Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt afhendir þingmönnum trúfrelsisstefnu sína

Stjórn Siðmenntar – félags um borgaralegar athafnir afhenti í dag þingmönnum „Stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum“.


Í fréttatilkynningu frá Siðmennt segir:

Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallups vill mikill meirihluti landsmanna aðskilja ríki og kirkju. Gallup hefur rannsakað viðhorf almennings til aðskilnaðar ríkis og kirkju frá 1993 og hefur meirihluti landsmanna alltaf verið hlynntur aðskilnaði. Fylgið við aðskilnað hefur þó aukist jafnt og þétt á þessum tíma og nú vilja 67% landsmanna að ríki og kirkja verði aðskilin.

Stjórn Siðmenntar telur kröfuna um aðskilnað ríkis og kirkju vera fyrst og fremst kröfu um frelsi og jafnrétti. Stjórnin telur að ef alþingismenn eru hlynntir jafnrétti verða þeir að vera fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og því að ólík staða mismunandi lífsskoðanahópa verði jöfnuð.

Að lokum vill stjórn Siðmenntar koma á framfæri þökkum til þeirra þingflokka sem hafa hvatt til opinnar umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju.

Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Hólm Gunnarsson,
varaformaður Siðmenntar
siggi@sidmennt.is
s: 898-7585

Trúfrelsisstefnu Siðmenntar er hægt að lesa í heild sinni á vefsíðu Siðmenntar:
http://www.sidmennt.is/trufrelsi/index.html
Fyrir hönd stjórnar Siðmenntar,
Sigurður Hólm Gunnarsson

Til baka í yfirlit