Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt giftir 24 pör á einum degi

Siðmennt giftir 24 pör á einum degi

Rómantíkin sveif yfir vötnum í Höfuðstöðinni í gær, þar sem 24 pör nýttu sér tækifærið og gengu í hjónaband á vegum Siðmenntar. Hjónavígslurnar voru liður í viðburðinum Hoppað í hnapphelduna, þar sem ógiftum kærustupörum bauðst frí húmanísk athöfn og lögformleg hjónavígsla í boði félagsins. Flest pörin sem nýttu sér frumkvæði Siðmenntar hafa verið lengi saman, eiga jafnvel börn og hafa látið það sitja á hakanum í mörg ár að lögfesta sambandið. Hvergi var til sparað og hófst hver athöfn á tónlist, en hvert par gat valið úr lögum af lagalista, sem svo var leikið af þremur ungum tónlistarkvárum. Þá bauð félagið upp á kampavín og hjónabandssælu, ásamt því að gefa pörunum kost á því að taka mynd af sér í þar-til-gerðum sjálfsmyndakassa.

 

Viðburðurinn fór virkilega vel fram og það var gjarnan tár á hvarmi eftir athafnirnar, sem voru stuttar og laggóðar, en jafnframt fjölbreyttar og fallegar, enda sáu alls fjórir athafnarstjórar um vígslurnar þennan daginn. Viðburðurinn hefði ekki tekist jafn vel til ef ekki væri fyrir ómetanlegt framlag starfsfólks og sjálfboðaliða félagsins, sem stukku í hvert verk. 

 

Siðmennt óskar nýgiftu pörunum kærlega til hamingju og mun taka það til skoðunar hvort aftur verði boðið upp á slíkan viðburð. 

Til baka í yfirlit