hafa almennilegt fjármagn til að byggja upp starfið” segir Inga Auðbjörg, fyrrum formaður Siðmenntar, en nú sérstakur siðrænn biskup Þjóðkirkjunnar. “Og svo líst okkur bara mjög vel á að flytja á Laugarveginn. Þar eru víst 100 fermetrar á hvern starfsmann!”
Félagafækkun mætt með félagafjölgun
Félögum í Siðmennt hefur fjölgað hratt síðustu árin á meðan félagaskrá Þjóðkirkjunnar hefur þynnst talsvert á sama tíma. Forsvarsmaður kirkjunnar telur að samruni Siðmenntar og Þjóðkirkjunar muni hjálpa Þjóðkirkjunni að tala betur til nútímafólks. “Siðmennt er náttúrulega bara með puttann á púlsinum þegar kemur að siðrænum gildum og við hlökkum bara til þess að taka þessi gildi inn í okkar kennisetningar”, en nánar er fjallað um samrunann á vef Kirkjunnar.
Siðmenntarprestar á sjúkrahúsin
Með samruna þessara tveggja lífsskoðunarfélaga verður húmanistum gert kleift að sækja sálgæslu á sjúkrahúsum, en þar verður sérstakur Siðmenntarprestur starfandi, jafnfætis öðrum kirkjunnar þjónum. “Þetta hefur verið okkar baráttumál í einhvern tíma núna, að fólk geti sótt sér siðræna sálgæslu og þegar við tókum skref aftur og horfðum á málin úr fjarlægð, þá var alveg ljóst með hvaða hætti væri auðveldast að tryggja slíkt fyrirkomulag. Einfaldlega með því að sameinast Þjóðkirkjunni,” sagði Inga Auðbjörg, siðrænn biskup Þjóðkirkjunnar.
Mest spennt fyrir messuvíninu
Fyrir hinn almenna félagsmann Siðmenntar mun lítið breytast, annað en að dreypt verður á messuvíni við athafnir þessarar sjálfstæðu einingar, hér eftir. “Og svo þurfum við náttúrulega ekki að óttast erfðasyndina lengur, sem er gott í sjálfu sér”, segir framkvæmdastjóri Siðmenntar, sem nú verður sérstakur verkefnastjóri siðrænna mála hjá biskupstofu.
Siðmennt býður félögum sínum að smakka messuvín á nýrri skrifstofu sinni, Laugarvegi 31 á milli kl. 13-17 í dag.