Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt berst fyrir fullu tjáningarfrelsi – skrifum Bjarna Randvers svarað

Í grein í Morgunblaðinu 31. des. s.l. gagnrýnir Bjarni Randver Sigurvinsson málflutning talsmanna Siðmenntar, félags um siðrænan húmanisma. Hann vísar þar í grein mína frá 7. des. s.l., og greinar Sigurðar Hólm Gunnarssonar og Jóhanns Björnssonar en báðir gagnrýndu tilhögun kristin- og trúarbragðafræðslu í grunnskólum. Í þessari grein mun ég svara gagnrýni Bjarna Randvers.

 

Bjarni Randver segir í grein sinni: “mikilvægt [er] að skólar kynni trúarhefðir með vettvangsferðum til að vinna bug á fordómum og komi til móts við þarfir nemenda, m.a. með því að hliðra til fyrir fermingarfræðslu.” Það er í sjálfu sér ekkert að því að heimsækja trúarbyggingar til fræðslu um viðkomandi trú, en þá ber að gæta samræmis gagnvart öllum trúarbrögðum. Skólinn verður alltaf að gæta hlutleysis í trúmálum og kynningu á lífsskoðunum.

Bjarni Randver segist taka undir sumt af gagnrýni minni á Aðalnámsskrá grunnskóla m.a. “..svosem að áherslan á önnur trúarbrögð mætti vera meiri og að þar vanti umfjöllun um ýmsar guðleysisstefnur sem hæglega er hægt að skilgreina sem trúarlegar.” Ég fagna því að Bjarni Randver taki undir þessa áherslubreytingu en ég talaði ekki um að guðleysisstefnur væru trúarlegar. Þær líkjast trúfélögum að því leyti að ákveðnu siðferði er haldið frammi og boðið er uppá þjónustu við fjölskylduviðburði (ferming, nafngiftir, gifting og greftrun). Bæði trúfélög og félög án trúar eru lífsskoðunarfélög og ættu að vera flokkuð sem slík í lögum. Lífsskoðunarfélög húmanista snúast ekki einungis um trúleysi heldur mun frekar um mannréttindi, jafnrétti, siðferðisgildi og fjölskyldviðburði.

Áfram heldur Bjarni og missir algerlega af innihaldi gagnrýni minnar þegar hann segir: “Það verður að teljast áhyggjuefni að Svanur skuli andmæla því að lokatakmark námsins… skuli vera að nemandinn “öðlist þekkingu á kristinni trú…” og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög”. Hann missir alveg af því að ég var að gagnrýna það orðaval að nefna “Guð, föður, son og heilagan anda” sem eitthvert lokmarkmið og að nota orðið “fagnaðarerindið” því að Biblían er einungis fagnaðarerindi þeirra sem á hana trúa.

Bjarni Randver segir svo við gagnrýni minni á trúarlega listtjáningu í skólunum: “[listsköpun í trúarefnum] ætti þó að vera sjálfssagður hlutur enda er trúin ekki bara samofin menningararfleifðinni heldur líka sjálfsmynd manna af margra mati.” Ég vil ekki viðurkenna að biblíumyndir séu almenn menningararfleifð. Þær eru hluti af menningu kristinna manna og því ekki hlutlausar í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er í dag. Þá hittir Bjarni Randver naglann á höfuðið þegar hann nefnir “sjálfsmynd manna”. Listtjáning er persónuleg og því á ekki að setja börnum fyrir trúarlegt myndefni. Hvað þætti t.d. kristnum Íslendingum um að börnum þeirra væri sett fyrir að teikna myndir af trúartáknum múslima eða búddista? Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur úrskurðað að trúarleg listtjáning í skólum sé trúboð og brjóti í bága við samþykktir þeirra.

Þá hefur Bjarni Randver áhyggjur af því að ég vilji ekki að nemendur “temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt” og segir að slík “afstaða sé einmitt trygging fyrir því að öll umræða og gagnrýni verði málefnaleg og fordómalaus”. Hér snýst málið um skilgreiningu á því hvað sé heilagt. Heilagleiki er einhvers konar trúarleg virðing fyrir kennisetningum kirkjunnar eða prestum sem í hávegum eru hafðir. Heilagleiki felur í sér ákveðinn ósnertanleika og er því hafinn yfir gagnrýni. Samkvæmt skilgreiningu Merriam-Webster orðabókarinnar er heilagleiki skilgreindur sem “sá sem er verðugur algerrar hollustu vegna fullkominnar gæsku og réttsýni”. Heilagleiki er úrelt trúarlegt hugtak sem passar ekki inní siðfræði nútímans. Það þarf ekkert umfram venjubundna virðingu fyrir fólki til þess að halda uppi málefnalegri umræðu.

Loks gagnrýnir Bjarni Randver Siðmennt fyrir að vilja afnema 125. gr. almennra hegningarlaga sem hljómar svo: “Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.” Siðmennt styður ekki að draga dár að neinum trúarbrögðum. Gagnrýni Siðmenntar á þessum guðlastslögum beinist að því að málefnaleg gagnrýni á trú og trúarbrögð gæti virst háð eða smán í augum viðkomandi trúfélags og því sé það ekki líðandi að hafa lög sem hefta tjáningarfrelsi manna. Á sama tíma og við Íslendingar fordæmdum klerkastjórnina í Íran fyrir að dæma Salman Rushdie til dauða fyrir guðlast árið 1997, reyndi Ólafur Skúlason fyrrum biskup að fá saksóknara til að kæra Spaugstofuna fyrir að gera góðlátlegt grín að síðustu kvöldmáltíðinni. Það verður að vera hægt að gagnrýna opinberlega lífsskoðanir, þ.á.m. trúarbrögð – annars búum við ekki við fullt tjáningarfrelsi.

Svanur Sigurbjörnsson

Til baka í yfirlit