Félögum í Siðmennt hefur fjölgað ört á þessu ári og eru nú 3.269 samkvæmt opinberri skráningu. Þjóðskrá birtir í upphafi hvers mánaðar uppfærðar tölur um skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög. Frá 1. desember á síðasta ári hefur félögum í Siðmennt fjölgað um rúm 16%, og er það hlutfallslega langmesta aukningin meðal stærri félaga. Aukningin er raunar svo mikil að Siðmennt er nú orðið 6. stærsta félagið, og mjakast fram úr Óháða söfnuðinum samkvæmt nýjustu tölum.
Við í Siðmennt erum afar þakklát fyrir þann mikla meðbyr sem við finnum fyrir þessa dagana, en þessi fjölgun gerir það að verkum að við getum betur sinnt okkar innra starfi og byggt félagið hratt upp. Við höfum ávallt haft það að leiðarljósi að félagar í Siðmennt njóti þess að vera félagar, t.a.m. með góðum afsláttarkjörum á athöfnum, sem hafa hækkað jafnt og þétt undanfarin misseri. Það margborgar sig því að vera félagi í Siðmennt!
Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið geta gert það á auðveldan og fljótlegan hátt í gegnum vefsíðu Þjóðskrár.
Ef fram heldur sem horfir næstu tvo mánuði verður fjölgun félaga í Siðmennt ekki einungis hlutfallslega mest heldur einnig mest heilt yfir!