Góðgerðasjóður COVID-19
Frétt uppfærð 20.05 – Mikill fjöldi af frábærum tilnefningum hefur borist. Við höfum því lokað fyrir innsendingar, en stjórn Siðmenntar fór yfir ábendingarnar á fundi sínum í gær og ákvað í kjölfarið hvernig úthlutað yrði úr sjóðnum. Greint verður frá niðurstöðunum á næstu dögum, þegar búið verður að hafa samband við alla hlutaðeigandi.
Kórónafaraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á samfélagið; bæði félagsleg og efnahagsleg. Þó vel hafi gengið að ráða niðurlögum faraldursins munu afleiðingarnar vara lengur og sumar þeirra jafnvel verða til frambúðar. Vonandi getum við þó farið að faðmast og ferðast áður en langt um líður.
Breytingarnar fyrir félag eins og Siðmennt eru einnig umtalsverðar. Fermingum slegið á frest og margar fjölskyldur hafa kosið að færa til giftingar og nafngjafir, enda mikilvægt að getað fagnað með sínu fólki, áhyggjulaust. Þá var talsvert alþjóðastarf fyrirhugað á árinu sem nú verður með öðru sniði. Stjórn Siðmenntar hefur því ákveðið að verja fjármunum sem annars hefðu farið í alþjóðastarf, í sérstakan sjóð til styrktar verkefnum sem vinna gegn áhrifum faraldursins á samfélagið allt, eða einstaka hópa innan þess.
Stjórn Siðmenntar óskar því eftir tilnefningum um styrkþega og mun verja samtals 1.000.000 kr. til styrktar einu eða fleiri verkefnum.