Við setningu Alþingis í dag 11. september 2012 flutti Svanur Sigurbjörnsson, læknir og stjórnarmaður í Siðmennt, hugvekju um „heilbrigði þjóðar“. Er þetta í fimmta sinn sem Siðmennt býður Alþingismönnum upp á veraldlegan valkost í stað messu við setningu Alþingis. Að þessu sinni mættu níu þingmenn ásamt nokkrum góðum gestum á Hótel Borg. Hugvekju Svans má lesa í heild sinni hér á vefsíðu Siðmenntar.
Athygli vekur að séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup, sem predikaði yfir alþingismönnum í Dómkirkjunni í dag, notaði tækifærið til að segja þingmönnum að tilvist þjóðkirkju ógnaði ekki trúfrelsi í landinu. Er þetta að mati Siðmenntar dæmi um það hvernig Þjóðkirkjan getur nýtt sér aðstöðu sína til að breiða út einhliða áróður. Siðmennt er einmitt þeirrar skoðunar að þjóðkirkjufyrirkomulagið samræmist ekki trúfrelsi.