Í gærkvöldi föstudaginn 27. júní 2008, héldu Samtökin ’78 uppá 30 ára afmæli sitt með miklum myndarbrag í húskynnum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarstræti. Samtökin ’78 veittu nú í annað sinn mannréttindaverðlaun sín og hlaut Siðmennt þau ásamt Bjarna Karlssyni presti og Böðvari Björnssyni sem var einn af fyrstu meðlimum samtakanna. Kynningarorð Samtakanna’78 um Siðmennt voru ákaflega falleg og Hope Knútsson veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Siðmenntar. Í þakkarræðu sinni sagði Hope m.a. að húmanistar um allan heim hefðu alltaf stutt réttindabaráttu samkynhneigðra og að að mörgu leyti væru Samtökin’78 fyrirmynd fyrir okkur. Hope lýsti því yfir að við í Siðmennt værum djúpt snortin yfir þessari viðurkenningu. Ræðu hennar var ákaflega vel tekið. Siðmennt óskar Samtökunum ’78 til hamingju með þrítugsafmælið!
Afhendingarræða Samtakanna’78 og þakkarræða Siðmenntar…
„Viðhorf eru mikilvæg. Sennilegast hefur ekkert eitt afl öðru fremur upplýst og breytt viðhorfum vesturlandabúa meira í átt til jafnréttis og bræðralags eins og siðræn húmanismi, sú hugmyndafræði sem Siðmennt vinur eftir og stendur fyrir. Þeirra aðalsmerki er frelsi og þekking, mannvirðing og samábyrgð. Siðmennt hefur svo sannarlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar til þess að hinsegin fólk gæti notið þeirra til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Alltaf þegar orðræðan um samkynhneigða og réttindi þeirra hefur staðið sem hæst hafa Samtökin ´78 og hinsegin fólk mátt reiða sig á stuðning Siðmenntar. Og alltaf þegar lagafrumvörp um auknin réttindi samkynhneigðra hafa verið lögð fram á Alþingi hefur Siðmennt ávalt sent frá sér jákvæðar umsagnir og stuðningsyfirlýsingar. Veraldlegar athafnir hafa í auknum mæli verið vettvangur Siðmenntar og í þeim hefur félagið kappkostað að mismuna engum, hvort sem um er að ræða fermingar, nafngiftir, greftranir eða giftingar. Nei, Siðmennt gerir ekki upp á milli ástarsambanda og leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð. Þannig verða samkynhneigð pör að hjónum í sömu stöðu og þau gangkynhneigðu í augum húmanista. Ástin ræður. Samtökin ´78 þakka nú Siðmennt fyrir áratugalangan stuðning.“
Formaður Siðmenntar, Hope Knútsson tók við verðlaununum og þakkaði með eftirfarandi orðum:
„Fyrir hönd Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, þakka ég hjartanlega fyrir þennan mikla heiður. Það er afar spennandi og skemmtilegt að hljóta þessi verðlaun. Við erum virkilega snortin. Það er alltaf gaman þegar einhver tekur eftir því hvað við erum að gera. Húmanistar út um allan heim hafa alltaf og án skilyrða stutt mannréttindabaráttu samkynhneigða. Frá upphafi hefur mannúð, umburðarlyndi, bjartsýni, skynsemi, hjálpsemi og valfrelsi verið hluti af stefnuskrá Siðmenntar. Við virðum réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild, og að eignast börn í samræmi við eigin ákvarðanir. Það er mikill heiður að fá Mannréttindaverðlaun ykkar. Við elskum ykkur og segjum mjög oft að þið séuð fyrirmynd okkar að mörgu leyti. Að lokum vil ég nota tækifærið til að óska Samtökunum‘78 til hamingju, fyrir hönd Siðmenntar, með 30 ára afmæli ykkar.“
Lesa má meira um afhendingu Mannréttindaverðlauna Samtakanna’78 á heimasíðu þeirra.