F R É T T A T I L K Y N N I N G
30. september 2010
Siðmennt býður upp á veraldlegan valkost í hugvekju fyrir þingsetningu
Löng hefð hefur verið fyrir því að setning Alþingis hefjist á guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir setningu Alþingis í maí og október 2009 opnuðust aðrir valkostir fyrir þingmenn þegar Siðmennt bauð þeim sem ekki kjósa að ganga til kirkju upp á heimspekilega hugvekju og léttar veitingar að Hótel Borg.
Siðmennt vill benda á að Alþingi er veraldleg stofnun og er það í hæsta máta óeðlilegt að setning Alþingis hefjist með trúarathöfn. Við teljum að lífsskoðunarfélög eigi ekki að hafa hönd í bagga með formlegri dagskrá Alþingis, en á meðan hin evangelísk-lúterska kirkja fær einkaaðgang að Alþingi með messu sem forsetinn og ríkisstjórnin hafa sótt , mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, bjóða alþingismönnum að koma á Hótel Borg áður en þing er sett föstudaginn 1. október kl. 13:30 og hlýða á Eyju Margréti Brynjarsdóttur, heimspeking, flytja stutta hugvekju. Hún nefnir hana: AF VANDAÐRI HUGSUN.
Allir alþingismenn eru hjartanlega velkomnir til að eiga stutta samverustund óháð öllum trúarsetningum áður en þeir ganga til þingstarfa.