Í kjölfar fjölmiðlaumræðu síðustu daga um réttindi samkynhneigðra til frumættleiðinga og um rétt lesbískra para í staðfestri samvist til tæknifrjóvgunar, vill Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, ítreka stuðning sinn við baráttu samkynhneigðra fyrir fullum mannréttindum.
Siðmennt er þeirrar skoðunar að samkynhneigðir eigi að njóta nákvæmlega sömu réttinda og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það eitt að til eru sérstök lög um réttindi samkynhneigðra sýnir að pottur er brotinn í íslenskum lögum. Í lýðræðissamfélagi er það lágmarkskrafa að einstaklingar njóti sömu réttinda óháð séreinkennum þeirra.
Sérstök lög um stöðu samkynhneigðra eru álíka óviðeigandi og sérstök lög um konur, sérstök lög um fólk af ólíkum kynþáttum, sérstök lög um fólk með ólíkar trúarskoðanir eða með ólíka stjórnmálaafstöðu.
Siðmennt telur að meginmarkmið stjórnvalda eigi ávalt að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum og því lífsmynstri sem þeir sjálfir kjósa svo lengi sem aðrir hljóta ekki beinan skaða af.