Morgunblaðið birtir hinn 2. des. síðastliðin grein eftir Rúnar Kristjánsson þar sem hann gangrýnir grein er undirritaður birti í sama blaði nokkrum vikum fyrr. Rúnar setur einkum út á tvennt.
Í fyrsta lagi er hann ósáttur við að ég leyfi mér að gagnrýna afturhaldssama og oft mannfjandsamlega stefnu kirkjunnar en í þessu tilfelli afstöðu hennar til mannréttinda samkynhneigðra. Margir kristnir hafa tekið þá afstöðu að fólk sem er samkynhneigt eigi ekki að njóta sömu réttinda og aðrir. Sérstaklega gætir þessa meðal ofstækismanna meðal trúaðra. Ég bendi einnig á að kristnir menn hafa í nafni trúarinnar haldið ýmsu fram eða framkvæmt það sem er rangt, mannfjandsamlegt og andstætt almennum siðferðislegum gildum.
Ég get haldið langa tölu um ódæðisverk kirkjunnar í gegnum aldirnar eða rætt um afstöðu hennar til ýmissa mál en læt nægja að oftar en ekki hefur skoðun kirkjunnar verið andstæð vísindum og náttúrulögmálum. Kirkjan taldi jörðina flata og miðju alheimsins. Kirkjan starfaði með blessun Hitlers í Þýskalandi og kaþólskir skoðanabræður þeirra á Ítalíu voru hluti af valdakerfi fasista. Sama var upp á teningnum á Spáni á valdatíma fasista. Þetta leyfi ég mér að gagnrýna og hvika ekki frá þeirri skoðun. Þess ber að geta að á meðal trúaðra voru einstaklingar sem ekki studdu slíkt.
Hitt atriðið sem Rúnar er ósáttur við er að ég skuli leyfa mér að gagnrýna Biblíuna og þá sem fylgja henni án gagnrýninnar hugsunar. Það er rétt að það er mikil fjöldi manna sem leita sér leiðbeiningar í þeirri bók en það segir ekkert til um hve góð hún er.
Biblían er skrifuð af fjölda manna á mismunandi tímaskeiðum. Bókin inniheldur ýmislegt gott en ég leyfi mér einnig að benda á að margar ljótar sögur eru í henni sem enginn læsi fyrir börnin sín í dag. Bókin er kvenfjandsamleg og andstæð samkynhneigðum auk þess fer stundum lítið fyrir mannkærleika, þó sérstaklega er það slæmt í Gamla testamentinu. Nýja testamentið er einnig undir gagnrýni m.a þar sem engar sagnfræðilegar stoðir eru fyrir þeim sögum.
Þeir sem trúa fast á bókina ættu að svara einföldum spurningum: Trúir þú að kona geti fætt eingetið barn? Trúir þú því að hægt sé að ganga á vatni? Trúir þú því að hægt sé að lífga fólk upp frá dauða? Ef einhver svarar já við þessum spurningum er sá sami að tala gegn öllum viðurkenndum vísindalegum staðreyndum. Samt eru milljónir sem trúa þessu.
Ég vil einnig benda á að til eru u.þ.b. 35.000 kristnir söfnuðir um heim allan sem allir hafa sína túlkun á Biblíunni. Hvar er hin rétta trú? Staðreyndin er nefnilega sú að allir þykjast hafa sannleikann í hendi sér. Fyrir utan öll hin trúarbrögðin sem til eru í heiminum sem öll telja sig hinu einu réttu.
Ég er vændur um að þykjast styðja mannréttindi en hunsa rétt þeirra sem trúa. Hvergi fer ég inn á slíkar hugleiðingar og hef ekki haft slíka skoðun. Þvert á móti tel ég að allir eiga að hafa þann rétt að iðka trú sína eða trúa ekki. Ég skora á alla að skoða heimasíðu Siðmenntar á www.sidmennt.is og dæma sjálfir.
Nú að grunnatriðunum. Eftir sem áður stendur gagnrýni mín óhögguð á þá frelsisskerðingu sem samkynhneigðir búa við enn þann dag í dag. Ég krefst sömu réttinda þeim til handa og ég nýt í dag og staðfest eru í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur samþykkt.
Og læt ég nú af þessari umræðu.
Bjarni Jónsson svarar Rúnari Kristjánssyni
Höfundur er félagsmaður í Siðmennt.